05.01.2016

Bæjarráð - 3015

 

 

 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3015. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

5. janúar 2016 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði:  Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

201512049 - Meðferð handbærs fjárs Vestmannaeyjabæjar.

 

Bæjarráð fjallaði um meðferð handbærs fjár og drög að eignastýringasamningi við Landsbankann. Nú þegar er í gildi sambærilegur samningur við Íslandsbanka. Í takt við þróun á markaði og áætluðum framkvæmdarkostnaði vegna aðgerða í málefnum fatlaðra og aldraðra telur bæjarráð ástæðu til að gera nýjan eignastýringasamning.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi eignastýringasamninga.

 

   

2.

201512052 - Fasteignagjöld 2016

 

Fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði hjá ellilífeyrisþegum 70 ára og eldri.

 

Bæjarráð samþykkir að fella niður fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði hjá ellilífeyrisþegum 70 ára og eldri líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Niðurfellingin nær til alls fasteignaskatts en sem fyrr verða áfram greidd þjónustugjöld af eignunum. Ekki verður þörf á að sækja um niðurfellinguna heldur kemur hún sjálfvirkt inn við álagningu.

Í samræmi við vilja hagsmunasamtaka eldri borgara fer Vestmannaeyjabær ofangreinda leið með það að markmiði að auðvelda eldri borgurum að búa sem lengst í eigin húsnæði. Þá er með þessu einnig reynt að mæta að hluta þeirri tekjuskerðingu sem eldri borgarar verða fyrir við starfslok. Það er mat bæjarráðs að í þessu sé bæði falin mannvirðing og aukið valfrelsi í húsnæðismálum auk þess sem þessi aðgerð ber með sér hagræðingu þar sem hún dregur úr þörf fyrir mjög kostnaðarfrek annarskonar húsnæðisúrræði.

Bæjarráð felur starfsmönnum að senda kynningarbréf til þeirra aðila sem niðurfellingin nær til.

 

   

3.

201512053 - Hækkun gjaldskrár Herjólfs

 

Erindi frá Eimskip dags. 22.desember s.l. þar sem fram kemur hækkun á gjaldskrá Herjólfs frá 15. janúar 2016.
Fargjöld milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar munu hækka um 1.8% að meðaltali og milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar um 4.5% að meðaltali.

 

Bæjarráð leggst alfarið gegn fyrirhugaðri hækkun á gjaldskrá Herjólfs og minnir á að Herjólfur er þjóðvegurinn milli lands og Eyja og því ber ríkinu að haga gjaldheimtu í samræmi við það sem almennt gerist með þjóðvegi hér á landi. Þá hvetur bæjarráð Vegagerðina til að leggja höfuðáherslu á að sinna skyldu sinni hvað varðar að tryggja viðunandi þjónustu í siglingum milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar enda er það margfalt hagkvæmara fyrir bæði notendur og rekstraraðila að sigla þá stuttu leið. Varlega áætlað munar um milljón á dag fyrri ríkissjóð að sigla í Landeyjahöfn frekar en Þorlákshöfn og kostnaðurinn fyrir notendur er gríðalegur.

Bæjarráð minnir á að skv. upplýsingum frá Vegagerðinni er heildarkostnaður við Héðinsfjarðagöng 14,2 milljarðar. Það kostar hinsvegar notendur ekkert að fara þar um. Heildarkostnaður við Bolungarvíkurgöng voru um 6,5 milljarðar. Það kostar heldur ekkert að fara þar um. Kostnaðurinn við Hvalfjarðargöng var 4,6 milljarðar árið 1996 (uppreikaðnur kostnaður eru tugir milljarða). Það kostar fjögurra manna fjölskyldu 1000 kr. að fara þar um. Sá Herjólfur sem nú siglir er að fullu afksrifaður og kostnaður við Landeyjahöfn er innan við 4 milljarðar. Kostnaður fjögurra manna fjölskyldu (tveir fullorðnir, einn unglingur og eitt barn) við að fara með sinn einkabíl fram og til baka milli lands (Þorlákshafnar) og Eyja er hinsvegar 35.880 kr. þegar fullt gjald er greitt og farið er í koju. Ekki þarf að minna á að engin önnur leið er fyrir bíla milli lands og Eyja. Fjölskylda sem fer einu sinni í mánuði þessa leið greiðir á ári 430.560 krónur fyrir það að fara eftir þjóðveginum að heiman og heim.

Að lokum ítrekar bæjarráð þá kröfu sína til þingmanna Suðurlands og samgönguyfirvalda að þegar þjóðvegurinn til Vestmannaeyja (Landeyjahöfn) er lokaður og farið er lengri og erfiðari hjáleið um Þorlákshöfn þá sé ekki lagt aukalegt gjald á notendur heldur gildi að fullu sú gjaldskrá sem gildir fyrir Landeyjahöfn.

 

   

4.

200708078 - Samningamál lögð fyrir bæjarráð

 

Afgreiðsla samningamála var skráð í sérstaka samningamálafundargerð.

 

   
 
 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:00

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159