09.05.2017

Bæjarráð - 3049

 
 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3049. fundur

 

haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,

9. maí 2017 og hófst hann kl. 12.00

 

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði:  Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.  

201212068 - Umræða um samgöngumál

 

Bæjaráð fjallaði um þá slæmu stöðu sem upp er komin vegna ákvörðunar Vegagerðarinnar um að nýta Baldur til siglinga fyrir Herjólf á meðan hann er í slipp án þess að fengin hafi verið undanþága til siglinga á hafsvæði B fyrir hann. Fyrir liggur að enn hefur ekki fengist undanþága Innanríkisráðuneytis til siglinga Baldurs í Þorlákshöfn en erindi þar að lútandi hafa í tvígang verið send inn og þrátt fyrir að bæjaryfirvöld hafi verið meðvituð um að Baldur hefði ekki heimild til siglinga um hafsvæði B stóð bæjarráð í þeirri trú að eins og áður fengist slíkt. Krafa bæjarráðs og Vestmannaeyjabæjar hefur alla tíð verið skýr hvað varðar það að ekki komi á neinum tíma til greina að fengið sé afleysingaskip fyrir Herjólf sem ekki hefur heimild til siglinga í Þorlákshöfn. Til marks um það má nefna fjölmargar ályktanir og erindi send hafa verið samgönguyfirvöldum og vísast þar til að mynda til samþykkt bæjarráðs á 2874. fundi ráðsins þar sem segir að öllum tímum skuli „...tryggt að fullnægjandi skip leysi Herjólf af á meðan á slipptöku stendur“

Seinustu ár hefur ríkt samkomulag milli Vestmannaeyjabæjar, atvinnulífsins í Vestmannaeyjum, hins almenna bæjarbúa og samgönguyfirvalda um að í lengri frátöfum Herjólfs vegna slipptöku og viðhalds myndi skip sem réði við siglingar í bæði Landeyjahöfn og Þorlákshöfn annast þjónustu. Bæjaráð harmar að það samkomulag hafi nú verið rofið og hvetur þingmenn suðurlands til að láta sig málið varða.

 

   

2.  

201705051 - Fjölgun ferða í sumaráætlun Herjólfs 2017.

 

Bæjarráð fagnar því að farnar verði sex ferðir í Landeyjahöfn í sumaráætlun 2017 og þakkar þeim sem lögðu hönd á plóginn við að koma því við.

 

   

3.  

201705039 - Rekstraryfirlit Vestmannaeyjabæjar 2017

 

Rekstraryfirlit Vestmannaeyjabæjar janúar - mars 2017.

 

Fyrir liggur að umtalsvert tekjutap hefur orðið af verkfalli sjómanna en þrátt fyrir að nánast öll fasteignagjöld hafi skilað sér ná heildartekjur ekki fjórðungi áætlaðra tekna. Útskýrist það af mun lægri tekjum af útsvari vegna tilgreinds verkfalls. Gjaldahliðin er hinsvegar í samræmi við áætlun.
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.

 

   

4.  

201705031 - Ábending vegna ráðningar í stöðu skólastjóra GRV

 

Erindi frá Kennarafélagi Vestmannaeyja dags. 25. apríl s.l. þar sem fram koma ábendingar vegna ráðningar í stöðu skólastjóra GRV.Ennfremur liggur fyrir minnisblað frá framkvæmdastjóra vegna þessa.

 

Bæjarráð þakkar þær ábendingar sem fram koma, virðir þær og skilur sjónarmið K.V. Hins vegar tekur ráðið einnig undir minnisblað framkvæmdastjóra um að hann hafi í öllu farið eftir þeim reglum sem framkvæmdastjóra ber að fara eftir í ráðningum sem þessu og minnir á að um er að ræða afleysingastöðu skólastjóra til eins árs.

 

   

5.  

201705042 - Bréf vegna greiðslna í orlofssjóð húsmæðra skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1972.

 

Innheimtubréf frá Lagaþingi sf. dags. 7. apríl s.l. Lýsing kröfu: Krafa þessi er skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1972 um orlof húsmæðra og miðast við 106,40 kr. á hvern íbúa í Vestmannaeyjum sbr. vísitölu neysluverðs í febrúar árið 2016 skv. Hagstofu Íslands.

 

Fyrir bæjarráði lá erindi þar sem óskað er eftir því að Vestmannaeyjabær greiði Kvenfélaginu Líkn 602.674 kr. vegna orlofs húsmæðra. Bæjarráð hefur áður lýst yfir fullum stuðningi við einróma ályktun kvennafundar bæjarstjórnar á kvenréttindadaginn 19. júní 2008 þess efnis að greiðsla húsmæðraorlofs væri ekki í anda jafnréttis. Sá stuðningur er óbreyttur. Hins vegar hefur bæjarráð Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabær átt afar farsælt samstarf við Kvenfélagið Líkn allt frá stofnun þess 14. febrúar 1909. Samstarfið hefur fyrst og fremst einkennst af gagnkvæmri virðingu og samstöðu í því sem snýr að líknarmálum og hefur það til að mynda skilað sér í framlögum til tækjakaupa sjúkrahússins, uppbyggingu í málefnum aldraðra og mörgum fleiri góðum málum. Bæjarráð er afar annt um að hvergi beri skugga á það samstarf og samþykkir því að greiða Líkn 700.000 kr. og hvetur Líkn til að nýta upphæðina til góðgerðamála.

Stefán Óskar Jónasson óskar bókað:
ég fagna þessari niðurstöðu þar sem ég hef stutt málið frá upphafi.

 

   

6.  

201702090 - Skipun stýrihóps vegna endurskoðunar á rekstrarfyrirkomulagi flugvalla.

 

Fyrir bæjarráði lágu drög að samkomulagi milli Vestmannaeyjabæjar, ISAVIA og Byggðastofnunar um stofnun stýrihóps til greininga á sóknarfærum flugvallarins í Vestmannaeyjum með það fyrir augum að efla hann og fjölga þjónustuþegum. Þar verður sérstaklega horft til mikilvægi flugvallarins í almenningssamgöngum og ferðaþjónustu og þá ekki síður hlutverk hans í neyðar- og almannavörnum.

Bæjarráð fagnar samstarfsvilja ISAVIA og Byggðastofnunar og telur að með samstilltu og markvissu átaki megi auka veg flugs og þjónustu flugvallarins í Vestmannaeyjum verulega.

Bæjarráð samþykkir samkomulagið fyrir sitt leyti og enn fremur að Skapti Örn Ólafsson upplýsingafulltrúi Samtaka aðila í ferðaþjónustu (SAF) verði fulltrúi Vestmannaeyjabæjar í hópnum.

 

   

7.  

201704176 - Arðgreiðsla 2017 - Lánasjóður sveitarfélaga

 

Erindi frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. dags. 19. apríl s.l. þar sem fram kemur að samþykkt hafi verið að greiða út arð að upphæð 491 milljón kr. Aðgreiðslan skiptist eftir eignahluta hvers sveitarfélags í Lánasjóðnum. Eignahluti Vestmannaeyjabæjar er 5,81% og arðgreiðslan vegna 2016 er þá 22.837.392 kr. eftir greiðslu fjármagnstekjuskatt.

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.

 

   

8.  

201705005 - Ósk um styrk vegna samgöngufundar

 

Erindi frá Ásmundi Friðrikssyni og Tryggva Má Sæmundssyni dags. 2. maí s.l. þar sem óskað er eftir styrk til greiðslu húsaleigu vegna opins samgöngufundar sem haldinn verður í Höllinni þann 10. maí n.k. kl.18.00

 

Bæjarráð samþykkir erindið.

 

   

                                                                             

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13.00

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159