18.07.2017

Fræðsluráð - 297

 
 

Fræðsluráð - 297. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

18. júlí 2017 og hófst hann kl. 16:15

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Birna Þórsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Erna Jóhannesdóttir starfsmaður sviðs og Emma Hinrika Sigurgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs

 

Erlingur Richardsson, nýráðinn skólastjóri GRV, sat fundinn.

 

Dagskrá:

 

1.  

201312020 - Pisa niðurstöður

 

Framhald af 4. máli 294. fundar í Fræðsluráði

 

Fyrir ráðinu lá svar Menntamálastofnunar vegna fyrirspurna ráðsins um fyrirlögn og niðurstöður Pisa könnunarinnar.

Helstu svör voru eftirfarandi:
1)
Í verkferli fyrir PISA 2015 komu ekki upp athugasemdir frá ETS um umrædd svör sem vantaði frá Grunnskólanum í Vestmannaeyjum. Þetta var í fyrsta skipti sem prófið var lagt fyrir rafrænt og hér vantar nokkur svör frá nemendum af tæknilegum ástæðum sem hafa ekkert með framkvæmdina hjá Námsmatsstofnun að gera, enda var unnið samkvæmt þeim reglum sem ETS setur þátttökulöndum. Í flóknu rannsóknasniði getur ýmislegt farið úrskeiðis en ástæður fyrir tapi á svörum nemenda voru tæknilegs eðlis og hefði Námsmatsstofnun ekki geta gert neitt frekar til að koma í veg fyrir það. Á landsvísu er gagnatap af tæknilegum ástæðum í heildina vel innan marka þess sem búist var við að gæti gerst og teljast gögnin fyrir Ísland áreiðanleg og réttmæt.

2)
Það er óheppilegt að þessi gögn geta ekki nýst sveitarfélaginu á sama hátt og áður

3)
Til skýringar á þeim tæknilegu vandamálum sem upp komu þá var fyrirlögnin eins hjá öllum 4000 nemendum sem tóku prófið. Gögnin áttu að vistast á USB lykla sem tengdir eru við tölvuna og keyra forritið. Þessum USB lyklum er skilað til stofnunarinnar eftir prófun og við söfnum skránum inn á tölvu þar. Sama ferli var viðhaft fyrir alla 130 skólana sem tóku þátt. Þessar skrár eru svo eftir prófunina sendar til ETS sem vinnur úr þeim gögnin fyrir gagnagrunninn. Námsmatsstofnun meðhöndlaði skrárnar ekki frekar.
Á Íslandi náðist 85% þátttöku á landsvísu og inni í þessum 15% eru neitanir foreldra, forföll
nemenda, neitanir skóla, undanþegnir nemendur með sérþarfir og svo töpuð gögn vegna tæknilegra þátta. Þessir tæknilegu þættir voru af ýmsu tagi og mismunandi eftir löndum. Hjá okkur voru ekki mörg tilfelli á landsvísu. Sumir USB lyklar reyndust gallaðir og stundum kom upp villa í miðju prófi og nemandi gat ekki haldið áfram með prófið og í öðrum tilfellum hreinlega vantaði skrána á lykilinn.Það er óheppilegt að svona margar skrár töpuðust í einum skóla.

4)
Þess má geta að núna í forprófuninni fyrir 2018 í vor virðast engar skrár hafa tapast vegna tæknilegra þátta. Milli 2015 og 2018 hefur ETS þróað prófforritið enn frekar og skilum við skránum núna beint í grunninn þeirra úti í gegnum netið að prófinu loknu auk þess að taka USB lyklana í hús og sendum þá út eftir að prófun lýkur.

Fræðsluráð þakkar Menntamálastofnun fyrir svörin og lýsir yfir ánægju með að forprófun næstu Pisa könnunar komi betur út og að þeir tæknilegu örðugleikar við fyrstu rafrænu fyrirlögn könnunarinnar séu á undanhaldi. Hins vegar ítrekar fræðsluráð þau tilmæli að undirbúningur og fyrirlögn könnunarinnar sé unnín á sem allra skilvirkasta máta þar sem dýrmætur tími skólastarfsins fer í fyrirlögn Pisa kannana og eiga niðurstöður þess að nýtast sem góð endurgjöf á stöðu menntunar í landinu öllu. Skólayfirvöld í Vestmannaeyjum hafa, líkt og þekkist víðar, nýtt sér niðurstöður könnunarinnar sem ákveðnar vísbendingar um stöðu grunnskólans og mikilvægi slíkra mælinga er ótvírætt. Fræðsluráð hvetur þó Menntamálastofnun til að láta sveitarfélög vita af fyrra bragði ef svo "óheppilega" vill til að svo margar skrár tapist í einum skóla enda getur slíkt skekkt niðurstöður þess skóla verulega.

 

   

2.  

200702204 - Leikskólinn Sóli

 

Kynning á samningi Vestmannaeyjabæjar og Hjallastefnunnar ehf. um rekstur leikskólans Sóla v/Ásaveg

 

Vestmannaeyjabær og Hjallastefnan hafa framlengt samningi um rekstur leikskólans Sóla. Almenn ánægja hefur verið með samstarfið sem hófst 2012. Fræðsluráð fagnar þessum áfanga sem mun tryggja börnum í Vestmannaeyjum áfram þá fyrsta flokks þjónustu sem veitt er á öllum leikskólum sveitarfélagsins og tryggja áfram fjölbreytileika í leikskólastarfi Vestmannaeyja.

 

   

3.  

201104071 - Leikskólamál.

 

Kynning á stöðu biðlista á leikskóla

 

Fram kom að í dag eru engin börn eldri en 18 mánaða á biðlista og hafa börn niður í 15 mánaða aldur fengið úthlutað leikskólaplássi. Í dag bíða einungis 15 börn eftir leikskólaplássi og öll vel undir 18 mánaða aldri.

Ráðið þakkar upplýsingarnar og óskar eftir því að á næsta fundi ráðsins verði lögð fram drög að sviðsmyndum sem tryggja eiga öllum börnum 18 mánaða og eldri leikskólapláss.

 

   

4.  

201707047 - Uppbygging á stoðkerfi fræðslumála og starfsumhverfi kennara haustið 2017

 

Fyrir ráðinu lá minnisblað unnið af Elliða Vignissyni bæjarstjóra, Jóni Péturssyni framkvæmdastjöra fjölskyldu- og fræðslusviðs, Rut Haraldsdóttur framkvæmdastjóra fjármálasviðs og Ólafi Snorrasyni framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs. Minnisblaðið er unnið í framhaldi af skýrslu samstarfshóps um starfsumhverfi kennara við GRV og skýrslu sem unnin var af fyrirtækinu Ráðrík. Í minnisblaðinu er lagt til að sem fyrst verði ráðist í ýmsar úrbætur sem snúa að starfsumhverfi kennara. Þær helstu felast í því að styrkja stoðkerfi skólans og ráðast í ákveðnar úrbætur hvað húsnæði og aðstöðu varðar. Við gerð minnisblaðsins var sérstök áhersla lögð á að taka tillit til óska kennara og annars skólastarfsfólks hvað verklegar framkvæmdir skólahúsnæðis varðar.

Í minnisblaðinu eru lagðar fram eftirfarandi tillögur:
1.Bætt verði við a.m.k. hálft stöðugildi kennslu- og sérkennsluráðgjafa á skólaskrifstofu sem starfi innan GRV og aðstoðar stjórnendur og kennara með skipulag og framkvæmd sérkennslu.
2.Staða sérkennslustjóra sem er inni á leikskólum færist undir skólaskrifstofu og starfshlutfall verði hækkað úr 75% í 90%.
3.Úthlutaðar kennslustundir til GRV verði samtals 1220 kennslustundir á viku og því 29 umfram þá reiknireglu sem almennt er miðað við. Umfram úthlutunin nemur rúmlega stöðugildi kennara sem hugmyndin er að nýtt sé til annarra starfa en bekkjarkennslu. Þannig verði miðað við 29 bekkjardeildir eins og á núverandi skólaári. Skiptingin verði eftirfarandi:
Almennar kennslustundir 1043,3
Sérkennsla 127,7 kennslustundir
Nýbúafræðsla 23 kennslustundir
Tónlistarkennsla frá Tónlistarskólanum 20 kennslustundir (innifalið í almennum kennslustundum)
Viðbótarúthlutun sem skólastjóri ráðstafar alls 26 kennslust.
4.Tafarlaust verði ráðið í stöðu sálfræðings. Fáist ekki sálfræðingur til starfa verður leitað eftir öðrum ráðgjafa í hlutastarf (c.a. 70%) á skólaskrifstofu. Til viðbótar verður greiningarvinna og önnur stoðþjónusta einnig áfram í verktöku hjá löggiltum sálfræðingi.
5.Tafarlaust verði ráðist í lagfæringar á skólahúsnæði Hamarsskóla og Barnaskólans og bætt þar með aðstöðu til kennslu og starfsmannaaðstöðu

Heildarkostnaður af innleiðingu ofangreindra tillagna er rúmlega 60 milljónir króna.

Fræðsluráð þakkar höfundum minnisblaðsins og samstarfshópnum um starfsumhverfi kennara þeirra góðu vinnu.

Ráðið samþykkir þær tillögur sem lagðar eru fram í minnisblaðinu enda falla þær að áherslum ráðsins um að starfsumhverfi og aðstaða endurspegli mikilvægi skólastarfsins og hvetji til árangurs. Ráðið felur framkvæmdastjóra fræðslusviðs að leita eftir samþykki bæjarráðs enda kalla þær á verulegar breytingar á fjárhagsáætlun. Það er von fræðsluráðs að samþykkt þessi verði til þess fallin að efla enn frekar það gæðastarf sem nú þegar er unnið innan veggja Grunnskóla Vestmannaeyja, dragi úr álagi í kennslu og bæti starfsumhverfi kennara og starfsfólks stofnunarinnar.

 

   

5.  

201105032 - Dagvistun í heimahúsum

 

Umsóknir um leyfi til daggæslu í heimahúsi lagðar fram.

 

Umsóknir frá Kristínu Halldórsdóttur og Söndru Gísladóttur um leyfi til daggæslu barna í heimahúsi að Hrauntúni 10 lagðar fram. Fræðsluráð samþykkir erindið enda uppfylla umsækjendur skilyrði reglugerðar fyrir leyfisveitingu.

 

                                                                                              

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.50

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159