29.09.2015

Bæjarráð - 3010

 
 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3010. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

29. september 2015 og hófst hann kl. 12:00

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði: Rut Haraldsdóttir framkvæmdastjóri.

 

Dagskrá:

 

1.

201410037 - Verðtilboð í endurskoðunarþjónustu Vestmannaeyjabæjar og stofnana.

 

Með samþykkt sinni á fundi 2989 samþykkti bæjarráð að gera verðkönnun á endurskoðunarþjónustu sveitarfélagsins. Í kjölfar þess bárust þrjú verðtilboð í endurskoðunarþjónustu Vestmannaeyjabæjar og stofnanna:

Deloitte án. vsk. 3.700.000 m.vsk.4.588.000 gerð ársreikn.500.000-900.000
KPMG ehf.    “     3.984.750    “       4.941.090                       innifalið
BDO              “     3.980.000    “       4.935.200                       innifalið

Bæjarráð þakkar tilboðsgjöfum áhugann á því að veita Vestmannaeyjabæ þjónustu. Í útsendum gögnum var ítrekað að gerð væri krafa um á starfsstöðinni í Vestmannaeyjum væri löggiltur endurskoðandi. Fyrir liggur að BDO er enn ekki með slíkan starfsmann á starfsstöðinni í Vestmannaeyjum þótt til standi að gera breytingu þar á.
Bæjarráð samþykkir að ganga til samninga við þann lægstbjóðanda sem uppfyllti skilmála verðkönnunarinnar.

 

   

2.

201506049 - Stofnun stýrihóps til eflingar flugsamgangna milli lands og Eyja.

 

Niðurstöður stýrihóps um eflingu flugsamgangna milli lands og Eyja.

 

Bæjarráð fjallaði um niðurstöðu stýrihópsins sem stofnaður var til að leggja til leiðir til að efla flugsamgöngur við Eyjar og þá sérstaklega á þeim tíma sem ferjusiglingar til Landeyjahafnar eru óstöðugar.
Í minnisblaðinu koma fram eftirfarandi tillögur:
Styrkja flug til Eyja yfir vetrartímann

Bjóða út/styrkja flugsamgöngur við Eyjar yfir það tímabil sem Herjólfur siglir ekki með reglubundum hætti til Landeyjahafnar. Ríkið styrkir flugleiðir til staða sem búa við afar slæmar samgöngur og ferðatími til Rvík er lengri en 3,5 tímar og fjöldi farþega ónógur til að standa undir kostnaði við áætlanaflug. Ljóst er að Eyjar uppfylla þessar forsendur á meðan Landeyjahöfn er lokuð, þar sem ferðatími fer yfir 3,5 tíma þegar siglt er til Þorlákshafnar og siglingaleiðin til Eyja getur með stuttum fyrirvara lokast alveg. Áætlanaflug til Eyja er þó til staðar en kostnaður er of mikill fyrir almenning til að hann nýti sér flugið.

Vísast til skoðunar í Innanríkisráðuneyti.

Styrkja markaðssetningu á flugi til Eyja

Mjög takmarkað fjármagn er sett í beina markaðssetningu á flugi til Eyja. Með aðkomu ríkisins í gegnum hina ýmsu styrktarsjóði sem ætlað er að efla ferðaþjónustu og með auknu samstarfi hagsmunaaðila er hægt að leggja grunn að fjölgun ferða, auknu sætaframboði og um leið stuðla að lækkun flugfargjalda.

Vísast til skoðunar í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Sjúkravél staðsett í Eyjum

Kanna með að staðsetja sjúkraflugvél í Eyjum. Samningur um sjúkraflug er í gildi til ársins 2016 með möguleika á framlengingu til ársins 2018. Sjúkravél staðsett í Eyjum myndi hjálpa flugfélagi að halda úti áætlunarflugi bæði á Bakkaflugvöll og til Reykjavíkur. Jafnframt myndi slíkt fyrirkomulag um leið auka öryggi í Eyjum með tilliti til sjúkraflugsins. Stýrihópurinn telur nauðsynlegt að horfa þurfi til þessa þegar núgildandi samningur um sjúkraflug rennur úr gildi.

Vísast til skoðunar í Heilbrigðisráðuneyti.

Efla flug á Bakka

Á seinustu árum hefur mikil áhersla verið lögð á að markaðssetja Landeyjahöfn sem tengingu Eyjanna við meginlandið og hringveginn. Þessi áhersla hefur orðið til þess að nánast allir þeir ferðamenn sem koma til Vestmannaeyja fara í dag í gegnum Landeyjahöfn. Mikilvægt er að hugað verði að því að halda þessum gáttum opnum á þeim tíma sem ekki er siglt í Landeyjahöfn. Fyrir liggur að ríkið hefur yfir að ráða fjármunum sem ætlað var að bæta samgöngur milli Suðurlands og Vestmannaeyja (Sjá fjárlagatexta í viðauka 5). Stýrihópurinn mælir með því að skoðað verði sérstaklega að nýta þá tugi milljóna sem enn eru eftir af þessu fjármagni til að styrkja áætlunarflug á Bakkaflugvöll. Um leið verði hugað að samkomulagi við Strætó og bílaleigu um að þjónusta völlinn.

Vísast til skoðunar í Innanríkisráðuneyti.

Bæjarráð þakkar styrihópnum fyrir framlögð gögn og tekur undir þau úrræði sem lögð eru til, til að efla flugsamgöngur við Vestmannaeyjar.
Bæjarráð óskar eftir því að ráðherrar ferða- og samgöngumála setji af stað vinnu til að skoða fýsileika þessara tillagna.

 

   

3.

201509048 - Staða fjárhagsaðstoðar 2015

 

Fyrir bæjarráði lá minnisblað frá framkvæmdastjóra þar sem fram kemur að það stefni í verulega framúrkeyrslu vegna fjárhagsaðstoðar á árinu. Í minnisblaðinu kom enn fremur fram að að árið 2014 hafi fjárhagsaðstoð numið 19 milljónum en stefni nú í að fara yfir 30 milljónir. Meðal þeirra skýringa sem gefnar eru er að lengri afgreiðslutími ríkisstofnana á atvinnuleysisbótum, endurhæfingarlíferyri og örorkumati hafi hér veruleg áhrif. Þá er meira um einstaklinga sem detta út af vinnumarkaði vegna atvinnumissis.
Bæjarráð lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu þessara mála og hvetur ríkisstofnanir til að ganga þannig fram að ekki verði tilflutningur á kostnaði milli stjórnsýslustiga vegna hægagangs annars aðilans.
Bæjarráð vísar því einnig til fjölskylduráðs að kanna af fullri einurð að skilyrða fjárhagsaðstoð í auknu mæli við atvinnuþátttöku þegar slíkt er mögulegt.
Bæjarráð samþykkir að vísa því til endurskoðunar fjárhagsáætlunar að hækka lið vegna fjárhagsaðstoðar í 31 milljón.

 

   

4.

201509014 - Beiðni um fund með bæjarráði um húsnæðismál fatlaðra

 

Erindi frá stjórn Þroskahjálpar dags. 25. ágúst s.l. þar sem óskað er eftir fundi með bæjarráði um húsnæðismál fatlaðra.

 

Bæjarráð er ætíð til í að funda með öllum aðilum um þau hagsmunamál Vestmannaeyjabæjar og íbúa sem falla undir ráðið.
Bent er á að hlutverk ráða hjá Vestmannaeyjabæ eru bundin af þeim mörkum sem þeim eru sett í bæjarmálasamþykkt. Í 30. gr. bæjarmálasamþykktar segir um verkefni bæjarráðs: “Bæjarráð fer ásamt bæjarstjóra með framkvæmdastjórn og fjármálastjórn bæjarfélagsins að því leyti sem þessi mál eru ekki öðrum falin.” Málefni fatlaðra heyra undir tilgreint fagráð og mikilvægt að það umboð sem því er falið sé virt af öðrum ráðum Vestmannaeyjabæjar.
Bæjarráð lýsir yfir fullum stuðningi við fagráðið hvað framtíðaráætlun í búsetumálum fatlaðra varðar og minnir í því samhengi á að í síðustu kosningum lýstu báðir flokkar yfir vilja til að gera þar verulega bragabót á.
Bæjarráð hvetur því fagráðið og hagsmunasamtök fatlaðra til eiga sem fyrst fund vegna þessarra mála.

 

   

5.

200708078 - Samningamál lögð fyrir bæjarráð

 

Afgreiðsla samningamáls er færð í sérstaka samningabók.

 

   

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:05

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159