26.11.2015

Bæjarráð - 3013

 
 
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3013. fundur
 
haldinn í fundarsal Ráðhúss,
26. nóvember 2015 og hófst hann kl. 12.00
 
 
Fundinn sátu:
Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.
 
Fundargerð ritaði:  Elliði Vignisson, bæjarstjóri
 
Páll Marvin Jónsson vék af fundi þegar mál 3 var til umræðu og afgreiðslu.
 
 
 
Dagskrá:
 
1.
201511065 - Álagning útsvars fyrir árið 2016
 
Bæjarráð samþykkir að álagt útsvar fyrir árið 2016 verði 14,36% en hámarksútsvar er 14,48%. Um er að ræða hækkun á útsvari frá árinu 2015 um 2,7%. Um leið samþykkir bæjarráð að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði úr 0,42% niður í 0,35% en hámarks fasteignagjöld eru 0,5%. Þar með lækka fasteignagjöld í Vestmannaeyjum um 16,7%.

Með ákvörðun um að fullnýta ekki álagningarramma útsvars og fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði innheimtir Vestmannaeyjabær 73.512.992 kr. minna af mögulegum tekjum af þessum stofnum en annars væri.
 
   
2.
201511077 - Bókasafnsskírteini fyrir alla nemendur.
 
Erindi Kára Bjarnasyni forstöðumanni bókasafns Vestmannaeyja þar sem hann óskar eftir því að fá að bjóða ókeypis bókasafnsskírteini fyrir alla nemendur óháð aldri. Einnig breytingu á gjaldskrá safnsins frá og með 1. janúar 2016.
 
Bæjarráð bendir á að skv. fyrirliggjandi fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 mun sveitarfélagið verja tæplega 56 milljónum til reksturs bókasafns Vestmannaeyja á komandi ári. Safnið er opið í um 250 daga á ári og kostar því hver opnunardagur um 213.000 krónur.

Það er því ljóst að safnið er nánast algerlega rekið af framlögum sveitarsjóðs og sértekjur þess hverfandi litlar. Þær smávægilegu breytingar sem lagðar eru til í bréfi forstöðumanns hafa því lítil áhrif á fjárhagslegan rekstur safnsins.

Bæjarráð fagnar þátttöku Bókasafns Vestmannaeyja í lestrarátaki skólanna í Vestmannaeyjum og telur að slíkt styðji mjög við uppbyggilegt starf í sveitarfélaginu. Frekari þátttaka í þeim anda sem lagt er til í bréfinu er því samþykkt.
 
   
3.
201511099 - Samningur Þekkingarseturs Vm. og Vestmannaeyjabæjar vegna ferðamála.
 
Fyrir liggja samningsdrög á milli Þekkingarseturs Vm. og Vestmannaeyjabæjar vegna ferðamála.
 
Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti en skv. honum stefnir Vestmannaeyjabær að því að auka aðkomu fagaðila í ferðaþjónustu að opinberri stefnumótun þjónustugreinarinnar, efla og bæta innri gerð (infrastrúktúr) ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum og þróa aðkomu sveitafélagsins þar með það að markmiði að á ákveðnum tíma verði aðkoma Vestmannaeyjabæjar að atvinnugreininni sambærileg við aðkomu sveitarfélagsins að öðrum atvinnugreinum.

Þekkingarsetur Vestmannaeyja verður í kjölfarið í fararbroddi og forsvari í kynningu- og markaðssetningu á Vestmanneyjum sem ferðamannastaðar. Um leið annast Þekkingarsetrið ákveðna rekstrarþætti og ábyrgð sem nánar er fjallað um í samkomulagi þessu. 

- Þekkingarsetur Vestmanneyja ætlar að byggja upp á metnaðarfullan hátt sameiginlega kynningu og markaðssetningu á Vestmannaeyjum í heild bæði innanlands og utan. 
- Þekkingarsetur Vestmannaeyja ætlar að leggja áherslu á að skapa sterka og jákvæða ímynd af Vestmannaeyjum fyrir vöru- og þjónustugæði sem uppfylli þarfir ferðaþjónustunnar. 
- Þekkingarsetur Vestmannaeyja ætlar að taka tillit til allra atvinnugreina í Vestmannaeyjum því samstarf allra atvinnugreina er lykilatriði við að ná árangri í eflingu Vestmannaeyja.
- Þekkingarsetur Vestmannaeyja ætlar að leiða aðkomu Vestmannaeyjabæjar að kynningu á sveitarfélaginu sem áfangastað fyrir ferðamenn. 

Með samkomulagi þessu annast Þekkingarsetur Vestmannaeyja þá aðkomu Vestmannaeyjabæjar að ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum sem áður hefur verið á höndum ferðamálafulltrúa Vestmannaeyjabæjar. Þar undir fellur m.a. kynning á sveitarfélaginu sem áfangastaðar fyrir ferðamenn, aðkoma að auglýsinga og kynningastarfi, aðkoma að bæjarhátíðum (Þrettándi, goslok, þjóðhátíð, Nótt safnanna og fl.), þátttaka í upplýsingaveitu til erlendra aðila, samstarf um uppbyggingu ferðamannastaða í Vestmannaeyjum, útgáfa á kortum og kynningarefni og fl. Ferðamálasamtök Vestmannaeyja munu einnig  vera í samstarfi við forstöðumann Eldheima og annast samskipti við aðra aðila í greininni svo sem Íslandsstofu, Markaðsstofu Suðurlands, Samtök ferðaþjónustunnar og fl.

Vestmannaeyjabær mun eftir sem áður nýta tengsl sín og úrræði til að kynna sveitarfélagið sem áfangastað fyrir innlenda og erlenda ferðamenn. Miðstöð slíkrar starfsemi verður í Eldheimum og mun forstöðumaður Eldheima annast utanumhald.
 
   
4.
201511017 - Stuðningur við Snorraverkefnið 2016
 
Erindi frá 30. október s.l. þar sem óskað er eftir stuðningi við framkvæmd Snorraverkefnisins á árinu 2016.
 
Erindið rúmast ekki innan fjárhagsáætlunar og því getur bæjarráð ekki orðið við beiðninni.
 
   
5.
201511081 - Til umsagnar umsókn vegna skóladansleiks nemendafélags FIV í Höllinni 29. nóvember
 
Erindi frá Sýslumanninum dags. 23. nóvember s.l. þar sem óskað er eftir umsögn fyrir Nemendafélag FIV vegna skóladansleiks fyrir 16. ára og eldri í Höllinni aðfaranótt 30. nóvember n.k. til. kl. 04.00
 
Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti svo fremi sem aðrir sem um það fjalla geri það einnig. Samþykki þetta er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi samkomustaðarins á kostnað skemmtanahalda ef þörf krefur.
 
   
6.
201511097 - Til umsagnar umsókn fyrir endurnýjun á leyfi fyrir heimagistinguna Eyjaból.
 
Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti svo fremi sem aðrir sem um málið fjalla geri það einnig. Samþykki þetta er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku.
 
   
7.
200708078 - Samningamál lögð fyrir bæjarráð
 
   
                                                                                           
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13.30
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159