15.12.2015

Bæjarráð - 3014

 

 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3014. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

15. desember 2015 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði:  Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

201512037 - Álagning tekjustofna og gjaldskrá ársins 2016.

 

Álagning gjalda fyrir árið 2016:

Álagning fasteignaskatts, holræsagjalda, sorpeyðingar- og sorphreinsunargjalda árið 2016:


1. Fasteignaskattur af húsnæði verði eftirfarandi hlutfall af fasteignamati þeirra samkvæmt II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, með síðari breytingum, og reglugerð um fasteignaskatt nr. 1160/2005.
a). Íbúðir og íbúðarhús, útihús og mannvirki á bújörðum, sem tengd eru landbúnaði og sumarbústaðir: 0,35 %.
b). Allar aðrar fasteignir: 1,55 %.
2. Holræsagjald af fasteignamati húsa og lóða skv. reglugerð.
a) Íbúðir og íbúðahús, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði og sumarbústaðir: 0,20%.
b) Allar aðrar fasteignir: 0,30%.
3. Bæjarráð samþykkir að lagt verði sorpeyðingargjald á hverja íbúð, kr. 34.867 og að a)sorphirðu- og tunnuleigugjald verði kr. 15.685 á hverja íbúð.
b) Sorpbrennslu- og sorpeyðingargjöld fyrirtækja samkvæmt samþykktri gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs sem tekur gildi þann 1. janúar 2015.
4. Gjalddagar fasteignagjalda skulu vera tíu þ.e. 15. feb., 15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. sept., 15. okt., 15. nóv.
5. Dráttarvextir reiknast af gjaldföllnum fasteignagjöldum 30 dögum eftir gjalddaga.
6. Bæjarráð samþykkir að veittur verði 5% staðgreiðsluafsláttur af fasteignasköttum, holræsagjöldum skv. liðum 1 og 2 hér að ofan, séu þau að fullu greidd eigi síðar en 8. febrúar 2016.
7. Bæjarráð samþykkir að fella niður fasteignagjöld ellilífeyrisþega,og öryrkja skv. neðangreindum reglum:
           
Reglur um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum hjá Vestmannaeyjabæ.

1. gr.
Elli og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í Vestmannaeyjum og eru þinglýstir eigendur viðkomandi húsnæðis er veittur afsláttur af fasteignaskatti, holræsagjöldum og sorpgjöldum samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja ár hvert og reglum þessum, sbr. heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Afslátturinn er tekjutengdur.

2. gr.
Rétt til afsláttar eiga íbúðareigendur:
a) Sem eru 67 ára á árinu eða eldri
b) Hafa verið úrskurðaðir 75% öryrkjar fyrir 1. janúar álagningarárið.
c) Afslátturinn nær einungis til þeirrar íbúðar sem viðkomandi býr í.

3. gr.
Þegar um hjón eða sambúðaraðila er að ræða nægir að annað hjóna eða sambúðaraðila fullnægi því skilyrði að vera elli- og eða örorkulífeyrisþegi.
Falli annar aðilinn, frá, þá á sá eftirlifandi rétt á því að njóta afsláttar hjóna, eða sambúðaraðila, út árið sem fráfallið átti sér stað á, óski hann þess.
4. gr.
Afsláttur er hlutfallslegur af heildartekjum þ.e. tekjum sem mynda álagningarstofn tekjuskatts-útsvars og fjármagnstekjuskatts, eins og þesssar tekjur voru á næsta ári á undan álagningarári. Miðað er við sameiginlegar tekjur hjóna og samskattaðs sambýlisfólks. Viðmiðunarfjárhæðirnar skulu framreiknaðar árlega með tilliti til breytinga á launavísitölu frá upphafi til loka þess tekjuárs sem miðaða er við hverju sinni.

5. gr.
Framkvæmd útreiknings afsláttar fer þannig fram að gögn eru sótt til RSK um það hverjir eigi rétt á afslætti og hverjar tekjur þeirra voru á næsta ári á undan álagningarárinu. Þegar nýtt skattframtal liggur fyrir á álagningarári er heimilt að endurreikna afslátt þeirra er þess óska og leiðrétta í samræmi við nýjar forsendur.

6. gr.
Tekjumörk eru sem hér segir:
1. Fyrir einstakling:
a. Brúttótekjur 2014 allt að 3.721 þús. kr. 100% niðurf.
b. Brúttótekjur 2014 allt að 4.404 þús. kr. 70% niðurf.
c. Brúttótekjur 2014 allt að 5.000 þús. kr. 30% niðurf.

2. Fyrir hjón, sem bæði eru ellilífeyrisþegar:
a. Brúttótekjur 2014 allt að 4.477 þús. kr. 100% niðurf.
b. Brúttótekjur 2014 allt að 5.410 þús. kr. 70% niðurf.
c. Brúttótekjur 2014 allt að 6.132 þús. kr. 30% niðurf.

Við mat á niðurfellingu fasteignaskatts af eigin íbúð 75% öryrkja, sem þeir búa í, skal hafa hliðsjón af fyrrgreindum reglum.

3. Sorphirðu-/sorpeyðingargjald, holræsagjald og lóðarleiga verði fellt niður eða lækkað í samræmi við ofangreindar reglur hvað varðar eigin íbúð ellilífeyrisþega og 75% öryrkja, sem þeir svo sannarlega búa í.

 

   

2.

201212068 - Umræða um samgöngumál

 

Bæjarráð ítrekar fyrri ályktanir um að tafarlaust þurfi að ráðast í nýsmíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og smíðatíma hennar nýttur til að gera nauðsynlegar úrbætur á Landeyjahöfn. Ekki eingöngu er sú ferja sem nú siglir orðin sú elsta sem þjónustað hefur frá því að daglegar siglingar hófust milli lands og Eyja heldur er hún hönnuð til siglinga sem eru mjög ólíkar því sem eru við Landeyjahöfn.
Samfélagið í Vestmanneyjum hefur nú verið í óvissu hvað samgöngur á sjó varðar langt umfram það sem eðlilegt má telja og mikilvægt að þeirri óvissu ljúki.

Bæjarráð fagnar því að líkan af nýrri Vestmannaeyjaferju hafi komið vel út úr líkansprófun og teljist nú fullhönnuð og ítrekar kröfu sína um að smíðin verði boðin út tafarlaust. Skipið hefur meðal annars verið reynt miðað við þriggja og hálfs metra samfellda ölduhæð, sem skipið á að þola við siglingar inn í Landeyjahöfn.
Miðað við þær upplýsingar sem bæjarráð hefur þá er hinni endanlegu hönnun nýs Herjólfs þannig að skipið verður 69 metra langt og 15 metra breitt, litlu minna en gamla skipið og munar raunar aðeins einum metra í lengd og breidd. Nýja skipið mun samt taka jafn marga farþega á veturnar en núverandi ferja en fleiri á sumrin eða allt að 540. Hönnunin gerir einnig ráð fyrir 36 kojum en samkvæmt núgildandi reglugerð er ekki heimilt að vera með farþegaaðstöðu undir sjólínu. Þá er bíladekkið umtalsvert stærra eða 320 lengdarmetrar í stað þeirra 260 sem nú eru og tekur því allt að 75 fólksbíla í ferð.

Í framhaldi af fyrirspurn Stefáns Óskars Jónassonar var bæjarráð upplýst um að á næstu vikum sé von á niðurstöðu könnunnar á afstöðu bæjarbúa til samgangna sbr. ákvörðun bæjarráðs á fundi nr. 2997 frá 17. febrúar sl.

 

   

3.

201512039 - Til umsagnar umsókn fyrir Björgunarfélag Vestmannaeyja vegna leyfis til hafa flugeldasölu og flugeldasýningu

 

Erindi frá Sýslumanninum dags. 10.des. s.l. þar sem Björgunarfélag Vestmannaeyja óskar eftir leyfi til að selja skotelda í húsnæði sínu að Faxastíg 38, frá 28. des. til 9. janúar n.k. Einnig óska þeir eftir leyfi til flugeldasýningar þann 31.des. milli kl. 16.30 og 18.30.

 

Bæjarráð samþykkir erindið svo fremi sem aðrir sem um málið fjalla geri það einnig. Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi athafnastaðar á kostnað leyfishafa ef þörf krefur.

 

   

4.

201512022 - Til umsagnar umsókn ÍBV um leyfi til að halda áramótabrennu, þrettándabrennu

 

Erindi frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 6. desember s.l. þar sem óskað er umsagnar vegna umsóknar IBV íþróttafélags um leyfi til að halda áramótabrennu 31. des. og þrettándabrennu föstudaginn 8. janúar n.k. Einnig um leyfi til flugeldasýningar þann 8. janúar 2016.

 

Bæjarráð samþykkir erindið svo fremi sem aðrir sem um málið fjalla geri það einnig. Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi athafnastaðar á kostnað leyfishafa ef þörf krefur.

 

   

5.

201512011 - Til umsagnar umsókn um tímabundið áfengisleyfi fyrir Dalhraun 6/Lundann

 

Erindi frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 3.desember s.l. þar sem óskað er eftir umsögn um umsókn Jóns Inga Guðjónssonar vegna tímabundins áfengisleyfi fyrir Lundann í Vestm. um miðnætti 25.desember til kl. 04:00 og þann 1. janúar 2016 frá kl. 04:00 til kl. 07:30.

 

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu þar sem rúmast ekki innan viðmiðunarreglna Vestmannaeyjabæjar um opnunartíma veitingastaða.

 

   

6.

200708078 - Samningamál lögð fyrir bæjarráð

 

Afgreiðsla samningamáls er færð í sérstaka samningabók

 

   

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:30

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159