11.10.2016

Bæjarráð - 3035

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3035. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

11. október 2016 og hófst hann kl. 12.00

 

 

Fundinn sátu:

Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði:  Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.  

201609028 - Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar 2017

 

Forsendur og tímarammi fjárhagsáætlunar Vestmannaeyjabæjar 2017

 

Bæjarráð samþykkir forsendurnar og vísar fjárhagsáætlun til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

 

   

2.  

201609113 - Þekkingarsetur Vestmannaeyja óskar eftir viðræðum við bæjaryfirvöld um að ÞSV gerist rekstraraðili að Náttúrustofu Suðurlands.

 

Fyrirliggjandi samningur milli ÞSV og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Náttúrustofu Suðurlands

 

Trausti Hjaltason gerði grein fyrir þeim viðræðum sem átt hafa sér stað og kynnti drög að samningi.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samning.

 

   

3.  

201610034 - Form og efni viðauka við fjárhagsáætlun

 

Erindi frá Innanríkisráðuneytinu dags. 3. október s.l.
þar sem fram kemur að tilefni bréfsins er að skerpa á verklagi sveitarfélaga vegna gerð viðauka við fjárhagsáætlun.

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur starfsmönnum að ljúka gerð viðauka við fjárhagsáætlun í samræmi við verklagið sem kynnt er í erindinu.

 

   

4.  

201609131 - Ágóðahlutagreiðsla EBÍ 2016

 

Erindi frá EBÍ Brunabót dags. 27. september s.l. þar sem fram kemur að greiddur verður út 50 milljón kr. arður til sveitarfélaganna fyrir árið 2016. Hlutdeild Vestmannaeyjabæjar í Sameignarsjóði EBÍ er 4,013% og greiðsla ársins 2016 er 2.006.500 kr.

 

Erindið er móttekið og bæjarráð samþykkir að nota ágóðahlutdeildargreiðsluna til endurnýjunar á tækjum/tólum hjá slökkviliðinu.

 

   

5.  

201610041 - Erindi til bæjarráðs varðandi Húsmæðraorlof 2016 og 2017

 

Erindi frá Orlofsnefnd húsmæðra í Vestmannaeyjum dags. 6. október s.l. þar sem óskað er eftir því að Vestmannaeyjabær greiði skv. lögum til orlofsnefndar vegna ársins 2016. Einnig er óskað eftir svari hvort sveitarfélagið hyggist greiða styrkinn vegna ársins 2017.

 

Sem fyrr bendir bæjarráð á að upphafsorð 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hljóðar svo: Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í ákvæðinu eru taldar upp nokkrar leiðir til að ná fram markmiði laganna, m.a. að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins auk þess að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Ein af þeim leiðum sem nefndar eru til að ná fram markmiði laganna er að bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu. Löggjafinn gerir því ráð fyrir að sum úrræði sem gripið er til nýtist konum fremur en körlum. Með hliðsjón af jafnréttissjónarmiðum og grundvallarreglum stjórnskipunarinnar er þó augljóst að slíkum úrræðum verður eingöngu beitt þegar nauðsyn krefur til og að rétta hlut kvenna þar sem á hefur hallað. Verður ekki séð að lög um orlof húsmæðra uppfylli þetta skilyrði enda fá húsfeður og eða ekklar ekki notið til jafns við konur þess orlofs sem lögin kveða á um. Ljóst má því telja að lög um orlof húsmæðra brjóta gegn lögum um jafna stöðu karla og kvenna og grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar.

Minnt er á að í kjölfar fyrirspurnar Vestmannaeyjabæjar árið 2007 svaraði Jafnréttisstofa því til að hún teldi líkur á að lög um orlof húsmæðra teljist brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stofan áréttaði þó jafnframt að það sé Alþingis að afnema hin umræddu lög.
Bæjarráð minnir einnig á að á fundi bæjarstjórnar kvenréttindadaginn 19. júní 2008 samþykkti bæjarstjórn ályktun þess efnis að skorað yrði á Alþingi að afnema lög um orlof húsmæðra. Í ályktun þess fundar, sem eingöngu var skipaður konum, sagði: Lög um að orlofsnefndir skipuleggi orlof húsmæðra hver í sínu umdæmi og sjái um rekstur orlofsheimila á kostnað bæjarins þykja tímaskekkja. Bæjarstjórn Vestmannaeyja taldi þá að gildandi lög um húsmæðraorlof ekki vera í anda jafnréttis enda taka þau einungis til kvenna.

Bæjarráð Vestmannaeyja er eins og bæjarstjórn einbeitt í vilja sínum að hafa jafnrétti að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Með ofangreint að leiðarljósi staðfestir bæjarráð að ekki verði greitt út fjármagn til húsmæðraorlofs árið 2016.

Stefán Óskar Jónasson vill láta bóka að hann er hlynntur því að orlofsnefnd húsmæðra í Vestmannaeyjum fá styrkinn og gert verði ráð fyrir styrknum í fjárhagsáætlun 2017.

 

   

6.  

201610033 - Stuðningur við Snorraverkefnið 2017

 

Erindi frá Snorrasjóði dags. 6. október s.l. þar sem óskað er eftir fjárstuðningi við verkefnið.

 

Erindið rúmast ekki innan fjárhagsáætlunar og því getur bæjarráð ekki orðið við beiðninni.

 

   

7.  

201610030 - Umsögn v/ umsóknar um rekstrarleyfi fyrir Eyjabakarí að Faxastíg 36.

 

Erindi frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 6. október s.l.

 

Bæjarráð veitir jákvæða umsögn um rekstrarleyfið svo fremi sem aðrir sem um málið fjalla geri það einnig. Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi rekstrarstaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.
Einnig leggur Vestmannaeyjabær ríka áherslu á að fullt tillit sé tekið til íbúa og annarra rekstraraðila í nágrenninu.

 

   

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13.50

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159