04.02.2016

Fræðsluráð - 282

 
 Fræðsluráð - 282. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

4. febrúar 2016 og hófst hann kl. 16.30

 

 

Fundinn sátu:

Trausti Hjaltason formaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Bjarni Ólafur Guðmundsson 3. varamaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Erna Jóhannesdóttir embættismaður, Sigurlás Þorleifsson embættismaður, Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi og Hildur Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi

 

Emma Sigurgeirsdóttir og Helga Sigrún Þórsdóttir sátu fundinn sem áheyrnarfulltrúi leikskólans. Auðbjörg Halla Jóhannsdóttir var gestur fundarins og vék af fundi eftir fyrsta mál. Helga Björk Ólafsdóttir yfirgaf fundinn eftir annað mál.

 

Dagskrá:

 

1.

201602007 - Þættir sem hafa áhrif á námsárangur. Hvað má gera betur í menntamálum í Vestmannaeyjum?

 

Auðbjörg Halla Jóhannsdóttir kynnir lokaverkefni sitt til M.Ed.-prófs.

 

Auðbjörg fór yfir markmið rannsóknarinnar sem var að skoða hvaða þættir hafa áhrif á námsárangur. Samhliða því var athugað með hvaða hætti staðið er að skólamálum í Vestmannaeyjum og hvernig megi gera betur. Gerð var eigindleg rannsókn þar sem tekin voru þrjú rýnihópaviðtöl við samtals 18 einstaklinga. Rætt var við nemendur, kennara og foreldra til að fá fram viðhorf og reynslu viðmælenda af ýmsum atriðum er tengjast skólagöngu í Vestmannaeyjum. Auðbjörg fór sérstaklega vel yfir þann hluta sem snýr að GRV. Í lok verkefnisins er farið yfir helstu tillögur til að bæta menntun í Vestmannaeyjum og eru þær:
Gerð verði úttekt, bæði á grunn- og framhaldsskólanum, með reglulegu millibili á árangri til að hafa samanburð svo að hægt sé að meta breytingar á stöðu kerfisins. Setja þarf raunhæf markmið og bregðast við ef viðmið nást ekki.
Leita eftir hugmyndum frá öðrum sveitarfélögum sem hafa náð árangri.
Kynna starfið í skólunum og auka virðingu fyrir því og menntun almennt. Mynda þarf jákvætt andrúmsloft og samstöðu um skólastarfið.
Auka kröfur á skólana og kennara hvað nám og gæði varðar og auka samstarf á milli skólastiga, þá sérstaklega á milli grunn- og framhaldsskóla.
Auka kröfur á nemendur og hjálpa meðal og sterkum nemendum að fullnýta hæfileika sína.
Auka samstarf við heimilin, styrkja foreldrafélögin og virkja þau í ákvarðanatöku sem lýtur að skólunum og náminu. Gera þarf foreldrum grein fyrir mikilvægi þess að þeir séu jákvæðir gagnvart námi og hvetji börn sín í því að ná árangri í námi.
Fræðsluráð þakkar Auðbjörgu fyrir kynninguna á lokaverkefni sínu, verkefnið er metnaðarfullt og faglega unnið. Efni þess mun vonandi nýtast áfram til að gera góða skóla enn betri. Verkefnið verður kynnt fyrir starfsfólki GRV á næstunni.

 

   

2.

201602008 - Allir lesa. Landsleikur í lestri.

 

Kynning á landsleiknum í lestri "Allir lesa" sem mun standa á tímabilinu 22. janúar til 21. febrúar 2016.

 

Allir lesa - landsleikur í lestri, gengur út á að skrá lestur á einfaldan hátt og halda þannig eigin lestrardagbók. Vestmannaeyjar unnu keppnina árið 2014 þar sem skólarnir í Eyjum drógu vagninn í keppninni með hvatningu og metnaði. Bergrún Íris Sævarsdóttir verkefnastjóri "Allir lesa" kom til Eyja þegar verkefnið var hringt inn frá Bókasafni Vestmannaeyja þann 22. janúar s.l. Fræðsluráð hvetur alla til að taka þátt, hægt er að skrá sig inn á allirlesa.is.

 

   

3.

201411027 - Framtíðarsýn og áherslur í menntamálum.

 

Fræðslufulltrú greinir frá hvernig unnið er að markmiðum Framtíðarsýnarinnar.

 

Framtíðarsýn. Eftirfylgd.
Í leikskólunum er áhersla á daglegan lestur og margskonar leiðir til að efla málþroska, hugtakaskilning og hljóðkerfisvitund barnanna. Starfsfólk leggur áherslu að setja orð á athafnir í öllum þáttum daglegs lífs þar sem mikilvæg hugtök stærðfræðinnar eru jafnframt kennd og notuð. Kennararnir nýta nýjustu tækni ásamt eldri gamalgrónum aðferðum þar sem öll tækifæri eru nýtt til kennslu og þjálfunar.

Búið er að þýða Framtíðarsýnina yfir á pólsku og kynna fyrir forráðamönnum. Lestrarstefna Grunnskólans er leiðarljós í allri lestrar- og læsiskennslu upp allt skólastigið. Samstarf við Bókasafn hefur aukist.

Verið er að leita að leiðum til að efla stærðfræðikennarana. Skipulagning námsþátta í stærðfræði, hugtakavinna, hlutbundin stærðfræði, innleiðing kennslu í forritun með áherslu á samþættingu námsgreina hefur aukist. Stuðningi hefur verið bætt inn í stærðfræðikennsluna á elstu stigum og fagstjóri hefur fengið meiri tíma til að sinna hlutverkinu. Markmiðasetning í hverjum árgangi hefur verið í vinnslu undanfarin ár.

Endurmenntun fyrir kennara hefur skilað sér í fjölbreyttari kennsluaðferðum. Áhersla á samstarf skólans við forráðamenn hefur eflst. Stjórnendur verja meiri tíma í bein samskipti við forráðamenn en áður hefur verið enda hafa foreldrar brugðist vel við bón skólans um aukið samstarf.

Hlutverk skólaskrifstofunnar hefur verið að fylgja framtíðarsýninni eftir og kynna sem víðast í samfélaginu. Stöðupróf (skimanir) í lestri og stærðfræði hafa verið lögð fyrir nemendur í 1., 3., 5., 6., og 9. bekk og þau endurtekin eftir þjálfunarlotur svo að nemendur sjái framfarir og árangur af þjálfunarlotunum. Fræðslufulltrúi er með fasta viðveru í skólunum og tekur þátt í samstarfi við kennara, foreldra og stjórnendur eins og óskað er eftir.
Fræðsluráð þakkar fyrir yfirferðina og lýsir ánægju sinni með öflugt starf sem unnið er í skólunum og mun áfram fylgjast með framgangi mála.

 

   

4.

201602011 - Málþing FíV um nám í framhaldsskóla.

 

Greint frá málþingi um nám í framhaldsskóla sem kennarar og stjórnendur GRV og FíV, ásamt fulltrúum fræðsluyfirvalda tóku þátt í.

 

Fræðslufulltrúi fór yfir helstu atriði málþingsins. Miklar breytingar eru að eiga sér stað í námi á framhaldsskólastigi sem og á einkunnakerfi og námskrá grunnskóla. Fulltrúar framhaldsskólans munu á næstu vikum kynna helstu breytingar fyrir foreldrum og nemendum 9. og 10. bekkja GRV. Áhersla var lögð á mikilvægi samvinnu og samstarfs milli skólastiga með það að markmiði að koma betur til móts við námsþarfir og stöðu nemenda. Fræðsluráð fagnar framtaki FíV sem stóð fyrir málþinginu og tekur undir áherslur um gott samstarf milli skólastiga.

 

   

5.

200706213 - Trúnaðarmál.

 

Eitt mál lagt fyrir.

 

   

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18.30

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159