16.02.2017

Bæjarráð - 3044

 
  

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3044. fundur

 

haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,

16. febrúar 2017 og hófst hann kl. 12.00

 

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði:  Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.  

201702092 - Bókagjöf Ágústar Einarssonar til Bókasafns Vestmannaeyja.

 

Bókasafn Vestmannaeyja hefur bæst í hóp stærstu og merkustu fágætisbókasafna landsins eftir að því barst rausnarleg bókagjöf frá Ágústi Einarssyni. Gjöfin inniheldur um 1500 bækur og er þar að finna nokkrar af merkustu bókum íslenskrar ritlistar svo sem allar Biblíur sem gefnar hafa verið út á Íslandi frá Guðbrandsbiblíu 1584 að telja, Crymogea Arngríms lærða frá 1610, Íslendingabók Ara fróða 1688 og margt fleira. Trúnaðarmenn gjafarinnar verða að beiðni gefenda þeir Arnar Sigurmundsson, Kári Bjarnason og Helgi Bernódusson.
Ágúst gefur safnið til minningar um föður sinn, Einar Sigurðsson útgerðarmann og hans miklu bókasöfnun.
Bæjarráð þakkar þann mikla hlýhug sem gjöfinni fylgir. Með þessari gjöf breyttist staða safnsins frá því að vera átthagasafn upp í það að verða eitt stærsta fágætisbókasafn landsins að Landsbókasafni og Árnastofnun meðtalinni.
Bæjarráð er meðvitað um þá ábyrgð sem mótttaka á slíku safni ber með sér og heitir því að rísa undir þeirri ábyrgð. Bæjarráð felur því bæjarstjóra að kalla eftir hugmyndum trúnaðarmanna gefanda um það hvernig safninu verður sem mestur sómi sýndur og hvernig samfélagið getur sem mest notið þeirra ávaxta sem nálægð við slíkt safn felur í sér.

 

   

2.  

201702090 - Minnisblað starfshóps um endurskoðun á rekstrarfyrirkomulagi flugvalla.

 

Fyrir bæjarráði lá minnisblað starfshóps um endurskoðun rekstarfyrirkomulags flugvalla.
Í minnisblaðinu kemur meðal annars fram að fulltrúar Vestmannaeyjabæjar hafa átt fund með fulltrúum bæði ISAVIA og Innanríkisráðuneytisins með það fyrir augum að efla enn frekar flugvöllinn í Vestmannaeyjum sem bæði gátt að samgöngum og þá ekki síður hlutverk hans í neyðar- og almannavörnum.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að vinna með stýrihópnum að kortlagningu sóknarmöguleika flugvallarins og fá eftir atvikum til liðs sérfróða aðila.

 

   

3.  

201702091 - Uppsagnir ISAVIA á flugvellinum í Vestmannaeyjum

 

Bæjarráð mótmælir ákvörðun ISAVIA um að fækka starfsmönnum á flugvellinum í Vestmannaeyjum um 40% harðlega. Augljóslega er þar með verið að skerða þjónustu við íbúa og ferðamenn. Það sem  öllu verra er að þar með er verið að draga úr getu flugvallar til að sinna hlutverki sínum í neyðarviðbragði og almannavörnum.

Bæjarráð bendir á að ISAVIA er í fullri eigu íslenska ríkisins og því rekið á ábyrgð ráðherra og þingmanna. Það er með öllu óboðlegt að í Vestmannaeyjum og víðar á landsbyggðinni standi íbúar hreinlega frammi fyrir því að með annarri hendinni flytji ríkið alla þjónustu, jafnvel heilbrigðisþjónustu, til Reykjavíkur og með hinni dregur það úr samgöngum sem torveldar íbúum að nota nauðsynlega innviði. Slíkt er til skammar.


Bæjarráð bendir á að ákvörðunin er mannanna verk og ætlast til að þingmenn kjördæmisins með stuðningi annarra þingmanna vindi ofan af þeirri ógn sem í henni er fólgin eigi síðar en strax.

 

   

Á fundinn mætti Arnar Sigurmundsson fyrir hönd S-30 og fór yfir málið.

4.  

201404040 - Erindi frá Þekkingarsetri Vestmannaeyja í tengslum við S30 fasteignafélag.

 

Fyrir bæjarráði lá erindi frá ÞSV (Þekkingarsetur Vestmannaeyja) þar sem óskað var eftir viðræðum við Vestmannaeyjabæ um fjármögnun framkvæmda við húsnæði Ægisgötu 2 og endurleigu þess sem tryggja myndi hagsmuni sveitarfélagsins.

Bæjarráð samþykkir að taka upp viðræður við Þekkingarsetrið og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og fjármálastjóra að leiða þær viðræður.


Við afgreiðslu og umræðum um málið vék Páll Marvin Jónsson af fundi.

 

   

5.  

201702074 - Auglýsing eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga

 

Erindi frá Lánasjóði sveitarfélaga dags, 10. febrúar s.l. þar sem óskað er eftir tilnefningu og eða framboði í stjórn LS. Áformað er að halda aðalfund félagsins þann 24. mars n.k.

 

   

6.  

201702060 - Ósk um styrk vegna ferðar til Berlínar.

 

Erindi frá ellefu nemendum sem valið hafa áfangann ÞÝSK1BE05 við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum þar sem þau óska eftir styrkt til að fara til Berlínar. Tilgangur námsferðarinnar er að nemendur skynji andardrátt sögunnar í Berlín, upplifi milliliðalaust mannlíf og menningu borgarinnar og fái tækifæri til að nota þýska tungu og vinna úr því efni sem undirbúið hefur verið hér heima, bæði á vettvangi og eftir ferðina.

 

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu en felur bæjarstjóra að funda með bréfritara.

 

   

7.  

201702103 - Forkaupsréttur að Gullbergi VE í eigu Vinnslustöðvarinnar

 

Erindi frá VSV dags. 13. febrúar s.l. þar sem Vestmannaeyjabæ er boðið forkaupsréttur að Gullbergi VE. í samræmi við ákvæði 12.gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Í erindinu kemur fram að skipið sé selt ásamt öllu fylgifé, tækjum og búnaði sem skipinu fylgir og tilheyrir. Skipið hefur leyfi til veiða í atvinnuskyni en engin aflahlutdeild eða aflamark eða aðrar veiðiheimildir munu fylgja skipinu við söluna.

 

Bæjarráð þakkar VSV fyrir upplýsingarnar og tilboð um forkaupsrétt þann sem kveðið er á um í lögum um stjórn fiskveiða í þeim tilgangi að skapa sátt um sjávarútveg. Bæjarráð telur hinsvegar ekki forsendur fyrir því að nýta forkaupsréttinn í þessu tilviki og fellur því frá honum.

 

   

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13.15

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159