29.06.2015

Fræðsluráð - 276

 
 Fræðsluráð - 276. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

29. júní 2015 og hófst hann kl. 16.30

 

 

Fundinn sátu:

Trausti Hjaltason formaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Erna Jóhannesdóttir starfsmaður sviðs, Sigurlás Þorleifsson embættismaður, Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi, Helga Tryggvadóttir áheyrnarfulltrúi og Hildur Jónasdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi

 

Stefán Sigurjónsson, Emma H. Sigurgeirsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir sátu fundinn sem áheyrnarfulltrúar.

 

Dagskrá:

 

1.

201105068 - Sameiginlegt skóladagatal

 

Sameiginlegt dagatal 2015-2016 fyrir skóla og frístundaver lagt fram.

 

Aðeins ein breyting hefur átt sér stað síðan dagatalið var lagt fram til kynningar á síðasta fundi ráðsins. Víkin og Kirkjugerði hafa óskað eftir því að það verði starfsdagur þann 21. ágúst 2015 til að geta sótt námskeið með kennurum grunnskólans þann dag. Í stað þess verður opið þann 11. september 2015 hjá Kirkjugerði og Víkinni. Ráðið samþykkir framlagt skóladagatal fyrir skólaárið 2015-2016.

 

   

2.

201506069 - Erindi frá foreldrum leikskólabarna.

 

Bréf frá foreldrum vegna ákvörðunar um breytingar á lokunartímum leikskóla í Vestmannaeyjabæ lagt fram.

 

Fræðsluráð hefur móttekið erindi frá foreldrum leikskólabarna þar sem gerð er athugasemd við ákvörðun ráðsins frá 275. fundi 11. maí sl. um breytingu á lokunartíma leikskóla sveitarfélagsins. Ráðið tekur fram að erindi um breytingu á lokunartíma leikskóla kom frá leikskólastjórnendum. Tillaga leikskólastjórnenda fyrir breytingu á opnun leikskóla var byggð á eftirfarandi rökum; a) lítil nýting dvalartímans eftir kl. 16:15 b) hagræðing í rekstri c) stuðlar að fjölskylduvænna samfélagi. Í erindinu er gerð athugasemd við að ákvörðun hafi verið tekin án aðkomu fulltrúa foreldra leikskólabarna. Ráðið bendir á að foreldrar leikskólabarna hafa áheyrnarfulltrúa á fundum ráðsins og eru boðaðir sem slíkir með fundarboði í gegnum tölvupóst og er það ekki á ábyrgð ráðsins að þeir mæti á fundi. Í erindinu er fjallað um opnunartíma leikskóla í ákveðnum sveitarfélögum. Fræðslufulltrúi Vestmannaeyjabæjar tók saman lista yfir opnunartíma 18 sveitarfélaga og kom í ljós að af þeim 18 sveitarfélögum sem skoðuð voru var algengasti opnunartími leikskóla frá 7:45-16:15.

Fræðsluráð leggur mikla áherslu á gott samtal milli foreldra og ráðsins og telur að með erindinu séu rök bæði skólastjórnenda og foreldra komin fram. Ráðið þakkar því erindið og samþykkir að breyta ákvörðun ráðsins frá 11. maí 2015 á þann veg að opnunartíminn verði frá 07:30-16:30 í stað 07.30-16:15 frá og með 17. ágúst 2015 líkt og samþykkt var á fundi nr. 275. Fræðsluráð beinir því til skólaskrifstofu og skólastjórnenda leikskólanna að kynna fyrirhugaða breytingu vel.

 

   

3.

201304072 - Leikskóla og daggæslumál.

 

Framhald af 3. máli 275. fundar

 

Á síðasta fundi ráðsins lagði stýrihópur um daggæslumál fram nokkra aðgerðarþætti til að styrkja dagforeldrakerfið í Vestmannaeyjum. Í kjölfarið var auglýst eftir dagforeldrum miðað við þessa aðgerðaráætlun. Auglýsingin hefur nú skilað árangri og hafa tveir einstaklingar, Elva Björk Einarsdóttir og Sigurlaug Harðardóttir sótt um leyfi til að gerast dagforeldrar í heimahúsi frá hausti 2015. Fræðsluráð samþykkir umsóknirnar fyrir sitt leyti svo framarlega sem skilyrðum reglugerðar um daggæslu í heimahúsum er fullnægt. Stýrihópurinn um daggæslumál og fræðsluráð mun áfram fylgjast vel með gangi mála og grípa til frekari aðgerða ef þörf þykir. Áfram verður auglýst eftir dagforeldrum.

 

   

4.

200805104 - Grunnskóli Vestmannaeyja. Úthlutun til skólastarfs 2015-2016

 

Tillaga framkvæmdastjóra um úthlutun til skólastarfs í GRV lögð fram.

 

Í tillögu framkvæmdastjóra kom fram að áætlaður fjöldi nemenda skólaárið 2015-2016 verði 519 í 30 bekkjardeildum. Meðaltal í bekk er áætlað um 17 nemendur. Heildarfjöldi kennslustunda til ráðstöfunar fyrir skólastjóra verður 1226,1 þar af eru 129,8 vegna sérkennslu, 10 vegna stuðnings við nemendur með annað móðurmál en íslensku og 2,5 vegna íþróttaakademíu. Samtals eru þetta 47,89 stöðugildi kennara. Samtals eru önnur stöðugildi 37,3. Stöðugildi til ráðstöfunar í GRV skólaárið 2015-2016 eru 85,19. Áætlaður kennslukostnaður skólaársins með launatenglum er um 420 milljónir kr. Annar launakostnaður er um 100 milljónir kr. Gera má ráð fyrir að heildar launakostnaður Vestmannaeyjabæjar vegna GRV á skólaárinu 2015-2016 verði um 520 milljónir kr. heildar rekstrarkostnaður GRV árið 2015 er áætlaður um 705 milljónir.

Fræðslufulltrúi lagði í kjölfarið fram tölur fyrir fræðsluráð varðandi þróun nemendafjölda og stöðugilda við GRV. Fram kom að á tímabilinu 2000-2015 hafi nemendum fækkað um 35% eða úr 805 í 519 nemendur. Á tímabilinu hefur stöðugildum kennara og stjórnenda fækkað um 13% sem þýðir hlutfallslega fjölgun miðað við nemendafjölda. Stöðugildum annarra starfsmanna hefur fjölgað um 9% á sama tímabili. Stöðugildi stuðningsfulltrúa hefur fjölgað um 32% frá 2010 og hafa þeir aldrei verið fleiri en árið 2014-2015. Nemendum, sem voru skráðir í stuðning og sérkennslu, hefur ekki fjölgað að sama skapi.
Fræðsluráð samþykkir tillögu framkvæmdastjóra til skólastarfs 2015-2016.

 

   

5.

201111056 - Íþróttaakademía við GRV.

 

Skýrsla Íþróttaakademíu GRV og ÍBV fyrir skólaárið 2014-2015 lögð fram til kynningar.

 

Í skýrslunni kom fram að 50 nemendur í 9. og 10. bekk hafi verið skráðir í íþróttaakademíuna, 27 drengir og 23 stúlkur, sem er rúmlega 40% nemenda í þessum árgöngum. Nú eru hins vegar skráðir 45 nemendur sem er um 42% af heildar nemendafjölda í 9. og 10. bekk fyrir veturinn 2015-2016. Í skýrslunni kom einnig fram að samstarf GRV og ÍBV hafi gengið mjög vel og að kennarar finni fyrir auknum metnaði í námi, ástundun og aga. Nemendur akademíunnar hafi skilað góðum námsárangri og séu til fyrirmyndar. Fræðsluráð þakkar góða skýrslu og þakkar bæði GRV og ÍBV fyrir það góða starf sem unnið er í Íþróttaakademíunni.

 

   

6.

201506073 - Erindi frá starfsmönnum GRV.

 

Erindi frá starfsmannafundi GRV frá 8. júní s.l. lagt fram.

 

Ráðið þakkar erindið en bendir á að hér er um að ræða innra mál skólans og rétt að starfsmenn beini erindi til síns yfirmanns sem er skólastjóri. Ráðið vísar einnig til afgreiðslu ráðsins á 270. fundi frá 13. nóvember 2014 þar sem fjallað er um framtíðarsýn í fræðslumálum. Þar var tekið ákvörðun um að fjármagn sem nemur 50% stöðu faglærðs ráðgjafa verði flutt af GRV yfir á skólaskrifstofu sem mun taka aukna ábyrgð á stoðþjónustu við skólann. Skólaskrifstofa hefur yfir að ráða sérfræðiþekkingu m.a. í formi sálfræðiþjónustu, kennsluráðgjafar, sérkennslu og námsráðgjafar. Fræðsluráð vísar einnig í bókun við 4. mál þessa fundar.

 

   

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.56

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159