18.07.2016

Fræðsluráð - 287

 
 Fræðsluráð - 287. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

18. júlí 2016 og hófst hann kl. 16:30

 

Fundinn sátu:

Trausti Hjaltason formaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Sigurlás Þorleifsson áheyrnarfulltrúi, Emma Hinrika Sigurgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi, Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi, Lóa Baldvinsdóttir áheyrnarfulltrúi, Helga Sigrún Þórsdóttir áheyrnarfulltrúi og Hildur Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs

 

 

Dagskrá:

 

1.  

201607047 - Hlutverk fræðsluráðs og áheyrnarfulltrúa.

 

Framkvæmdarstjóri fræðslusviðs fór yfir hlutverk fræðsluráðs og áheyrnarfulltrúa. Fræðsluráð þakkar yfirferðina.

 

   

2.  

201605055 - Fagleg úttekt á stöðu GRV á samræmdum prófum. Framhald af fyrsta máli 286. fundar.

 

Minnisblað stýrihóps lagt fram.

 

Verkefni stýrihópsins var að fylgja eftir þeim verkefnum sem voru listuð upp í skýrslu Ráðríks. Fyrsta verkefnið sem stýrihópurinn einbeitti sér að var ábending sem snýr að stjórnun skólans. Í skýrslunni segir. "Endurskoða stjórnendateymi með það fyrir augum að skýra betur ábyrgðarsvið stjórnenda."

Tekið skal fram að önnur atriði sem eru til umfjöllunar í skýrslu Ráðríks verða tekin upp á næsta skólaári af stýrihópnum og verða til umfjöllunar þá.

Stýrihópurinn hefur fundað einslega með skólastjóra, aðstoðarskjólastjórum og deildarstjórum. Einnig var fundað einslega með fimm kennurum, framkvæmdastjóra fræðslusviðs og fræðslufulltrúa. Í kjölfarið var fundað með skólastjóra Víkurinnar og síðan öllum starfsmönnum Víkurinnar. Stýrihópurinn hefur síðan átt nokkra fundi sín á milli.

Í vinnu stýrihópsins komu fjölmargar gagnlegar ábendingar frá stjórnendum, kennurum og starfsmönnum fræðsluskrifstofu. Ítrekað kom fram að mikilvægt væri að halda stöðugleika í stjórnendateyminu og að starfsfólk fái sem skýrust skilaboð varðandi verkaskiptingu milli stjórnenda. Kallað var eftir meiri faglegri endurgjöf og kom fram sú ábending að stjórnendur móti sér stefnu til 2-3 ára hvað þetta varðar og þá væri hægt að nota áfram örnámskeiðin sem hafa gefist vel, fyrirlestra, nýta betur kennsluráðgjafann, samkennslu og kennarar fylgist með kennslu hjá hvor öðrum og gefi ráð. Starfsmenn skólans voru almennt á sömu línu og til að draga saman helstu niðurstöður viðtalanna og ábendingum úr skýrslu Ráðríks hvað stjórnunarþáttinn varðar þá eru þær helstu þessar:

- Móta stefnu varðandi faglega endurgjöf til kennara. Lagt er til að skólastjóri fylgi því eftir að slík stefna verði formlega sett.
- Stjórnendur GRV skýri ábyrgðar- og verksvið hvers stjórnanda í byrjun annar fyrir starfsfólki sínu. Lagt til að skólastjóri fylgi því eftir.
- Skipa faghóp þvert á skólastig í kjarnagreinum. Lagt er til að framkvæmdarstjóri fræðslusviðs leiti til stjórnenda allra skólastiga og hvetji til slíks samráðs milli kennara í kjarnagreinum.
- Halda reglulega fundi stjórnenda GRV með framkvæmdarstjóra og kennsluráðgjafa einu sinni í mánuði eða eftir þörfum. Lagt er til að bæjarstjóri og formaður fræðsluráð sitja slíkan fund einu sinni á önn. Lagt er til að framkvæmdarstjóri í samstarfi við viðeigandi aðila fylgi þessu eftir í sameiningu.
- GRV vinni markvisst að innra mati og fylgi því eftir í samræmi við ábendingar Ráðríks. Slík vinna er farin af stað hjá stjórnendum GRV og er lagt til að skólastjóri fylgi því áfram eftir.
- Kynna niðurstöður skólapúlsins fyrir hagsmunaðilum og vinna markvisst úr þeim og nýta til úrbóta á skólastarfi. Mikið af gagnlegum upplýsingum koma fram í skólapúlsinum ár hvert og telur stýrihópurinn vera sóknarfæri í því að birta helstu upplýsingar þeim aðilum sem við á hverju sinni. T.d. á heimasíðu skólans og eða með kynningum í fræðsluráði, nemendaráði, foreldrafélagi og meðal kennara. Einnig þarf að skoða hvort að ekki megi afmarka betur skólapúlsinn í takt við stærð og stefnu skólans.
- Í vinnu stýrihópsins kom einnig fram að það væri sóknarfæri í því að færa 5 ára deildina undir stjórn GRV til að auðvelda enn frekar allt samstarf milli stofnanna. Stýrihópurinn tekur undir þau sjónarmið og leggur til að sú hugmynd verði rædd í fræðsluráði og tekin formleg afstaða til hennar.

Fræðsluráð mun áfram fylgjast með framgangi mála og að ári liðnu taka aftur upp þær ábendingar og niðurstöður sem stýrihópurinn lagði fram hér að ofan og setja þær á dagskrá ráðsins. Minnisblað sem hér var lagt fram verður skjalað hjá fræðsluskrifstofu í því skyni.

Fræðsluráð þakkar öllum sem komið hafa að þessari miklu vinnu fyrir samstarfið og bindur miklar vonir við að áfram verði gott samstarf um að vinna að því að gera góðan skóla enn betri. Næst mun stýrihópurinn koma saman í byrjun haustannar og fjallar þá áfram um þau atriði sem honum var falið að fjalla um.

 

   

3.  

200703260 - Skýrsla um skólahald Grunnskóla Vestmannaeyja.

 

Ársskýrsla Grunnskóla Vestmannaeyja 2015-2016 lögð fram til kynningar.

 

Skólastjóri GRV kynnti helstu atriði skýrslunnar. Fræðsluráð þakkar kynninguna. Skýrslan verður aðgengileg á heimasíðu GRV.

 

   

4.  

201103116 - Staða og þróun sérkennslu og stuðnings í GRV - framhald af 5. máli 286. fundar.

 

Yfirlit yfir stuðnings- og sérkennslu í GRV 2015-2016

 

Fræðslufulltrúi Vestmannaeyjabæjar hefur nú tekið saman minnisblað í kjölfar ábendingar skólamálanefndar sambandsins þar sem sveitarfélög eru hvött til þess að kanna í hverju aukning á eftirspurn eftir sérkennslu og stuðningi felist.

Helstu upplýsingar minnisblaðsins eru að heildarfjöldi barna í GRV voru 520 nemendur. Alls voru 146 börn skráð í stuðning, sérkennslu eða þroskaþjálfun. Það er um 28% af heildarfjölda nemenda. Almennt hefur nemendum, sem fá sérkennslu, stuðning og/eða þroskaþjálfun, tímabundið eða til lengri tíma fjölgað um 8,4% frá haustinu 2013.
Fjöldi nemenda sem fá stuðning vegna tvítyngis (eru með annað móðurmál en íslensku) hefur tvöfaldast. Fjölgun úr 16 nemendum haustið 2013 í 32 á skólaárinu 2015-2016 eða 6,2% af heildarfjölda nemenda. Hlutfall barna sem vinna að öllu leyti skv. sérnámskrá vegna fötlunar helst nokkuð stöðugt og er nálægt 2-3% af heildarnemendafjölda skólans.
Niðurstöður samantektar leiða í ljós að á síðasta skólaári voru um 30,6 nemendur á bak við hvert stöðugildi starfsmanna sem sinna sérkennslu, stuðningi, þroskaþjálfun og störfum stuðningsfulltrúa. Árið 2013 voru 36,2 nemendur á bak við hvert stöðugildi. Meðaltal síðustu 7 ára er 38 börn pr. stöðugildi.
Mesta aukningin og eftirspurn eftir sérkennslu- og stuðningsþörf virðist vera vegna fleiri barna sem greinast með ADHD og einhverfu eða um 35 nemendur, ásamt mikilli aukningu barna með annað móðurmál en íslensku.

Tíu kennarar í um 5,4 stöðugildum sáu að mestu um stuðning og sérkennslu ásamt tveimur þroskaþjálfum í samtals 1,5 stöðugildum. Tuttugu stuðningsfulltrúar í u.þ.b. 50-60% starfshlutfalli hver, sáu um stuðning. Alls voru 12 tilvísanir vegna grunnskólabarna sendar til talmeinafræðings og 51 tilvísanir samþykktar til sálfræðings. Kennsluráðgjafi fylgdi eftir framtíðarsýn, skimunum, eftirfylgd og kynningum á stefnum og markmiðum hennar.

Fræðsluráð þakkar samantektina og ábendinguna frá skólamálanefnd sambandsins.

 

   

5.  

200905098 - 5 ára leikskóladeild. Víkin

 

Stýrihópur fræðsluráðs sem vinnur að úrvinnslu á niðurstöðum úttektar Ráðríks ehf. á GRV lagði það til í ályktun sinni að yfirstjórn 5 ára deildar Kirkjugerðis, Víkurinnar, yrði færð undir skólastjóra GRV. Stýrihópurinn fundaði með leikskólastjóra og starfsmönnum 5 ára deildarinnar auk skólastjóra GRV til að ræða þennan möguleika.

Slík skipulagsbreyting myndi að mati stýrihópsins festa betur í sessi stöðu og stefnu 5 ára leikskóladeildarinnar sem aðlögun og þróun fyrir elstu leikskólabörnin úr leikskólaumhverfi og yfir í grunnskólaumhverfi.

Mikil ánægja hefur almennt verið með tilkomu og starf 5 ára deildar Kirkjugerðis jafnt hjá nemendum, foreldrum, leikskólakennurum og grunnskólakennurum. Betur hefur gengið að aðlaga börnin við upphaf grunnskólagöngu þar sem börnin hafa kynnst skólahúsnæðinu, starfsfólkinu, frístundaverinu og íþróttahúsinu sem það mun sækja við skólagöngu yngstu bekkja GRV. Leikskólabörn koma að sögn kennara og stjórnenda GRV almennt betur undirbúin í grunnskólann.

Það er álit fræðsluráðs að með því að færa stjórnun 5 ára leikskóladeildar undir stjórn skólastjóra GRV sé verið að festa 5 ára deildina enn frekar í sessi og það sé mikilvægur þáttur í átt að bættum námsárangri nemenda. Með slíkri breytingu yrði meiri samfella í leikskólagöngu barna úr báðum leikskólum, samskipti, samstarf og ábyrgð 5 ára deildar og GRV ætti að aukast enn frekar og starfsmenn Víkurinnar og GRV að verða einn heild.

Fræðsluráð leggur áherslu á að starfsemi 5 ára deildar verði sem fyrr rekinn á forsendum leikskóla.

Fræðsluráð samþykkir því að yfirstjórn 5 ára deildarinnar færist frá Kirkjugerði undir stjórn skólastjóra GRV. Stefnt skal að því að þessar breytingar taki gildi haustið 2016. Samþykkið er gert með fyrirvara um samþykki bæjarráðs og bæjarstjórnar hvað varðar breytingar á starfsmannahaldi. Framkvæmdarstjóra fræðslusviðs er falið að vinna málið áfram og leggja fram minnisblað vegna þessa til bæjarráðs vegna breytinga á starfsmannahaldi.

 

   

6.  

201606031 - Ósk um breytingu á skóladagatali 2016 - 2017 varðandi starfsdag.

 

Ósk frá leikskólanum Sóla um að færa til einn starfsdag þ.e. 26. maí 2017 til 16. sept 2016

 

Fræðsluráð samþykkir erindið og beinir því til forstöðumanna og skólaskrifstofu að auglýsa breytt skóladagatal vel.

 

   
                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:10

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159