16.02.2016

Bæjarráð - 3018

 

 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3018. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

16. febrúar 2016 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði:  Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

201602065 - Sjúkraflug.

 

Athugasemd um deiliskipulag Vatnsmýrarinnar.

 

Bæjarráð ítrekar hér með andstöðu sína við öll áform um skerðingu flugþjónustu á Reykjavíkurflugvelli og skorar á ríkisstjórn Íslands og borgarstjórn Reykjavíkur að tryggja óskerta starfsemi Reykjavíkurflugvallar og þar með öryggishagsmuni íbúa landsbyggðarinnar, a.m.k. þangað til jafngóð eða betri lausn finnst.

Bæjarráð telur með öllu ólíðandi að dregið verði úr öryggi sjúklinga og slasaðra sem þurfa að komast með hraði á Landspítalann þar sem staðsett er sérhæfð þjónusta s.s. hjartaþræðingar, heila- og taugaskurðlækningar og vökudeild.

Árið 2015 voru 93 einstaklingar fluttir í sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum -um flugvöllinn í Reykjavík- til læknisþjónustu þar í borg og árið 2014 voru þeir 109. Því miður er óraunhæft að ætla að í náinni framtíð skapist þær aðstæður í íslenskri heilbrigðisþjónustu að ekki verði þörf á að koma mörgum af erfiðustu tilfellunum sem koma upp á landsbyggðinni á Landspítalann við Hringbraut. Þjónusta sjúkraflugs er því meðal búsetuforsenda í Vestmannaeyjum eins og svo víða á landsbyggðinni.

Bæjarráð höfðar til þeirra sanngirnissjónarmiða að aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu, viðskiptalífi og menningarlífi sé tryggt. Ef hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni ganga eftir myndi það hafa alvarleg áhrif á lífsgæði íbúa landsbyggðarinnar.

 

   

2.

201602009 - Fagleg úttekt á starfi GRV

 

Bæjarráð samþykkir fyrirhugaðan kostnað við úttektina og felur starfsmönnum að bóka kostnaðinn við úttektina á sameiginlegan kostnað í fjárhagsáætlun, liður 21-189-4970.

 

   

3.

201602064 - Aukning á stöðugildum á umhverfis- og framkvæmdasviði.

 

Í ljósi fyrirliggjandi verkefnastöðu og umfangs fyrirliggjandi verklegrar framkvæmda hjá Umhverfis- og framkvæmdasviði þá samþykkir bæjarráð að auka um eitt stöðugildi á sviðinu tímabundið. Gert er ráð fyrir þessari aukningu í fjárhagsáætlun 2016.

 

   

4.

201602073 - Beiðni um kaup á listaverki eftir Guðlaug Arason.

 

Bæjarráð samþykkir að kaupa listaverk eftir Guðlaug Arason að upphæð kr. 240 þúsund. Um er að ræða örmyndir af bókum sem út eru gefnar í Vestmannaeyjum.

 

   

5.

200708078 - Samningamál lögð fyrir bæjarráð

 

Afgreiðsla samningamála var færð í sérstaka samningamálafundargerð.

 

   

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:00

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159