15.03.2016

Bæjarráð - 3020

 
 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3020. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

15. mars 2016 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Trausti Hjaltason aðalmaður, Stefán Óskar Jónasson aðalmaður, Birna Þórsdóttir varamaður og Elliði Vignisson bæjarstjóri.  

 

Fundargerð ritaði:  Elliði Vignisson, bæjarstjóri

 

Dagskrá:

 

1.

201603023 - Kauptilboð Eyjablikks í 4. hæð Ægisgötu 2 - Fiskiðjuhúsinu.

 

Fyrir bæjarráði lá kauptilboð í 4. hæð Fiskiðjunnar sem er skv. fasteignaskrá 615,4 fm. Kauptilboðið hljóðar upp á 42.750.000 kr.

Eins og þekkt er eignaðist Vestmannaeyjabær Fiskiðjuna eftir eldsvoða sem þar varð árið 2007. Um er að ræða 4.200 m2 byggingu sem lengst af var nýtt sem Fiskvinnsluhús. Eftir að slík vinnsla lagðist þar af hefur húsið verið til mikils vansa fyrir svæðið sem er aukin með því að um er að ræða eitt mest áberandi hús í miðbæ Vestmannaeyja. Kostnaður Vestmannaeyjabæjar við eignarlega yfirtöku á fasteigninni var á sínum tíma hverfandi lítill enda dekkuðu útgreiddar tjónbætur rúmlega þann kostnað. Í samræmi við skipulagsráðgjöf Alta og miðbæjarskipulag Vestmannaeyja tók Vestmannaeyjabær ákvörðun um að endurgera húsnæðið sem næst upprunalegu útliti og nýta hana til vaxtar í stað þess að láta hana grotna niður fyrir augum bæjarbúa og gesta.

Fyrirliggjandi tilboð er gert með það að markmiði að styðja við þessar hugmyndir.

Bæjarráð samþykkir tilboðið.

 

   

2.

201603045 - Sala á Vigtarhúsinu

 

Fyrir bæjarráði lágu tvö kauptilboð í svokallað Vigtarhús sem stendur við Strandveg og er 740,9 m2 skv. fasteignaskrá, þar af kjallari sem er 410 m2. Hærra tilboðið hljóðar upp á 16.000.000 kr.

Vestmannaeyjabær keypti á sínum tíma Vigtarhúsið af skipulagsástæðum en þar var þá m.a. rekin timbursala. Eftir kaup á eigninni og aðliggjandi eign (Fiskiðjuhúsinu) hefur svæðið tekið miklum breytingum og ráða þar mestu framkvæmdir við Vigtartorgið. Húsið á sér ríka sögu en lengst af var þar bæði fiskverkun og vigtun á afla. Húsið er áberandi í bæjarmynd Vestmannaeyja og arkitektúr þess, sérstæður með bogadregnum línum og þaki sem að hluta til er borið uppi af súlum. Húsinu fylgja skipulagskvaðir um að á jarðhæð skuli rekin miðbæjartengd starfsemi svo sem verslun, þjónusta, veitingasala eða svipaður rekstur. Þá liggur einnig fyrir byggingaréttur um hæðir ofan á húsið.

Bæjarráð samþykkir að taka hærra tilboðinu.

 

   

3.

201603032 - Til umsagnar umsókn Unnar Guðgeirsdóttur f.h. Leíkfélags Vestmannaeyja um nýtt leyfi á rekstri veitingastaðarins í flokki II

 

Erindi frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 9. mars. sl.

 

Bæjarráð veitir jákvæða umsögn um rekstrarleyfið svo fremi sem aðrir sem um málið fjalla geri það einnig. Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi staðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

 

   

4.

201603026 - Tyrkjaránið og Guðríður Símonardóttir - Fjölþjóðleg menningarhátíð á vegum Söngfjelagsins 21.-22. maí

 

Erindi frá Hilmari Erni Agnarssyni kórstjóra Söngfjelagsins þar sem fram kemur að óskað er eftir styrk til Ísland-Alsír tónlistarhátíðar, samhljómur í íslenskri og arabískri tónlist með Guðríði Símonardóttur í fókus. Hátíðin verður haldin í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi dagana 21.22.maí n.k.

 

Bæjarráð er erindinu og umsækjendum afar velviljað og bendir bréfritara á að allir styrkir Vestmannaeyjabæjar til menningarviðburða fara í dag fram í gegnum samstarf um sunnlenska menningu (SASS) og er bréfritara bent á að beina einnig umsókn sinni þangað. Að öðru leyti vísar Bæjarráð til verkefnisins ”Viltu hafa áhrif“ þar sem styrkbeiðnum er fundinn farvegur við gerð fjárhagsáætlunar.

 

   

5.

201402001 - Þátttaka Vestmannaeyjabæjar í ITB-Internationaler Tourismus Börse Berlín.

 

Kristín Jóhannsdóttir óskar eftir formlegu samþykki bæjarráðs fyrir ferð á ITB (Internationaler Tourismus Börse) árlega ferða- og markaðskaupstefnu í Berlín.

Þetta er stærsta svona sýning í heimi og afar mikilvæg. Undanfarin ár hefur Kristín sótt þessa sýningu fyrir hönd Vestmannaeyja, hitt fulltrúa erlendra fjölmiðla og ferðaskrifstofa.

 

Bæjarráð samþykkir erindið og óskar eftir greinargerð um ráðstefnuna að henni lokinni.

 

 

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13.00.

 

 

 

 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159