22.12.2014

Bæjarstjórn - 1493

 
 Bæjarstjórn Vestmannaeyja – 1493. fundur haldinn í fundarsal Ráðhúss,

22. desember 2014 og hófst hann kl. 12.00

 

Fundinn sátu:

Elliði Vignisson 1. varaforseti, Páley Borgþórsdóttir aðalmaður, Páll Marvin Jónsson aðalmaður, Trausti Hjaltason aðalmaður, Jórunn Einarsdóttir aðalmaður, Stefán Óskar Jónasson aðalmaður og Hildur Sólveig Sigurðardóttir 1. varamaður.

 

Fundargerð ritaði:    Sigurbergur Ármannsson, fjármálastjóri

 

Leitað var eftir því að taka inn með afbrigðum fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs nr. 175 frá 19. desember. Var það samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

 

Dagskrá:

 

1.      201412024 – Álagning útsvars fyrir árið 2015.

Fyrir fundinum lá eftirfarandi tillaga:

Bæjarstjórn samþykkir að útsvarsprósentan ársins 2015 verði 13,98%.

 

Eyjalistinn lagði fram eftirfarandi tillögu.

Við í Eyjalistanum leggjum til að útsvarsprósenta sveitarfélagsins verði fullnýtt líkt og gert var fram að kosningum 2014. 

Með því verður hægt að koma í veg fyrir stórfelldan niðurskurð í einstaka stofnunum, tryggja framvindu búsetumála aldraðra og fatlaðra og setja af stað vinnu við útfærslu frístundakorta.

Jórunn Einarsdóttir (sign)

Stéfán Ó Jónasson ( sign)

 

Tillagan var felld með 5 atkvæðum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks gegn 2 atkvæðum bæjarfulltrúa Eyjalistans.

 

 

Þá var borin upp sú tillaga sem lá fyrir fundinum sem hljóðar svo: Bæjarstjórn samþykkir að útsvarsprósenta ársins verði 13,98%.

Tillagan var samþykkt með 5 atkvæðum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks gegn 2 atkvæðum bæjarfulltrúum Eyjalistans.

 

 

2.      201412047 – Álagning tekjustofna og gjaldskrá ársins 2015.

Álagning gjalda fyrir árið 2015:

 

Álagning fasteignaskatts, holræsagjalda, sorpeyðingar- og sorphreinsunargjalda árið 2015:

1.      Fasteignaskattur af húsnæði verði eftirfarandi hlutfall af fasteignamati þeirra samkvæmt II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, með síðari breytingum, og reglugerð um fasteignaskatt nr. 1160/2005.

a.)    Íbúðir og íbúðarhús, útihús og mannvirki á bújörðum, sem tengd eru landbúnaði og sumarbústaðir: 0,42%.

b.)    Allar aðrar fasteignir: 1,55%.

2.      Holræsagjald af fasteignamati húsa og lóða skv. reglugerð.

a.)    Íbúðir og íbúðarhús, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði og sumarbústaðir: 0,20%.

b.)    Allar aðrar fasteignir: 0,30%

3.      Bæjarráð samþykkir að lagt verði sorpeyðingargjald á hverja íbúð, kr. 36.234 og að

a.)    sorphirðu- og tunnuleigugjald verði kr. 15.089 á hverja íbúð.

b.)    Sorpbrennslu- og sorpeyðingargjöld fyrirtækja samkvæmt samþykktri gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs sem tekur gildi þann 1. janúar 2015.

4.      Gjalddagar fasteignagjalda skulu vera tíu, þ.e. 15. feb., 15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. sept., 15. okt., 15. nóv.

5.      Dráttarvextir reiknast af gjaldföllnum fasteignagjöldum 30 dögum eftir gjalddaga.

6.      Bæjarráð samþykkir að veittur verði 5% staðgreiðsluafsláttur af fasteignasköttum, holræsagjöldum skv. liðum 1 og 2 hér að ofan, séu þau að fullu greidd eigi síðar en 6. febrúar 2015.

7.      Bæjarráð samþykkir að fella niður fasteignagjöld ellilífeyrisþega og öryrkja skv. neðangreindum reglum:

 

Reglur um um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum hjá Vestmannaeyjabæ.

 

1.gr.

Elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í Vestmannaeyjum og eru þinglýstir eigendur viðkomandi húsnæðis er veittur afsláttur af fasteignaskatti, holræsagjaldi og sorpgjöldum samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja ár hvert og reglum þessum, sbr. heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Afslátturinn er tekjutengdur.

 

 

2.gr.

Rétt til afsláttar eiga íbúðaeigendur:

a)      Sem eru 67 ára á árinu eða eldri.

b)      Hafa verið úrskurðaðir 75% öryrkjar fyrir 1. janúar álagningaárið.

c)      Afslátturinn nær einungis til þeirrar íbúðar sem viðkomandi býr í.

 

3.gr.

Þegar um hjón eða sambúðaraðila er að ræða nægir að annað hjóna eða sambúðaraðila fullnægi því skilyrði að vera elli- og eða örorkulífeyrisþegi. Falli annar aðilinn frá, þá á sá eftirlifandi rétt á því að njóta afsláttar hjóna eða sambúðaraðila, út árið sem fráfallið átti sér stað á, óski hann þess.

 

4.gr.

Afsláttur er hlutfallslegur af heildartekjum þ.e. tekjum sem mynda álagningarstofn tekjuskatts-útsvars og fjármagnstekjuskatts, eins og þessar tekjur voru á næsta ári á undan álagningarári. Miðað er við sameiginlegar tekjur hjóna og samskattaðs sambýlisfólks. Viðmiðunarfjárhæðir skulu framreiknaðar árlega með tilliti til breytinga á launavísitölu frá upphafi til loka þess tekjuárs sem miðað er við hverju sinni.

 

5.gr.

Framkvæmd útreiknings afsláttar fer þannig fram að gögn eru sótt til RSK um það hverjir eigi rétt á afslætti og hverjar tekjur þeirra voru á næsta ári á undan álagningarárinu. Þegar nýtt skattframtal liggur fyrir á álagningarári er heimilt að endurreikna afslátt þeirra er þess óska og leiðrétta í samræmi við nýjar forsendur.

6.gr.

Tekjumörk eru sem hér segir:

1.      Fyrir einstakling:

a.       Brúttótekjur 2013 allt að 3.445 þús. kr. 100% niðurf.

b.      Brúttótekjur 2013 allt að 4.078 þús. kr. 70% niðurf.

c.       Brúttótekjur 2013 allt að 4.630 þús. kr. 30% niðurf.

 

2.      Fyrir hjón sem bæði eru ellilífeyrisþegar:

a.       Brúttótekjur 2013 allt að 4.145 þús. kr. 100% niðurf.

b.      Brúttótekjur 2013 allt að 5.009 þús. kr. 70% niðurf.

c.       Brúttótekjur 2013 allt að 5.678 þús. kr. 30% niðurf.

 

Við mat á niðurfellingu fasteignaskatts af eigin íbúð 75% öryrkja sem þeir búa í, skal hafa hliðsjón af fyrrgreindum reglum.

 

3.      Sorphirðu-/sorpeyðingargjald, holræsagjald og lóðarleiga verði fellt niður eða lækkað í samræmi við ofangreindar reglur hvað varðar eigin íbúð ellilífeyrisþega og 75% öryrkja, sem þeir svo sannarlega búa í.

 

 

Gjaldskráin var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

 

 

 

 

 

3.      201412068 – Umræða um búsetumál fatlaðra

Bæjarstjórn Vestmannaeyja ítrekar það sem áður hefur komið fram um mikilvægi þess að á nýhöfnu kjörtímabili verði ráðist í framkvæmdir vegna búsetumála fatlaðra sem veitir fötluðum möguleika á sjálfstæðri búsetu.  Sérstaklega þarf að horfa til þess að slík úrræði verði byggð upp í miðbænum þar sem verslun og ýmis önnur þjónusta verður þar með aðgengilegri og þjónustuþeginn á þar með auðveldara með að bjarga sér sjálfur í hinu daglega amstri.  Sérstaklega þarf að huga að því að nýta sem best samlegð með Sambýlinu við Vestmannabraut 58b. 

 

Öllum má ljóst vera að þörfin fyrir ný búsetuúrræði er aðkallandi.  Svo mjög að mikilvægt er að til aðgerða verði gripið á nýhöfnu kjörtímabili.

 

Elliði Vignisson (sign)

Páll Marvin Jónsson (sign)

Páley Borgþórsdóttir (sign)

Trausti Hjaltason (sign)

Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)

Jórunn Einarsdóttir (sign)

Stefán Ó. Jónasson (sign)

 

Bókunin var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

 

 

4.      20146089 – Kosning í ráð, nefndir og stjórnir.

 

Tilnefning nefndarmanns í bæjarráð.

Í stað Páleyjar Borgþórsdóttur kemur Páll Marvin Jónsson sem formaður bæjarráðs.

 

Tilnefning í forseta bæjarstjórnar

Í stað Páls Marvins Jónssonar kemur Hildur Sólveig Sigurðardóttir

 

Tilnefning skrifara í bæjarstjórn:

Í stað Páleyjar Borgþórsdóttur kemur Birna Þórsdóttir.

 

Tilnefning fulltrúa í Samband sunnl.sveitarfélaga

Í stað Páleyjar Borgþórsdóttur kemur Hildur Sólveig Sigurðardóttir.

 

Tilnefning varamanns í Fulltrúaráð Samb. ísl.sveitarfélaga

Í stað Páleyjar Borgþórsdóttur kemur Hildur Sólveig Sigurðardóttir

 

Tilnenfingarnar voru samþykktar með sjö samhljóða atkvæðum.

 

5.      201412004F – Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja nr. 175 frá 19. desember s.l.

Liðir 1-5 liggja fyrir til umræðu og staðfestingar

Liður 1var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liður 2 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liður 3 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liður 4 var samþykktur með sex atkvæðum, Páley Borgþórsdóttir vék af fundi.

Liður 5 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

 

 

6.      201412005F – Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2994 frá 17. desember s.l.

Liður 1 liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liðir 2 og 3 liggja fyrir til staðfestingar.

Liður 1 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 2 og 3 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

 

7.      201412006F – Fjölskyldu- og tómstundaráð nr. 156 frá 17. desember s.l.

Liðir 1 og 2 liggja fyrir til staðfestingar.

Liðir 1 og 2 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

 

8.      201412003F – Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja nr. 216 frá 15. desember s.l.

Liður 8 liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Eftirfarandi bókun var lögð fram.

Við samþykkjum og gerum ekki aths. við lið 8 í fundargerð umhv.- og skipulagsráðs með þeim fyrirvara að í samráðshópi sem fjallað er um í 4.gr séu bæði fulltrúar frá minni- og meirihluta.

Jórunn Einarsdóttir (sign)

Stefán Ó Jónasson (sign)

 

Liður 8 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 1-7 og 9-10 liggja fyrir til staðfestingar.

Liðir 1-7 og 9-10 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 13.28

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159