01.11.2016

Umhverfis- og skipulagsráð - 256

 
Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 256. fundur haldinn í fundarherbergi Umhverfis- og framkvæmdasviðs, 1. nóvember 2016 og hófst hann kl. 16:05
 
 
Fundinn sátu:
Margrét Rós Ingólfsdóttir formaður, Kristinn Bjarki Valgeirsson aðalmaður, Ingólfur Jóhannesson aðalmaður, Esther Bergsdóttir aðalmaður, Georg Eiður Arnarson aðalmaður, Sigurður Smári Benónýsson starfsmaður sviðs og Ólafur Þór Snorrason framkvstj.sviðs.
 
Fundargerð ritaði: Sigurður Smári Benónýsson, skipulags-og byggingarfulltrúi
 
 
 
Dagskrá:
 
1. 201605104 - Skipulagsmál. Ísfélags og Fiskiðjureitur.
Í júní s.l. auglýsti Vstmannaeyjabær eftir áhugasömum samstarfsaðilum um fasteignaþróun á svæðinu. Þrír aðilar/hópar lýstu yfir áhuga á að taka þátt í verkefninu og var þeim boðið að senda inn tillögur sbr. bókun ráðsins þann 29 ágúst s.l. Tveir af þremur hópum skiluðu inn gögnum sem valnefnd hefur nú yfirfarið og liggur álit valnefndar fyrir ráðinu.
 
Álit valnefndar: Í ljósi innsendra gagna er lagt til að áfram verði unnið með tillögu B sem barst frá Steina og Olla ehf., en gerðir eru fyrirvarar við ákveðna þætti sem koma þar fram líkt og tímamörk.
 
Ráðið þakkar þeim aðilum sem sendu inn gögn til valnefndar. Ráðið tekur undir álit valnefndar varðandi tillögu B og felur starfsmönnum umhverfis-og framkvæmdasviðs og formanni ráðsins áframhald málsins.
 
 
 
2. 201610078 - Samkomulag um skipulagsmál milli VSV, ÍV og Vestmannaeyjabæjar
Fyrir ráðinu lá viðauki við fyrra samkomulag Vestmannaeyjabæjar, Ísfélags Vestmannaeyja og Vinnslustöðvar Vestmannaeyja er varðaði; a) dómsmál það, sem rekið var á milli aðila fyrir Héraðsdómi Suðurlands, og b) framtíðarskipulag á hafnarsvæði H-1.
 
Í viðaukanum er sú breyting gerð á fyrra samkomulagi að fellt er út sú framkvæmd að fylla upp í svokallaðan pytt í Friðarhöfn og þess í stað örugg og greið umferð tryggð um vinnusvæðið með því að merkja þar aksturslínu til samræmis við það sem er við vesturkant Friðarhafnar. Jafnframt er kveðið á um að löndunarstútar Ísfélags verða ekki staðsettir við suðurkant Friðarhafnar heldur vesturkant og skulu stútarnir lagðir í jörðu.
 
Þá felur viðaukinn einnig í sér ákvörðun allra aðila um að taka til framkvæmda niðurrif á núverandi húsnæði Ísfélags við Strandveg 26 sem og austurhúsi Fiskiðjunnar sem er í eigu Vinnslustöðvar Vestmannaeyja.
 
Fyrir liggur afgr. framkvæmda -og hafnarráðs dags. 26.10.2016.
 
Ráðið samþykkir viðauka fyrir sitt leyti.
 
 
 
3. 201610040 - Búhamar 23. Umsókn um byggingarleyfi
Tekið fyrir að nýju erindi lóðarhafa. Sótt er um leyfi fyrir stækkun á sólstofu sbr. innsend gögn.
 
Ráðið samþykkir með tilvísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir lóðarhöfum í Búhamri 21, 25, 29, 31, 38, 40 og 68.
Erindið verður tekið til afgreiðslu að lokinni grenndarkynningu.
 
 
 
4. 201610057 - Malarnám í Skansfjöru.
Steini og Olli ehf óska eftir svæði fyrir malarnám í Skansfjöru sbr. innsend gögn. Erindinu var vísað til umsagnar hjá Framkvæmda- og hafnaráði og liggur afstaða ráðins fyrir.
 
Ráðið tekur undir bókun Framkvæmda- og hafnaráðs og felur starfsmönnum Umhverfis-og framkvæmdasviðs að vinna að tímabundinni lausn fyrir bréfritara meðan unnið er nýtt Aðalskipulag.
 
 
 
5. 201603056 - Deiliskipulag á athafnasvæði A-2.
Deiliskipulagsdrög til kynningar.
 
Ráðið þakkar skipulagsfulltrúa fyrir kynninguna.
 
 
 
6. 201609079 - Skipulagsmál við Vigtartorg.
Erindi til umræðu.
 
 
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:10
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159