19.01.2016

Bæjarráð - 3016

 
  

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3016. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

19. janúar 2016 og hófst hann kl. 12.00

 

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði:  Elliði Vignisson bæjarstjóri.

 

Dagskrá:

 

1.

201212068 - Umræða um samgöngumál

 

Niðurstaða skoðunarkönnunar á afstöðu bæjarbúa til stefnu bæjarstjórnar í málefnum Landeyjahafnar

 

Í framhaldi af ákvörðun bæjarráðs og umræðum á 2997. fundi þess var Gallup falið að vinna skoðunarkönnun á afstöðu bæjarbúa þar sem kallað væri eftir áliti þeirra á stefnu bæjarstjórnar í málefnum Landeyjahafnar.

Eins og komið hefur fram er stefna bæjarstjórnar þessi: Tafarlaust þarf að ráðast í smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og nýta smíðatíma hennar til að gera breytingar á Landeyjahöfn?.

Skoðunarkönnunin var unnin 13. nóvember 2015 til 5. janúar 2016. Um var að ræða síma og netkönnun.

Spurt var: Vinsamlegast tilgreindu hversu sammála eða ósammála þú ert eftirfarandi fullyrðingu: Ég vil að ráðist verði í smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og smíðatími hennar nýttur til að gera breytingar á Landeyjahöfn.

Niðurstaðan var afdráttarlaus. Af þeim sem tóku afstöðu voru 86% svarenda ýmis sammála eða mjög sammála afstöðu bæjarstjórnar en einungis 14% ýmist ósammála eða mjög ósammála henni. Sé tekið tilliti til þeirra svara sem ekki fólu í sér afstöðu voru 80% sammála stefnu bæjarstjórnar, 7% hlutlaus og 13% ósammála.

Vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um að finna aðrar leiðir en að bæta siglingar um Landeyjahöfn notaði bæjarráð einnig tækifærið og spurði eftirfarandi spurningar:

Vinsamlegast tilgreindu hversu sammála þú ert eftirfarandi fullyrðingu: Ég vil að áhersla sé lögð á að bæta samgöngur um Landeyjahöfn. Niðurstaða þar var jafnvel enn afdráttarlausari þar sem 94% var ýmist sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu.

Bæjarráð fagnar þessum afdráttarlausa stuðningi bæjarbúa við stefnu bæjarstjórnar. Eyjamenn hafa nú beðið eftir nýrri ferju síðan 2008. Fyrirsláttur um að það skorti upp á samstöðu heimamanna hefur meðal annars verið notaður til að fresta málinu. Nú liggur fyrir að Eyjamenn vilja leggja áherslu á siglingar um Landeyjahöfn og telja að nauðsynleg forsend þess sé nýsmíði.

Bæjarráð hvetur þingheim, Innanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands til ráðast tafarlaust í smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og nota smíðatíma hennar til að gera nauðsynlegar breytingar á Landeyjahöfn. 

   

2.

201010015 - Umræða um heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum.

 

Bæjarráð lýsir yfir miklum áhyggjum af því að enn sé ekki búið að bregðast við niðurstöðu faghóps sem ráðherra skipaði um heilbrigðismál 2013. Hópurinn sem m.a. var skipaður yfirlækni LSH og yfirljósmóður LSH komst að þeirri samhljóma niðurstöðu að vegna landfræðilegra aðstæðna þyrfti að halda uppi færni og þekkingu í fæðingarhjálp í Vestmannaeyjum. Einróma niðurstaða var að Vestmannaeyjar skuli vera C1 fæðingarstaður með bráðaaðgang að skurðstofu með svæfingalækni og skurðlækni allan sólahringinn.

Það getur á engan hátt verið ásættanlegt að farið sé á skjön við niðurstöðu hópsins og yfirvöld dragi lappirnar í að bjóða uppá þessa þjónustu. Þessi þjónusta hefur um áratuga skeið verið í boði í Vestmannaeyjum, en nú er svo komið að þungaðar konur og fjölskyldur þeirra þurfa að dvelja svo vikum skipti á fastalandinu með tilheyrandi kostnaði, óvissu og óþægindum.

Á sama tíma og skurðstofuvakt er ekki til staðar, hefur viðbragðstími sjúkraflugs lengst þar sem að það er gert út frá Akureyri en ekki Vestmannaeyjum líkt og áður, ásamt því að yfirvöld í Reykjavík leggja sig fram við að skerða þjónustu við landsbyggðina með þvi að gera tilraun til lokunar á flugbraut sem minnkar enn frekar öryggi fólks sem þarf á bráðaþjónustu að halda á Landsspítalanum.

Bæjarráð skorar enn og aftur á þingmenn suðurlands til að beyta sér fyrir því að heilbrigðisráðherra og heilbrigðisyfirvöld vinni eftir einróma áliti faghóps um heilbrigðismál og tryggi fæðingarþjónustu í Vestmannaeyjum sem C1 fæðingarstaður með bráðaaðgang að skurðstofu með svæfingalækni og skurðlækni allan sólahringinn. Heilbrigðismál í Vestmannaeyjum eiga ekki að standa og falla með geðþóttaákvörðunum einstakra ráðherra.

 

   

3.

201601065 - Áhrif viðskiptabanns Rússa á Vestmannaeyjar og fleiri sjávarbyggðir

 

Bæjarráð Vestmannaeyja lýsir yfir miklu áhyggjum af þátttöku íslenskra stjórnvalda í viðskiptaþvingunum gegn Rússum og áhrifa þess fyrir sjávarbyggðir.

Bæjarráð bendir þingmönnum á að enn og aftur er herkostnaður af aðgerðum ríkisins látinn falla á sjávarbyggðir. Byggðastofnun hefur metið stöðuna svo að tekjutap sjómanna og landverkafólks vegna innflutningsbannsins geti verið allt að 2550 milljónum. Þeir sem verða fyrir þessum áhrifum eru að mati Byggðastofnunar fyrst og fremst þeir 1180 launþegar í sjávarbyggðunum. Beint tekjutap sveitarsjóða þessara bæjarfélaga verður miðað við þetta allt að 364 milljónir vegna lægri útsvarstekna og 43 milljónir vegna lægri aflagjalda.

Bæjarráð telur að þessi niðurstaða Byggðastofnunar hljóti að kalla á viðbrögð alþingis. Bæjaráð hvetur sérstaklega þingmenn Suðurlands til að gæta að hagsmunum kjördæmisins. 

   

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14.30

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159