15.12.2016

Fræðsluráð - 291

 
 Fræðsluráð - 291. fundur

 

haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,

15. desember 2016 og hófst hann kl. 16.30

 

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Birna Þórsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Erna Jóhannesdóttir starfsmaður sviðs, Sigurlás Þorleifsson áheyrnarfulltrúi, Stefán Sigurjónsson áheyrnarfulltrúi, Emma Hinrika Sigurgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi og Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi

 

Þórey Ævarsdóttir og Helga Sigrún Þórsdóttir áheyrnarfulltrúar sátu fundinn.

 

Dagskrá:

 

1.  

201502130 - PISA 2015

 

Greint frá fyrstu niðurstöðum PISA 2015.

 

Í fyrstu niðurstöðum almennt yfir landið kemur fram að náttúrufræðilæsi og stærðfræðilæsi hefur hrakað auk þess sem lesskilningur hefur minnkað frá 2000 en ekki marktækt frá 2006. Staða íslenskra nemenda hefur aldrei verið verri á öllum þessum þremur sviðum og eru niðurstöðurnar áberandi verri en á hinum Norðurlöndunum. Jafnframt kemur fram í fyrstu niðurstöðum PISA að Árborg, Reykjanesbær og Hafnarfjörður eru þau sveitarfélög sem helst sýna framfarir og ber þar Reykjanesbær höfuð og herðar yfir önnur sveitarfélög. Þessi þrjú sveitarfélög eiga það sammerkt að hafa öll farið í markvissa stefnumótunarvinnu með læsi. Framtíðarsýn Vestmannaeyjabæjar og áherslur á læsi og stærðfræði í skólastarfi sem var undirrituð í ágúst 2015 var innleidd að fyrirmynd Reykjanesbæjar þar sem mikil áhersla er m.a. lögð á samvinnu þvert á skólastig, skimunarpróf og snemmtæka íhlutun. Fræðsluráð bindur því miklar vonir við að sú markvissa stefna sem unnið hefur verið eftir nú í rúmt ár, skili árangri til lengri tíma litið.

Vestmannaeyjabæ hefur því miður ekki enn borist niðurstöður með yfirliti yfir árangur nemenda sveitarfélagsins í PISA-könnuninni þrátt fyrir ítrekaðar óskir fræðsluskrifstofu Vestmannaeyjabæjar. Það sama gildir fyrir mörg önnur sveitarfélög á landsbyggðinni. Fræðsluráð skorar því á Menntamálastofnun að öll sveitarfélög landsins sitji við sama borð þegar kemur að birtingu niðurstaðna PISA-kannana. Landsbyggðin á undir högg að sækja hvað varðar árangur í PISA sem og í öðrum samræmdum könnunum. Fræðsluráð hvetur af því tilefni menntamálastofnun til forystu um að rannsaka ástæður þessa mismunar og leita leiða hvernig jafna megi þann mismun til að öll íslensk börn eigi kost á sambærilegri menntun þegar horft er til námsárangurs, óháð búsetu.

 

   

2.  

201004011 - Samræmd könnunarpróf.

 

Skólastjóri GRV greinir frá helstu niðurstöðum samræmdra prófa haustið 2016.

 

Haustið 2016 voru samræmd próf þreytt við GRV í fyrsta skiptið á rafrænu formi. Helstu niðurstöður voru þær að árangur í stærðfræði í 4. og 7. bekk var sérstaklega ánægjulegur eða nálægt 32 sem er vel yfir landsmeðaltali. Árangur í íslensku er við landsmeðaltal í 7. bekk en undir 28 í 4. bekk sem er vel undir landsmeðaltali. Ánægjulegt er sjá að miklar framfarir eru í 7. bekk frá samræmdum prófum þeirra í 4. bekk og þá sérstaklega í stærðfræði. GRV virðist vera með fleiri nemendur með háar einkunnir og færri með mjög lágar einkunnir. Nauðsynlegt er jafnframt fyrir skólastjórnendur að greina ástæður þess að námsárangur, þá sérstaklega í íslensku, taki ekki meiri framförum en raun ber vitni og hvaða hugsanlegu ástæður gætu legið þar að baki.

 

   

3.  

201611080 - Menntamálastofnun. Lesfimiviðmið. Lesferill.

 

Kynning á vinnu Menntamálastofnunar við þróun skimunar- og stöðuprófa í lestri.

 

Menntamálastofnun hefur gefið út lesfimiviðmið fyrir 1.-10. bekk.

Góð lesfimi er samsett færni sem felst í því að lesa hratt, af nákvæmni og með eðlilegum áherslum og hrynjandi. Lesfimiviðmið eru einskonar vörður sem ætlað er að sýna stíganda í lesfimi frá einum tíma til annars. Viðmið um læsi barna eru verkfæri fyrir nemendur, kennara og foreldra til að fylgjast með framförum, styðja við læsi og auka þannig líkurnar á því að sem flestir geti aflað sér menntunar í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í nútímasamfélagi.

 

   

4.  

201612042 - Stuðningur samfélagsins við leik- og grunnskóla í Vestmannaeyjum.

 

Fræðsluráð vill að gefnu tilefni þakka þær rausnarlegu gjafir sem GRV og leikskólum sveitarfélagsins hafa borist að undanförnu sem styðja vel við eflingu skólastarfs í Vestmannaeyjum. Má þar nefna 20 tölvur sem Íslandsbanki gaf nýverið GRV og auðveldaði mjög fyrirlagningu samræmdra prófa þar sem þau voru í ár í fyrsta skipti á rafrænu formi. Landsbankinn hefur gefið 10 tölvuskjái, Skipalyftan, Eyjablikk, Geisli og Miðstöðin gáfu spjaldtölvur til leikskólans, foreldrafélög skólanna, Einhugur, félag einhverfra og aðstandenda þeirra ásamt öðrum góðgerðarsamtökum og velviljuðum einstaklingum hafa að sama skapi stutt myndarlega við skóla sveitarfélagsins. Fræðsluráð metur mikils þennan öfluga stuðning við það mikilvæga samfélagslega verkefni sem menntun barna í Vestmannaeyjum er og enn og aftur sannast hið fornkveðna að það þarf heilt þorp til að ala upp barn.

 

   

5.  

200706213 - Trúnaðarmál.

 

Trúnaðarmál. Eitt mál tekið fyrir.

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159