25.05.2016

Fræðsluráð - 286

 
  Fræðsluráð - 286. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

25. maí 2016 og hófst hann kl. 16:30

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Bjarni Ólafur Guðmundsson 3. varamaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Sigurlás Þorleifsson áheyrnarfulltrúi, Stefán Sigurjónsson áheyrnarfulltrúi, Emma Hinrika Sigurgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi, Hildur Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi,  Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi, Lóa Baldvinsdóttir áheyrnarfulltrúi og Helga Sigrún Þórsdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs

 

Dagskrá:

 

1.  

201605055 - Fagleg úttekt á stöðu GRV í samræmdum prófum

 

Skýrsla um faglega úttekt á stöðu GRV í samræmdum prófum ásamt ábendingum um mögulegar leiðir til úrbóta lögð fram til kynningar.

 

Á fundi fræðsluráðs nr. 281 þann 17. desember 2015 var lagt til að framkvæmd yrði fagleg úttekt á starfi GRV með höfuðáherslu á að greina ástæður þess að nemendur í GRV mælist að jafnaði undir landsmeðaltali í samræmdum mælingum. Ráðrík ehf hefur nú skilað af sér
úttekt á þessum þætti ásamt ábendingum um mögulegar leiðir til úrbóta. Úttektin hefur nú þegar verið ítarlega kynnt af starfsmönnum Ráðrík ehf. bæjarstjórn, fræðsluráði og öllum kennurum GRV og er úttektin aðgengileg á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar. Í úttektinni eru efnisatriði listuð upp sem leitt gætu til umbóta í skólastarfi og eru þannig líkleg til að efla nemendur og árangur þeirra á samræmdum prófum. Einnig eru helstu verkefni listuð upp og eru þau sem hér segir:

1. Skólayfirvöld: Endurskoða stjórnendateymi með það fyrir augum að skýra betur ábyrgðarsvið stjórnenda. Aukin stoðþjónusta s.s. kennsluráðgjöf, námsráðgjöf og sálfræðiþjónusta. Eftirsóknarverðari námsaðstöðu fyrir eldri nemendur í Barnaskóla komið upp. Eftirlit með innra mati og þétt eftirfylgd með umbótaáætlun skólans.
2. Skólinn: Skólastjóri sitji kennslustundir, veiti kennurum endurgjöf og styðji þannig við daglegt starf þeirra, auk þess að hafa þá yfirsýn yfir þær kennsluaðferðir sem notaðar eru í skólanum. Styrkja enn samskipti við heimilin og samfélagið. Vinna þétt með lestrarstefnu og markmiðssetja fleiri námsgreinar. Vinna innra mat í samræmi við lög. Heimanámstímar verði settir inn í lífstílssamning Íþróttaakademíu.
3. Kennarar: Nýta betur niðurstöður mælinga; skimunarpróf og samræmdar kannanir. Mæta þeim nemendum betur sem geta farið hraðar yfir, m.a. með einstaklingsbundnu námi þar sem nemendur setja sér eigin markmið í námi á grundvelli vel útfærðra og markmiðssettra námsskráa.

Fræðsluráð telur mikilvægt að úttektinni verði fylgt vel eftir og samþykkir myndun stýrihóps sem hefur það hlutverk að fylgja eftir þeim verkefnum sem listuð eru upp í úttektinni. Stýrihópinn skipa Trausti Hjaltason formaður fræðsluráðs, Hildur Sólveig Sigurðardóttir varaformaður fræðsluráðs og Sonja Andrésdóttir fulltrúi E-lista í fræðsluráði. Stýrihópnum ber að kalla til helstu hagsmunaaðila til að eiga samtal um mögulegar lausnir og frekari úrbætur. Stýrihópurinn mun hefja þegar störf og starfa út næsta skólaár 2016-2017 og mun fræðsluráð fjalla um störf stýrihópsins og tillögur þegar tilefni gefst til.

 

   

2.  

201304035 - Skóladagatal. Samræmd dagatöl skóla og frístundavers.

 

Framhald á 1. máli 285. fundar fræðsluráðs frá 19.4. 2016

 

Áætlað er að sumarlokun leikskólanna sumarið 2017 verði frá 17. júlí til og með 15. ágúst. Áætlað er að gæsluvöllurinn Strönd verði opinn þann tíma sem sumarlokun leikskóla stendur yfir.

Jafnframt er gert ráð fyrir að leikskólar verði lokaðir vegna kjarasamningsbundinna starfsdaga 27. og 30. desember 2016. 12. og 21. apríl 2017 og 26. maí 2017 . Ekki er gert ráð fyrir að lokað verði hluta úr degi vegna samstarfs í leikskólanum Kirkjugerði/Víkinni eins og tíðkast hefur.

Kennarar GRV hefja störf 15. ágúst eftir sumarorlof 2016. Skólasetning GRV verður mánudaginn 22. ágúst 2016. Vetrarfrí verður frá 19. október 2016 til 21. október 2016 og starfsdagur 24. október 2016. Jólafrí verður dagana 21. desember 2016 til 2. janúar 2017. Starfsdagur 3. janúar 2017. Páskafrí verður frá 10. apríl 2017 til og með 17. apríl 2017. Jafnframt verður grunnskólinn lokaður vegna kjarasamningsbundinna starfsdaga 19. janúar, 21. apríl og 1. júní 2017. Skólaslit í GRV verða 2. júní 2016. Starfsdagar 6.-8. júní 2017. Gert er ráð fyrir að frístund verði opin allan daginn á starfsdögum GRV.

Ráðið samþykkir framlagt skóladagatal fyrir skólaárið 2016-2017.

 

   

3.  

200703065 - Gæsluvöllurinn Strönd

 

Rekstur gæsluvallar sumarið 2016

 

Ráðið samþykkir tillögu framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs um að starfstími gæsluvallarins Strandar verði frá kl. 13:00-16:00 á tímabilinu 17. júlí til og með 15. ágúst 2016. Jafnframt samþykkir ráðið að vistunargjöld verði óbreytt kr. 800 á dag fyrir hvert barn.

 

   

4.  

201605042 - Ábending til skólanefnda um kostnað vegna námsgagna

 

Samband íslenskra sveitarfélaga sendi ábendingu dags 3. maí 2016 til skólanefnda um kostnað vegna námsgagna. Þar er þeim tilmælum beint til skólanefnda og skólaskrifstofu að kanna framkvæmd þessara mála í hverju sveitarfélagi. Fræðsluráð tekur undir það sjónarmið að kostnaði vegna ritfanga og annarra gagna vegna skólagöngu barna sé haldið í lágmarki. Bent er á að hjá GRV er námsgögn keypt inn fyrir alla nemendur frá 1. til 5. bekk með þeim tilgangi að lágmarka kostnað foreldra og hefur verið mikil ánægja með þetta fyrirkomulag. Stefnt er að því að umrætt fyrirkomulag verði fyrir alla bekki GRV.

 

   

5.  

201605054 - Staða og þróun sérkennslu og stuðnings.

 

Bókun Skólamálanefndar sambandsins frá 98. fundi um stöðu og þróun sérkennslu og stuðning lögð fram.

 

Í bókuninni eru sveitarfélög hvött til þess að kanna í hverju aukning á eftirspurn eftir sérkennslu og stuðningi felist. Fræðsluráð felur skólaskrifstofu að kanna þessa þróun hjá Vestmannaeyjabæ og leggja fram minnisblað í fræðsluráði fyrir 31. júlí 2016.

 

   

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:20

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159