06.10.2015

Fræðsluráð - 278

 
 Fræðsluráð - 278. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

6. október 2015 og hófst hann kl. 16.30

 

 

Fundinn sátu:

Trausti Hjaltason formaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Erna Jóhannesdóttir starfsmaður sviðs, Sigurlás Þorleifsson áheyrnarfulltrúi, Stefán Sigurjónsson áheyrnarfulltrúi og Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi

 

Emma Sigurgeirsdóttir leikskólastjóri sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi stjórnenda leikskóla. Helga Björk Ólafsdóttir vék af fundi eftir 6. mál.

 

Dagskrá:

 

1.

201411027 - Framtíðarsýn og áherslur í menntamálum.

 

Greint frá undirritun samkomulags um framtíðarsýn og áherslur á læsi og stærðfræði í skólastarfi Vestmannaeyjabæjar.

 

Þann 25. ágúst sl. undirrituðu stjórnendur leik- og grunnskólanna, bæjarstjóri og formaður fræðsluráðs sameiginlega framtíðarsýn í menntamálum sem felur í sér að leggja beri áherslu á að efla læsi og stærðfræði í skólastarfi Vestmannaeyjabæjar. Áhersla er m.a. lögð á að styrkja og efla samstarf starfsmanna skólanna og forráðamanna því þar býr aflið sem getur skapað nemendum öruggt og styðjandi umhverfi til náms og stuðlað að árangri þeirra og vellíðan.

Markmiðið er að skólarnir í sveitarfélaginu verði meðal þeirra fremstu á landinu hvað varðar vellíðan nemenda, faglegt starf, kennslu og námsárangur. Nemendur skólanna hafa fengið skjalið afhent, þar sem helstu áhersluatriði framtíðarsýnarinnar eru tíunduð. Þeir, ásamt forráðamönnum, voru beðnir að skrifa undir skjalið og hengja það upp á heimilum sínum til að staðfesta að þeir styðji framtíðarsýnina og vilji leggja sitt af mörkum til að hún gangi eftir. Bæjarbúar allir eru hvattir til að styðja við skólana með ráðum og dáð með jákvæðri og hvetjandi umfjöllun.

Með framtíðarsýninni er verið að þjappa bæjarbúum saman þannig að það öfluga starf, sem fer fram í skólunum nýtist sem best. Skólaskrifstofan styður við skólann með skimunarprófum og ráðgjöf, en vinnan sem kennarar skólanna og nemendur þeirra leggja fram er það sem skiptir mestu máli í að ná þeim markmiðum sem sett eru fram.

Allir þeir, sem komu að gerð framtíðarsýnarinnar og lögðu til málanna, fá miklar þakkir fyrir áhugann sem þeir sýndu og vinnuna sem þeir lögðu fram. Óskin er sú að þessi vinna skili börnum og ungmennum í Vestmannaeyjum auknum árangri, metnaði, og færni til framtíðar.
Fræðsluráð mun fylgjast áfram með gangi mála.

 

   

2.

201508041 - Þjóðarsáttmáli um læsi.

 

Greint frá undirritun Þjóðarsáttmála um læsi 21. september s.l.

 

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Elliði Vignisson bæjarstjóri og Sigrún Alda Ómarsdóttir, fyrir hönd Heimilis og skóla, skrifuðu undir þjóðarsáttmála um læsi 21. september s.l. Athöfnin var haldin í Eldheimum í tilefni undirskriftarinnar.

Illugi Gunnarsson ráðherra fór yfir stöðuna og ræddi sameiginleg markmið sveitarfélaga og menntamálayfirvalda um að vinna að því að a.m.k. 90% nemenda geti lesið sér til gagns árið 2018. Elliði Vignisson bæjarstjóri kynnti markmið framtíðarsýnar Vestmannaeyjabæjar í læsi og stærðfræði. Í máli hans kom fram að áherslur í framtíðarsýninni eru í takt við áherslur þjóðarsáttmálans.

Eftir undirritun Þjóðarsáttmálans fundaði Gylfi Jón Gylfason verkefnisstjóri Þjóðarsáttmálans með kennurum og stjórnendum skólanna. Gylfi Jón ræddi um verkefnið og sagði frá athugunum sem hann hefur gert á niðurstöðum samræmdra prófa og PISA. Fram kom að fleiri nemendur í 10. bekk í Vestmannaeyjum eru nú að lesa sér til gagns en var fyrir fimm árum. Dæmi voru um að 48% barna í 10. bekk gætu ekki lesa sér til gagns. Sú tala hefur farið lækkandi á hverju ári og fór á síðasta ári í 21% en meðaltal síðustu fjögurra ára er um 29%. Þessari þróun um að fækka nemendum sem geta ekki lesið sér til gagns, þarf að viðhalda og því er mikilvægt að Vestmannaeyingar standi þétt við bakið á skólanum í viðleitni þeirra við að ná fram markmiðum bæði Framtíðarsýnar og Þjóðarsáttmálans.

 

   

3.

201109101 - Úttekt á Grunnskóla Vestmannaeyja. Eftirfylgd.

 

Erindi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna eftirfylgdar með úttekt á GRV og svör skólaskrifstofu kynnt.

 

Erindinu hefur verið svarað og uppfærð aðgerðaráætlun GRV frá 2013- 2015 send ráðuneytinu ásamt gögnum um framtíðarsýn Vestmannaeyjabæjar í læsi og stærðfræði og gögnum um íþróttaakademíu GRV og Vestmannaeyjabæjar.

 

   

4.

200703065 - Gæsluvöllurinn Strönd við Miðstræti

 

Gæsluvöllurinn Strönd sumarið 2015. Samantekt.

 

Gæsluvöllurinn Strönd var opinn í fjórar vikur, frá 20. júlí til 14. ágúst 2015. Fjöldi barna sem komu á gæsluvöllin var frá 8 (einn daginn) og upp í 28 börn þegar mest var. Heildarfjöldi barna sem sóttu gæsluvöllinn í sumar var 202 börn og meðalfjöldi barna á dag var 11 börn.
Til samanburðar má nefna að sumrið 2014 voru 531 barn skráð í vistun á gæsluvellinum og meðalfjöldi barna á dag var 33.

 

   

5.

201509077 - Bráðabirgðaúrræði v daggæslu. Strönd 2015-2016.

 

Opnun bráðabirgðaúrræðis á gæsluvellinum við Strönd.

 

Vonir standa til að bráðabirgðaúrræðið að Strönd geti opnað miðvikudaginn 7. október n.k. Tveir einstaklingar með reynslu af daggæslu munu starfa þar. Börn, sem verða orðin 12 mánaða þegar úrræðið opnar og eru á biðlistum hjá dagforeldrum í Vestmannaeyjum, eiga kost á vistun.

 

   

6.

200706207 - Frístundaverið.

 

Frístundaver. Lengd viðvera 2015-2016.Greinargerð.

 

Fram kemur í greinargerð frá forstöðumanni að 65 börn eru vistuð á haustönn 2015. Starfsmenn eru 6. Viðmið sem almennt er farið eftir vegna mönnunar á frístundarheimili eru 12 börn á starfsmann í 1. bekk og 15 börn í 2. - 4. bekk. 43 börn eru úr 1. bekk og 22 börn úr 2. bekk. Ekki hefur verið óskað eftir vistun fyrir eldri börn í vetur. Boðið er upp á miðdegishressingu í samræmi við markmið Lýðheilsustöðvar um heilbrigði og hollustu.
Fræðsluráð þakkar fyrir greinargerðina og mun á næstu dögum heimsækja frístundaverið.

 

   

7.

200806062 - Tónlistarskólinn

 

Skólastjóri tónlistarskólans gerir grein fyrir stöðu skólans haustið 2015

 

Innritun hófst 20. ágúst og kennsla 27. ágúst. Nú eru um 120 nemendur við skólann sem er svipað og var í fyrra. Flestir nemendur eru í gítarnámi (33), 26 nemendur stunda söngnám, 19 nemendur eru í námi í trommuleik og 25 nemendur eru að læra á blásturshljóðfæri. Áhugi á blásturshljóðfærum fer því miður minnkandi en Vestmannaeyingar hafa lengst af verið með öflugar lúðrasveitir og góða kennara á blásturshljóðfæri. Þessi þróun virðist svipuð um allt land. Áhugi á fiðlunámi er að aukast og nú eru 6 nemendur að læra a fiðlu og píanónemendur eru 11.

 

   

8.

200706213 - Trúnaðarmál.

 

Eitt mál lagt fyrir.

 

Fundargerð trúnaðarmála færð í sérstaka trúnaðarmálabók.

 

   

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.40

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159