15.01.2015

Fræðsluráð - 271

 
 Fræðsluráð - 271. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

15. janúar 2015 og hófst hann kl. 16:30

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Trausti Hjaltason formaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Gunnar Þór Guðbjörnsson aðalmaður, Gígja Óskarsdóttir 1. varamaður, Jón Pétursson framkvstj. sviðs, Erna Jóhannesdóttir starfsmaður sviðs, Sigurlás Þorleifsson embættismaður, Alda Gunnarsdóttir embættismaður, Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi, Salóme Ýr Rúnarsdóttir áheyrnarfulltrúi og Helga Tryggvadóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi

 

 Áheyrnarfulltrúar leikskólanna, Alda Gunnarsdóttir og Salóme Ýr Rúnarsdóttir yfirgáfu fundinn eftir 5. mál.

 

Dagskrá:

 

1.

201005007 - Ársskýrslur leikskóla.

 

Ársskýrsla leikskólans Sóla 2013-2014 lögð fram.

 

Ráðið þakkar kynninguna. Skýrsluna má nálgast á heimasíðu skólans.

 

   

2.

201310060 - Starfsáætlanir leikskóla Vestmannaeyjabæjar.

 

Starfsáætlanir leikskólanna lagðar fram.

 

Ráðið þakkar kynninguna og lýsir yfir ánægju sinni með það metnaðarfulla starf sem fer fram hjá leikskólunum. Starfsáætlanirnar má nálgast á heimasíðum skólanna.

 

   

3.

201304072 - Leikskóla- og daggæslu mál

 

Kynning. Staðan í janúar 2015.

 

Alls eru 223 börn í leikskólunum í Vestmannaeyjum og er hvert rými sem Vestmannaeyjabær hefur yfir að ráða fullnýtt. Fjórir dagforeldrar sinna daggæsluþjónustu þar sem 18 börn eru í vistun og eru biðlistar farnir að lengjast. Á biðlistunum eru m.a. níu börn fædd á síðari helmingi ársins 2013 og sex börn sem eru fædd á fyrstu þremur mánuðum ársins 2014. Skólaskrifstofan hefur að undanförnu ítrekað auglýst eftir dagforeldrum en án árangurs. Í ljósi stöðunnar felur fræðsluráð framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að kanna alla möguleika til að koma til móts við foreldra m.a. það að Vestmannaeyjabær reki daggæsluúrræði við gæsluvöllinn Strönd fram að vori til að létta á biðlistum.

 

   

4.

201406069 - Ytra mat á skólastarfi. Kannanir og athuganir skólaskrifstofu

 

Skýrsla um niðurstöður gæðakönnunar í leikskólamálum 2014 lögð fram.

 

Fræðslufulltrúi gerði grein fyrir vinnu við ytra mat á skólastarfi og kynntar voru niðurstöður gæðakönnunar sem gerð var meðal foreldra í því sambandi s.l. sumar. Ráðið þakkar kynninguna og telur mikilvægt að slíkt ytra mat sé framkvæmt reglulega. Það gefur haldgóðar upplýsingar um skólastarfið og styður við það góða starf sem fer fram í skólum sveitarfélagsins.

 

   

5.

201411027 - Framtíðarsýn og áherslur í menntamálum

 

Lagt fram til kynningar.

 

Hjá Vestmannaeyjabæ er starfandi samstarfshópur um framtíðarsýn og áherslur í skólastarfi. Hópurinn, sem er skipaður fulltrúum leik- og grunnskólanna ásamt fræðslufulltrúa, hefur tekið saman skjal með yfirlýsingu um framtíðarsýn og áherslur í menntamálum Vestmannaeyjabæjar. Fræðsluráð telur að hér sé um vandaða vinnu að ræða og er sammála áherslunum sem þar koma fram. Ráðið samþykkir að skrifa undir umrædda yfirlýsingu og staðfesta þar með framtíðarsýnina. Ráðið mælir með að í kjölfar formlegrar undirskriftar verði innihald skjalsins kynnt vandlega og sem víðast enda snertir það alla íbúa Vestmannaeyjabæjar.

 

   

6.

201412022 - GRV. Faglegt starf.

 

Skýrsla um faglegt starf í GRV lögð fram.

 

Skólastjóri lagði fram skýrslu um faglegt starf í GRV 2014-2015. Þar er fjallað um helstu markmið skólans sem eru m.a. lestur, aukinn metnaður í skólastarfinu og efling samstarfs við foreldra. Fjallað er um hugmyndafræði sem skólinn starfar eftir. Ber þar helst að nefna "Uppeldi til ábyrgðar", "Olweusaráætlunina" gegn einelti og "Orð af orði". Einnig er fjallað um þróunarhópa sem eru að störfum innan skólans. Áætlun um bættan námsárangur er sett fram ásamt innleiðingaráætlun. Skýrslan er metnaðarfull og upplýsandi og er að finna á heimasíðu GRV.

 

   

7.

200706209 - Samræmd próf.

 

Kynning á helstu niðurstöðum samræmdra prófa haustið 2014

 

Skólastjóri kynnti niðurstöður samræmdra prófa hjá nemendum GRV í 4. 7. og 10. bekk. Ánægjulegt er að sjá góðan árangur í stærðfræði í 4. bekk, en nemendur GRV mælast nokkuð yfir landsmeðaltali. Nemendur í 7 bekk mælast við landsmeðaltal í báðum greinum. Nemendur 10. bekkja mælast aftur á móti fyrir neðan landsmeðaltal í öllum þremur greinunum, þ.e. stærðfræði, íslensku og ensku. Þó ber að taka sérstaklega fram að prófin gefa ákveðna vísbendingu um að árangurinn sé að þokast í jákvæða átt miðað við fyrri ár.

Aðgerðaráætlun sem skólaskrifstofan og skólastjórnendur settu af stað eftir niðurstöðu síðustu prófa er vonandi að skila sér. Fræðsluráð verður vart við vaxandi metnað fyrir bættum árangri í samræmdum prófum hjá nemendum, kennurum, foreldrum og skólastjórnendum sem er af hinu góða.

 

   

8.

200706213 - Trúnaðarmál.

 

Fundargerð trúnaðarmála færð í sérstaka trúnaðarmálabók.

 

Eitt mál tekið fyrir

 

                                                                                              

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:00

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159