19.04.2016

Fræðsluráð - 285

 
  

Fræðsluráð - 285. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

19. apríl 2016 og hófst hann kl. 16.30

 

 

Fundinn sátu:

Trausti Hjaltason formaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Erna Jóhannesdóttir starfsmaður sviðs, Sigurlás Þorleifsson áheyrnarfulltrúi, Emma Hinrika Sigurgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi, Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi, Þórdís Jóelsdóttir áheyrnarfulltrúi, Lóa Baldvinsdóttir áheyrnarfulltrúi og Helga Sigrún Þórsdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi

 

Samúel Bjarnason sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna.

 

Dagskrá:

 

1.

201304035 - Skóladagatal. Samræmd dagatöl skóla og frístundavers.

 

Skólaárið 2016-2017. Sameiginlegt dagatal fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundaver lagt fram til kynningar.

 

Fræðsluráð þakkar kynninguna og mun taka málið aftur upp á næsta fundi.

 

   

2.

201007118 - Frístundaver heilsdagsvistun

 

Tillögur um sumarúrræði 2016 og þjónustu frístundavers skólaárið 2016-2017 lagðar fram til kynningar.

 

Þann 7. júní n.k. lýkur vetrarfrístund árið 2016. Í kjölfarið verður boðið upp á sumarfrístund fyrir börn á aldrinum 6 - 9 ára. Um er að ræða sérstakt sumarúrræði eftir að skóli lokar og vetrarfrístund hættir.

Gerð var könnun meðal foreldra barna í frístundaveri. Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að áhugi var á sumarfrístund og töldu flestir að þeir myndu nýta úrræðið í 2-3 vikur, hálfan dag, ef boðið yrði upp á slíka möguleika. Í ljósi þess leggur fræðsluráð til að sumarfrístund hefjist mánudaginn 13. júní og ljúki fimmtudaginn 30. júní. Gert er ráð fyrir að úrræðið sé starfrækt á þessu tímabili alla virka daga frá kl. 08.00 til 13.00. Sumarfrístund mun kosta 4.500 kr fyrir barn á viku. Fræðsluráð felur fræðsluskrifstofu, í samráði við forstöðumann frístundavers, að undirbúa sumarfrístund og auglýsa hana í samræmi við ofangreindar forsendur. Fræðsluskrifstofa hefur áður óskað eftir athugasemdum frá félagasamtökum varðandi sumarúrræði. Ungmennafélagið Óðinn mun í sumar bjóða upp á sumarúrræði fyrir þennan aldurshóp frá 13.00-16.00 frá 8. júní 2016 fram að Þjóðhátíð.

Stefnt er að heilsdagsfrístund 18. og 19. ágúst 2016 þar til skólastarf í GRV hefst. Þannig mun þeim börnum, sem eru að flytjast frá 5 ára deild Kirkjugerðis í GRV, gefast tækifæri til að kynnast frístundaverinu áður en grunnskólaganga hefst. Á sama hátt gefur þetta möguleika á að börnin, sem eru að byrja skólavist í 5 ára deild, byrji þar strax að loknu sumarleyfi.

Boðið verður uppá heilsdagsfrístund þá daga sem starfsdagar eru í GRV. Einnig verður boðið upp á heilsdagsfrístund virka daga í vetrar-, páska- og jólafríum GRV. Síðasti dagur vetrarfrístundar skólaársins 2016-2017 er 6. júní 2017.

Ljóst er að um mikla aukningu er að ræða á þjónustu frístundavers við þennan hóp barna og er það í samræmi við tillögur bæjarstjórnar frá 31. mars s.l. Fræðsluráð fagnar tillögum bæjarstjórnar og mun fylgjast með framgangi mála hjá frístundaverinu.

 

   

3.

201604034 - Heimagreiðslur.

 

Reglur um heimagreiðslur Vestmannaeyjabæjar til foreldra 9 mánaða barna lagðar fram til samþykktar.

 

Ráðið fagnar ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja um að teknar verði upp heimagreiðslur til foreldra sem nýta ekki þjónustu dagforeldra frá 9 mánaða aldri barna þeirra. Það er von ráðsins að ákvörðun þessi komi til með að létta róður fjölskyldufólks og auðvelda foreldrum að dvelja lengur heima með börnum sínum. Bæjarstjórn fól fræðsluráði að útfæra reglur um heimagreiðslur. Reglurnar hafa verið lagðar fram og er upphæð niðurgreiðslu 35.295 kr. á mánuði fyrir hvert barn og taka mið af upphæð niðurgreiðslna vegna daggæslu í heimahúsum.

Fæðsluráð samþykkir reglurnar.
Hægt verður að nálgast reglurnar og umsóknareyðublöð á vefsíðu sveitarfélagsins www.vestmannaeyjar.is sem og í þjónustuveri Ráðhússins þar sem umsóknum skal skilað.

 

   

4.

201105032 - Daggæsla, dagvistun í heimahúsum

 

Reglur um niðurgreiðslu vegna daggæslu í heimahúsum lagðar fram til samþykktar.

 

Ráðið fagnar ákvörðun bæjarstjórnar um að niðurgreiðsla Vestmannaeyjabæjar vegna þjónustu dagforeldra hefjist um 9 mánaða aldur í stað 12 mánaða aldurs eins og verið hefur. Niðurgreiðslur hefjast því þegar töku fæðingarorlofs lýkur. Þar sem íslenska ríkið hefur ekki staðið við boðuð loforð um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði, eða ráðist í aðgerðir til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar telur fræðsluráð að aðgerð þessi muni koma til með að auðvelda foreldrum atvinnuþátttöku, létta greiðslubyrði nýbakaðra foreldra ásamt því að fylgja jafnréttisáætlun Vestmannaeyjabæjar um að veita þjónustu sem gerir báðum kynjum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
Lagðar voru fram til kynningar uppfærðar reglur um niðurgreiðslu vegna daggæslu í heimahúsum.
Ráðið samþykkir reglurnar. Hægt verður að nálgast reglurnar ásamt umsóknareyðublöðum á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar www.vestmannaeyjar.is. og í þjónustuveri Ráðhússins þar sem umsóknum skal skilað.

 

   

5.

201103067 - Systkinaafsláttur

 

Reglur um systkinaafslátt vegna systkina í daggæslu, leikskóla og/eða frístundaveri lagðar fram til samþykktar.

 

Kynntar voru uppfærðar reglur um systkinaafslátt sem gildir fyrir systkini í daggæslu, leikskóla og/eða frístundaveri. Systkinaafsláttur er 50% af vistunargjaldi annars barns og 100% af gjaldi þriðja barns. Sækja þarf sérstaklega um systkinaafslátt, sem er veittur af lægsta gjaldi þar sem það við á, annars fyrir elsta barn í leikskóla eða frístundaveri hvort sem yngri börn eru hjá dagforeldrum eða í leikskóla. Ráðið samþykkir reglurnar. Hægt er að nálgast reglurnar ásamt umsóknareyðublaði á vefsíðu sveitarfélagsins www.vestmannaeyjar.is eða í þjónustuveri Ráðhússins þar sem umsóknum skal skilað

 

   

6.

201302011 - Leikskóla- og daggæslumál.

 

Farið yfir stöðu í leikskóla- og daggæslumálum.

 

Á fundi bæjarstjórnar þann 31. mars s.l. var samþykkt tillaga um að bæta við 15 til 20 plássum á leikskólum bæjarins. Nú er búið að gera samning við Sóla um að bæta við plássum fyrir 15 börn. Jafnframt er unnið að tilfæringum í Kirkjugerði sem gerir mögulegt að flýta inntöku 12 barna í maí og 9 barna í júní, alls 36 barna, sem öll eru orðin 18 mánaða. Búið er að senda út bréf með boði um leikskólavistun til forráðamanna þeirra. Í haust verða svo 20 pláss til viðbótar til úthlutunar fyrir börnin sem þá verða elst á lista fyrir leikskólapláss. Forráðamenn þeirra munu fá bréf á næstu dögum með boði um vistun. Miðað við stöðuna eins og hún er núna, þegar þessi bréf hafa verið send, verða engin börn eldri en 18 mánaða á biðlista eftir leikskólaplássi.

Í vetur hafa 20 börn verið í daggæslu í heimahúsum og eru flest þeirra að fara inn í leikskóla nú í vor. Því eru dagforeldrarnir tilbúnir að taka við nýjum börnum strax í maí og eru enn með laus pláss. Dagforeldarnir sem hafa verið starfandi í vetur gera ráð fyrir að halda áfram að bjóða upp á daggæslu á næsta starfsári.

 

   

7.

201411027 - Framtíðarsýn og áherslur í menntamálum.

 

Greint frá viðbótarframlagi Vestmannaeyjabæjar til GRV vegna innleiðingar framtíðarsýnar í menntamálum með áherslu á bættan árangur nemenda í lestri og stærðfræði.

 

Á fundi bæjarstjórnar þann 31. mars s.l. var samþykkt tillaga um að gera ráð fyrir sérstöku tveggja milljón króna viðbótarframlagi vegna næsta skólaárs. Fræðsluráð fagnar tillögu bæjarstjórnar og felur fræðsluskrifstofu, í samráði við skólastjóra, að nýta fjármagnið á sem heppilegastan máta verkefninu til framdráttar.

 

   

8.

200805104 - Grunnskóli Vestmannaeyja. Úthlutun kennslustunda til skólastarfs

 

Tillaga framkvæmdastjóra um úthlutun kennslustunda til skólastarfs í GRV skólaárið 2016-2017 lögð fram.

 

Í tillögu framkvæmdastjóra kom fram að áætlaður fjöldi nemenda skólaárið 2016-2017 verði 520 í 29 bekkjardeildum. Meðaltal í bekk er áætlað rúmlega 17 nemendur. Heildarfjöldi kennslustunda til ráðstöfunar fyrir skólastjóra verður 1226,1 þar af eru 129,8 vegna sérkennslu. Að auki eru veittar 10 kest vegna stuðnings við nemendur með annað móðurmál en íslensku og 2,5 kest vegna íþróttaakademíu. Samtals eru þetta 47,2 stöðugildi kennara. Að auki hefur skólastjóri 55 klst á viku til bókasafnsstarfa og 26 klst á viku í gæslu vegna frímínúta- og hádegishlés.

Aðrar forsendur útreikninga á fjárhagsáætlun ganga út frá að önnur stöðugildi en kennara séu 33,79 þar af eru; 5 stg stjórnenda, 0,5 stg námsráðgjafa, 9,5 stg stuðningsfulltrúa, 1,5 stg þroskaþjálfa, 13,6 stg skólaliða, 1,69 stg ritara og 2 stg húsvarða. Stöðugildi til ráðstöfunar í GRV skólaárið 2016-2017 eru því um 84.

Heildar launakostnaður GRV rekstraárið 2015 var 603 milljónir þar af var kennslukostnaður 429 milljónir. Heildar rekstrarkostnaður GRV árið 2015 var 787 milljónir.

 

   

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18.20

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159