17.05.2017

Umhverfis- og skipulagsráð - 268

 
Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 268. fundur haldinn í fundarherbergi Umhverfis- og framkvæmdasviðs, 17. maí 2017 og hófst hann kl. 16:05
 
 
Fundinn sátu:
Margrét Rós Ingólfsdóttir formaður, Ingólfur Jóhannesson aðalmaður, Esther Bergsdóttir aðalmaður, Georg Eiður Arnarson aðalmaður, Sigurður Smári Benónýsson starfsmaður sviðs og Ólafur Þór Snorrason framkvstj.sviðs.
 
Fundargerð ritaði: Sigurður Smári Benónýsson, skipulags-og byggingarfulltrúi
 
 
 
Dagskrá:
 
1. 201703042 - Umhverfismál 2017
Farið var yfir svæði, lóðir og fasteignir þar sem úrbóta er talin þörf. Einnig liggur fyrir tillaga af bréfi til ábyrgðaraðila og almennt tilmælabréf til aðila í atvinnurekstri.
 
Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja vill þakka þeim sem stóðu að umhverfisátakinu "einn poki af rusli" þar sem bæjarbúar voru hvattir til þess að taka einn innkaupapoka með sér í göngutúr og fylla hann af rusli. Ráðið þakkar líka þeim fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum sem tóku áskorun um að fegra umhverfi sitt. Átakið mun halda áfram og hægt er að fylgjast með m.a. á samfélagsmiðlum.
 
Ráðið felur skipulags-og byggingarfulltrúa að senda áskorun um úrbætur til eigenda þeirra eigna sem úrbóta er þörf. Almennt dreifibréf með tilmælum um snyrtilega umgengni skal sent til lóðarhafa í atvinnurekstri.
 
 
 
2. 201702027 - Endurskoðun miðbæjarskipulags.
Umræður um drög að breytingum á deiliskipulagi Miðbæjar.
 
Ráðið felur skipulagsfulltrúa að vinna breytingartillögu sem verður kynnt fyrir hagsmunaaðilum skv. ákvæðum skipulagslaga.
 
 
 
3. 201604099 - Deiliskipulag Austurbæjar við miðbæ
Tekin fyrir að nýju drög að nýju deiliskipulagi af norðurhluta austurbæjar. Skipulagsfulltrúi fer yfir innsend bréf úr kynningar-og samráðsferli skipulagsins.
 
Ráðið þakkar íbúum fyrir áhuga á deiliskipulaginu og innsend bréf. Ráðið felur skipulagsfulltrúa ásamt skipulagsráðgjöfum Alta ehf. að vinna úr athugasemdum og ábendingum sem bárust.
 
 
 
4. 201704213 - Helgafellsbraut 19. Umsókn um byggingarleyfi
Tekið fyrir erindi lóðarhafa. Pétur Árnmarsson sækir um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu sbr. innsend gögn. Fyrir liggur samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða.
 
Ráðið samþykkir með tilvísan til 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð gögn verði grenndarkynnt. Að grenndarkynningu lokinni mun erindið verða tekið til afgreiðslu.
 
 
 
5. 201705004 - Hólagata 2. Umsókn um byggingarleyfi
Tekið fyrir erindi lóðarhafa. Már Friðþjófsson sækir um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu sbr. innsend gögn.
 
Ráðið samþykkir með tilvísan til 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð gögn verði grenndarkynnt. Að grenndarkynningu lokinni mun erindið verða tekið til afgreiðslu.
 
 
 
6. 201705078 - Brattagata 10. Bréf til skipulagsráðs.
Tekið fyrir bréf frá lóðarhafa Bröttugötu 10.
 
Ráðið þakkar bréfritara fyrirspurnirnar. Ljóst er að lóð á Bröttugötu 10 var tiltæk byggingarlóð þegar bréfritara var úthlutuð lóðin. Hefur bréfritari ekki skilað lóðinni formlega, þannig að hann er enn með lóðina.
Að lokinni grenndarkynningu og niðurstöðu hennar var ákvörðun tekin um að deiliskipuleggja Strembuhverfið og þannig stendur málið nú. Ákvörðun um byggingarmagn og þess háttar verður tekin við gerð þess skipulags. Varðandi fyrirspurn um hvort að lóðin sé ætluð sem framtíðar leikvöllur fyrir börn þá er svo ekki, um er að ræða byggingarlóð.
 
 
7. 201705070 - Hásteinsvegur 14b. Umsókn um lóð
Rafn Kristjánsson sækir um lóð nr. 14b við Hásteinsveg.
 
Ráðið samþykkir að úthluta lóð sbr. lóðarblað tæknideildar. Umsækjandi skal skila fullnægjandi teikningum fyrir 1. des. 2017.
 
 
 
8. 201705068 - Umsókn um afnot af Herjólfsdal dagana 3 til 8. ágúst.
Fyrir liggur umsókn ÍBV íþróttafélags um leyfi til að halda þjóðhátíð í Herjólfsdal dagana 3-8 ágúst n.k. og leyfi fyrir húkkaraballi sbr. innsent bréf.
 
Ráðið samþykkir afnot af Herjólfsdal sbr. umsókn. Ennfremur vill ráðið setja sem skilyrði að allt rusl verði hreinsað á svæðinu fyrir 16/8 2017 og á þetta einnig við um brennustæði og næsta nágrenni við Fjósaklett. Öll færanleg mannvirki skulu fjarlægð fyrir 20/8 2017. Þá samþykkir ráðið fyrir sitt leyti fyrirliggjandi staðsetningu á húkkaraballi.
 
 
 
9. 201705085 - Míla. Umsókn um framkvæmdaleyfi.
Elvar Freyr Kristinsson f.h. Mílu sækir um leyfi fyrir lagningu jarðstrengja við Strandveg 18 sbr. innsend gögn.
 
Ráðið samþykkir erindið. Ráðið leggur áherslu á vandaðan frágang og að röskun á svæðinu verði með minnsta móti á framkvæmdatíma. Afgreiðsla þessi er skv. reglugerð nr. 772/2012.
Ráðið felur framkvæmdastjóra sviðsins að kalla eftir framvinduskýrslum á þeim svæðum sem Míla hefur fengið framkvæmdaleyfi og enn eru ófrágengin.
 
 
 
10. 201705080 - Goðahraun 1. Fyrirspurn.
Tekin fyrir fyrirspurn um breytta notkun matshluta 218-3535 úr verslunarrými í gistihúsnæði með átta íbúðum í skammtímaleigu.
 
Ráðið er jákvætt gagnvart þeim breytingum sem koma fram í fyrirspurninni varðandi nýtingu húsnæðisins. Þegar umsókn berst mun hún verða grenndarkynnt fyrir nágrönnum áður en til ákvörðunar kemur.
 
 
 
11. 201705079 - Gaujulundur.
Georg Eiður Arnarson fulltrúi E-lista í Skipulagsráði óskar eftir umræðum um stöðu og framtíð Gaujulundar.
Umræður.
 
Ráðið vill taka það fram að nýlega var unnið að endurbótum á vatnslögn sem liggur frá sorpbrennslu að Gaujulundi. Óski umsjónaraðili eftir frekari aðkomu bæjarins, td. í formi samstarfssamnings skal slíkt erindi berast til bæjarráðs.
 
Georg Eiður Arnarson óskar bókað: samþykki ofangreinda bókun með fyrirvara um að taka málið fyrir aftur sé þess ástæða.
 
 
 
12. 201705082 - Vestmannabraut 61-63B
Georg Eiður Arnarson fulltrúi E-lista í Skipulagsráði óskar eftir umræðum um byggingarlóðir að Vestmannabraut 61-63b.
Umræður.
 
Að beiðni formanns ráðsins lágu fyrir skuggavarpsmyndir sem kynntar voru ráðinu.
 
Meirihluti Umhverfis- og skipulagsráðs ítrekar að farið var eftir öllum þeim lögum og reglugerðum sem í gildi eru um þetta mál. Þá harmar meirihlutinn þá óánægju sem er vegna málsins og hefði gjarnan viljað að þær raddir hefðu komið fram þegar skipulagið var auglýst. Skuggavarpsmyndir sem kynntar voru ráðinu sýna að skuggavarp á umræddu svæði hefur hverfandi áhrif á nærliggjandi hús.
 
Meirihluti ráðsins felur starfsmönnum sviðsins að kanna hvort, og með hvaða hætti, hægt sé að fara aðrar leiðir en nú er gert í kynningu á skipulagsmálum í sveitarfélaginu.
 
Georg Eiður Arnarson óskar bókað: samþykki ofangreinda bókun meirihlutans.
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:15
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159