25.07.2016

Umhverfis- og skipulagsráð - 251

 
Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 251. fundur haldinn í fundarherbergi Umhverfis- og framkvæmdasviðs, 25. júlí 2016 og hófst hann kl. 12:05
 
 
Fundinn sátu:
Margrét Rós Ingólfsdóttir formaður, Kristinn Bjarki Valgeirsson aðalmaður, Ingólfur Jóhannesson aðalmaður, Esther Bergsdóttir aðalmaður, Stefán Óskar Jónasson aðalmaður og Sigurður Smári Benónýsson starfsmaður sviðs.
 
Fundargerð ritaði: Sigurður Smári Benónýsson, skipulags-og byggingarfulltrúi
 
 
 
Dagskrá:
 
1. 201604048 - Strandvegur 30. Vigtarhús, breyting á deiliskipulagi.
Tekin fyrir að nýju breytingartillaga deiliskipulags á hafnarsvæði H-1 sem unnin er af skipulagshönnuðum Alta ehf. Tillagan gerir ráð fyrir hækkun á byggingarreit Vigtarhúss úr 11m. í 13,9m.
Breytingartillagan var auglýst á tímabilinu 9. júní til 21. júlí 2016. Eitt bréf barst við auglýsta tillögu.
 
Umhverfis -og skipulagsráð tekur undir ýmis sjónarmið sem koma fram í innsendu bréfi og þakkar bréfritara áhuga á málinu.
Vigtarhúsið er bygging sem er áberandi í bæjarmyndinni og er auk þess hús sem myndar heildarsjónlínu frá smábátahöfninni og upp í miðbæ og því er afar mikilvægt að vel til takist með allar þær breytingar sem koma til með að verða. Miðað við þau gögn sem fyrir liggja þá heimilar ráðið hækkun úr 11 metrum í 13,9 metra. Skuggavarpsteikningar sem liggja fyrir sýna ekki teljandi aukningu skuggavarps.
Eins og að ofan greinir er og verður Vigtarhúsið áberandi í bæjarmyndinni og leggur því ráðið ríka áherslu á að hönnun mannvirkis muni klæða ásýnd bæjarins sbr. markmið deiliskipulags. Slíkt er forsenda þess að byggingarleyfi verði veitt.
 
Ráðið samþykkir breytingartillögu deiliskipulags sbr. ákvæði Skipulagslaga nr.123/2010.
 
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar.
 
 
 
2. 201607038 - Básaskersbryggja 2. Auglýsingar og breytt notkun.
Gísli Ingi Gunnarsson fh. lóðarhafa óskar eftir að nýta húsnæðið sem þjónustu-og verslunarhúsnæði yfir Þjóðhátíðarhelgina. Einnig er sótt um leyfi fyrir auglýsingum á norðurvegg húsnæðis yfir sömu daga.
 
Ráðið hafnar umsókn Eyja eigna ehf. um umsótta starfsemi á jarðhæð Básaskersbryggju 2, fastanúmer 218-2638. Samþykktar teikningar fyrir breyttri notkun og breytingum á húsnæði voru samþykktir af byggingarfulltrúa þann 15.6.2015 og standa framkvæmdir yfir.
Samkvæmt 35 gr. Mannvirkjalaga nr. 160/2010 er óheimilt að taka í notkun mannvirki nema að það uppfylli öryggis- og hollustukröfur og útgefandi byggingarleyfis hafi gefið út vottorð um öryggis- eða lokaúttekt, þetta á einnig við eldri hús sem verið er að breyta og munu fá nýjan notkunarflokk.
Ráðið samþykkir auglýsingar á norðurvegg dagana 26/7-3/8 nk.
 
 
 
3. 201607054 - Heimaklettur. Ábending til Skipulagsráðs.
Pétur Steingrímsson sendir ráðinu bréf með ábendingum um áframhaldandi uppgræðslu í Heimakletti.
 
Ráðið þakkar bréfritara fyrir innsent bréf og þann mikla áhuga sem hann hefur á umhverfismálum.
Ráðið felur starfsmönnum sviðsins að leita álits Landgræðslunar og taka saman kostnað vegna verksins og í framhaldi hvaða svigrúm er til áframhaldandi framkvæmda og leggja fyrir næsta fund.
 
 
 
4. 201009135 - Lóðarmál. Heiðarvegur 6 og Vesturvegur 40.
Stefán Ó. Jónasson óskar eftir í bréfi dags. 21 júlí 2016 að bréf bæjarlögmanns í lóðarmáli vegna Heiðarvegar 6 og Vesturvegar 40 verði lagt fram til kynningar á fundi ráðsins.
 
Stefán Ó. Jónasson víkur af fundi við umræður og afgreiðslu málsins.
 
Bókun D-lista:
Á fundi Umhverfis -og skipulagsráðs Vestmannaeyja þann 9. maí sl. var tekið fyrir lóðarmál á milli Heiðarvegs 6 og Vesturvegs 40, þar sem lagt var fram bréf lóðarhafa Heiðarvegs 6. Ráðið kynnti sér bréfið og fól lögmanni Vestmannaeyjabæjar að svara erindinu sem fyrst sbr. bókun ráðsins. Þann fund sat varamaður E-lista. Fundargerðin var bókuð inn, og samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 26. maí sl. Þar vék bæjarfulltrúi E-lista og ráðsmaður í Umhverfis -og skipulagsráði af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins sökum vanhæfis í málinu.
 
Lögmaður lóðarhafa Heiðarvegs 6 hefur átt í tölvupóstssamskiptum við formann ráðsins, byggingarfulltrúa og nefndarmann E-lista sem tengdur er lóðarhafa nánum fjölskyldutengslum, en nefndarmaður E-lista er vanhæfur til allrar meðferðar málsins skv. stjórnsýslulögum, en þar segir að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila, og ef hann tengist aðilum máls með verulegum hætti. Ljóst er að slíkt á við í þessu tilfelli.
 
Lögmaður Vestmannaeyjabæjar í málinu hefur svarað umræddu bréfi. Það gerði hann í samráði við formann ráðsins og starfsmenn sviðsins. Hér er um að ræða svarbréf, sem unnið var í framhaldi af umræðum á fundi ráðsins og ekki um að ræða ákvarðanatöku eða annað því um líkt. Meirihluti ráðsins ber fullt traust til lögmanns málsins og starfsmanna sviðsins til þess að svara umræddu erindi án frekari afskipta pólitískra fulltrúa.
 
Bréf nefndarmanns E-lista dags. 21.júlí sl. sem hér liggur fyrir er tilkomið þar sem formaður ráðsins synjaði lögmanni lóðarhafa Heiðarvegs 6 um að bóka bréfið inn hjá ráðinu. Í framhaldi sendir nefndarmaður E-lista inn beiðni um að slíkt verði gert. Slíkt er alla jafna ekki gert í þessari stöðu og ekki liggja fyrir gild rök um það hvers vegna málsmeðferð og vinnulag í þessu tiltekna máli ætti að vera frábrugðið viðteknum venjum.
 
Það er ekki vilji meirihluta Umhverfis -og skipulagsráðs að gera erfið lóðamál að opinberu þrætuefni. Slíkt geta aðilar máls séð um sjálfir, enda hafa þeir til þess öll gögn málsins.
 
Að því sögðu, þá hefur umrætt svarbréf verið lagt fram til kynningar eins og óskað var eftir í bréfi fulltrúa E-lista.
 
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign)
Esther Bergsdóttir (sign)
Ingólfur Jóhannesson (sign)
Kristinn Bjarki Valgeirsson (sign)
 
 
 
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:10
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159