14.06.2016

Umhverfis- og skipulagsráð - 249

 
Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 249. fundur haldinn í fundarherbergi Umhverfis- og framkvæmdasviðs, 14. júní 2016 og hófst hann kl. 16:05
 
Fundinn sátu:
Margrét Rós Ingólfsdóttir formaður, Ingólfur Jóhannesson aðalmaður, Esther Bergsdóttir aðalmaður, Stefán Óskar Jónasson aðalmaður, Sigurður Smári Benónýsson starfsmaður sviðs og Ólafur Þór Snorrason framkvstj.sviðs.
 
Fundargerð ritaði: Sigurður Smári Benónýsson, skipulags-og byggingarfulltrúi
 
 
Dagskrá:
 
1. 201604044 - Lundaveiði 2016.
Tekið fyrir að nýju, Lundaveiði í Vestmannaeyjum 2016.
Fyrir fundinum liggja álit Bjargveiðifélags Vestmannaeyja og Náttúrustofu Suðurlands.
 
Umhverfis-og skipulagsráð hefur kynnt sér umsagnir sem ráðið kallaði eftir frá Náttúrustofu Suðurlands og Bjargveiðimannafélagi Vestmannaeyja. Í stórum dráttum er samhljómur á milli þessra umsagna og ljóst að þeir aðilar sem best til þekkja hafa miklar áhyggjur af viðkomubresti lundastofnsins undanfarin ár. Sérfróðir aðilar eru almennt þeirrar skoðunar að viðkomubresturinn sé tilkominn vegna breytinga í náttúrunni en ekki veiða.
 
 
Fulltrúar D-lista bóka:
Meirihluti ráðsins telur afar mikilvægt að stýring veiða á lunda í Vestmannaeyjum taki á öllum stundum fyrst og fremst mið af viðkomu stofnsins. Samkvæmt lögum er veiðitímabil lunda að öllu jöfnu frá 1. júlí til 15. ágúst eða 46 dagar. Með tilliti til stöðunnar samþykkir ráðið að skerða veiðitímabilið um 94% og heimila eingöngu veiðar í 3 daga af 46, frá 12. ágúst til 14. ágúst. Er um að ræða sama dagafjölda og árið 2015.
Reynsla síðastliðinna ára hefur sýnt að þeir fáu dagar sem lundaveiði er heimiluð eru nýttir til þess að viðhalda þeirri merkilegu menningu sem fylgir veiðinni og úteyjarlífi almennt. Þá er tíminn nýttur til að viðhalda húsnæði úteyjanna og huga að öðru sem fylgir úteyjunum.
Fulltrúar D-lista hvetja bjargveiðimenn til þess að ganga fram af varkárni við veiðar og haga þeim með þeim hætti að lundinn njóti ætíð vafans.
 
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign)
Ingólfur Jóhannesson (sign)
Esther Bergsdóttir (sign)
 
 
Fulltrúi E-lista bókar:
Lundaveiði sumarið 2016
Við á Eyjalistanum leggjum til að leyfðir verði 5 veiðidagar. Annars vegar helgina 6. og 7. ágúst og hins vegar 13. til og með 15. ágúst.
Á undanförnum árum hefur skapast sátt á milli bæjarstjórnar og bjargveiðifélaganna um að leyfa nokkra daga á sumri í samræmi við hefðir og til þess að kynna þetta fyrir unga fólkinu okkar. Einnig gefst bjargveiðimönnum tækifæri á að nýta þessa daga til að yfirfara húsnæði sín o.a.
Ástæðan fyrir því að við leggjum til þessa dreyfingu á dögunum, er til þess ad gefa vísindamönnum tækifæri á að kanna betur, hvernig aldurs hlutfallið í veiðinni breytist þegar lengur líður á veiðitímann.
Á síðasta veiðitímabili voru leyfðir aðeins 3 dagar og veiddist aðeins ungfugl, og því Ijóst að þessir veiðidagar eru mjög mikilvægir upp á að fylgjast með því hvernig stofninn þróast.
 
Stefán Óskar Jónasson (sign)
 
 
Fulltrúar D-lista bóka:
Meirihluti Umhverfis- og skipulagsráðs telur ekki ástæðu til þess að fjölga veiðidögum eins og E-listi leggur til í sinni bókun og hafnar þeim rökum sem og þeim rangfærslum sem fram koma í tillögunni. Skv. upplýsingum frá Náttúrustofu Suðurlands var hlutfall ungfugla um 61% af veiðinni í Vestmannaeyjum í fyrra og því ekki um að ræða einn fugl eins og fullyrt er í tillögu E-listans.
Þá er í tillögu E-lista vísað til þess að breyting sé þörf fyrir vísindasamfélagið en að mati Náttúrustofu Suðurlands er engin ástæða til þess að leyfa veiðar á vísindalegum grunni og má þar með segja að tillagan missi marks.
Meirhluti ráðsins ítrekar tilmæli til veiðimanna að haga veiðum með þeim hætti að lundinn njóti ætíð vafans.
 
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign)
Ingólfur Jóhannesson (sign)
Esther Bergsdóttir (sign)
 
 
 
2. 201606036 - Eldfell - uppgræðsla
Umræður um umhverfisátak í Eldfelli
 
Í tilefni af 70 ára afmæli Vinnslustöðvarinnar hefur stjórn VSV samþykkt að ráðast í verkefni við uppgræðslu við Eldfell í samvinnu við Vestmannaeyjabæ. Vinnslustöðin mun leggja fjármagn til verkefnisins næstu 3-4 árin. Myndað hefur verið aðgerðateymi skipað einstaklingum frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslunni, Arkitektarstofunni Landmótun, frá Vinnslustöðinni, áhugafólki og frá Vestmannaeyjabæ. Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar í teyminu eru formaður Umhverfis-og skipulagsráðs og Bjarni Ólafur Marinósson verkefnastjóri.
Uppgræðsla við Eldfell er mikilvægt verkefni sem brýn þörf er að ráðast í. Vestmannaeyjabær hefur haft mikinn vilja til að lagfæra það sem þarf að gera, en til þess hefur fyrst og fremst skort mannafla. Umhverfis-og skipulagsráð fagnar frumkvæði VSV og lýsir sig viljugan til þess að gera samstarfssamning vegna verkefnisins. Reynt verður að hámarka þátttöku almennings, fyrirtækja og félagasamtaka í verkefninu. Mun upphafspunktur þess vera hluti af dagskrá Goslokahátíðar fimmtudaginn 30. júní og verður það nánar kynnt síðar.
 
 
 
3. 201509061 - Kleifar 2. Umsókn um byggingarleyfi
Arnar Richardsson fh. Hafnareyris ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir frystigeymslu á lóð fyrirtækisins við Kleifar 2 sbr. innsend gögn.
 
Ráðið er sem fyrr jákvætt fyrir viðbyggingu á umræddum byggingarreit. Gerðar hafa verið jákvæðar breytingar á teikningum, til að mynda er búið að breyta þakkanti hússins. Nú er þakkantur síðari niður á langhliðar og nær lárétt yfir gafla hússins. Þar með er vegið gegn sjónrænum áhrifum hússins. Enn fremur eru umhverfisaðgerðir svo sem hleðslur og fl. notaðar á hliðstæðan máta.
Ráðið hefur þó sem fyrr áhyggjur af sjónrænum áhrifum suðurgafls og austurveggjar sem verður afar áberandi í ásýnd svæðisins og telur mikilvægt að byggingaraðili leggi fram endanlega áætlun um hvernig slíku verður mætt.
 
Ráðið samþykkir byggingaráform lóðarhafa með fyrirvara um að brugðist verði við athugasemdum áður en endanlegt byggingarleyfi verður gefið út.
 
 
 
4. 201605080 - Faxastígur 36. Umsókn um byggingarleyfi
Tekið fyrir að nýju erindi um breytta notkun matshluta 0102.
Fyrir liggja umsagnir umsagnaraðila.
 
Ráðið samþykkir breytingar á húsnæði með vísan til fyrirliggjandi umsagna.
 
 
 
5. 201606003 - Ofanleitisvegur 4. Umsókn um byggingarleyfi
Ólafur Traustason sækir um byggingarleyfi fyrir sumarhúsi sbr. innsend gögn.
 
Byggingarleyfi samþykkt.
 
 
 
6. 201605118 - Tangagata 1. Umsókn um byggingarleyfi
Einar Matthíasson fh. húseigenda sækir um leyfi fyrir breytingum á matshluta 0201 sbr. innsend gögn.
 
Erindi samþykkt.
 
 
 
7. 201606058 - Skipalyftan ehf. Umsókn um byggingarleyfi
Stefán Örn Jónsson fh. lóðarhafa sækir um leyfi fyrir viðbyggingu sbr. innsend gögn.
 
Erindi samþykkt.
 
 
 
8. 201605143 - Bárustígur 11. Fyrirspurn til Skipulagsráðs
Sigurður Gíslason óskar eftir afstöður ráðsins til viðbyggingar veitingahús til austurs sbr. innsend gögn.
 
Ráðið er hlynnt erindinu.
 
 
 
9. 201605127 - Bréf til Umhverfis-og skipulagsráðs
Tekið fyrir að nýju bréf frá Elísabetu Arnoddsdóttur dags. 19 maí 2016.
 
Ráðið þakkar bréfritara fyrir bréfið og áhuga á umhverfinu. Ráðið felur formanni ráðsins og framkvæmastjóra Umhverfis-og framkæmdasviðs að svara bréfritara.
 
 
 
10. 201606044 - Heiðarvegur 32. Stækkun bílastæðis
Ævar Rafn Þórisson sækir um stækkun á bílastæði innan lóðar.
 
Ráðið samþykkir erindið. Allur kostnaður við framkvæmdir utan lóðarmarka eru á kostnað framkvæmdaraðila og skal tilkynna til Þjónustumiðstöðvar Vestmannaeyjabæjar.
 
 

11. 201606064 - Vestmannabraut 72. Umsókn um byggingarleyfi
Kristján Yngvi Karlsson sækir um leyfi fyrir viðbyggingu til norðurs skv. skipulagi lóðar.
 
Ráðið samþykkir byggingaráform lóðarhafa og felur byggingarfulltrúa framgang erindis.
 
 
 
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:20
 
 
 
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159