16.09.2014

Fræðsluráð - 268

 
 Fræðsluráð - 268. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

16. september 2014 og hófst hann kl. 16.30

 

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður, Trausti Hjaltason aðalmaður, Gunnar Þór Guðbjörnsson aðalmaður, Gígja Óskarsdóttir 1. varamaður, Bjarni Ólafur Guðmundsson 3. varamaður, Jón Pétursson framkvstj. sviðs, Erna Jóhannesdóttir starfsmaður sviðs, Stefán Sigurjónsson starfsmaður sviðs, Alda Gunnarsdóttir starfsmaður sviðs, Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi og Þórdís Jóelsdóttir varamaður.

 

Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi

 

Stefán Sigurjónsson vék af fundi eftir 3. mál.

 

Dagskrá:

 

1.

201408019 - Samstarfsverkefni Tónlistarskóla og Grunnskóla Vestmannaeyja.

 

Kynning á samstarfsverkefni Tónlistarskóla og Grunnskóla Vestmannaeyja

 

Stofnað hefur verið til tilraunaverkefnis um samstarf Tónlistarskóla og Grunnskóla Vestmannaeyja. Markmiðið er að efla samstarf og flæði milli skólastiganna en verkefnið felur m.a. í sér að starfsmenn Tónlistarskólans sjá um tónmenntakennslu í grunnskólanum.
Ráðið þakkar kynninguna.

 

   

2.

201409061 - Málþing um skólamál á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Sagt frá málþinginu "Hvað fékkstu á prófinu?" sem haldið var 8. september s.l.

 

Fræðslufulltrúi kynnti helstu áhersluatriði málþingsins. Tilraun var gerð til að svara spurningunni: "Hvað ræður námsárangri gunnskólanemenda? Niðurstöður voru m.a. þær að nemendum á að líða vel í skólanum, en þeir þurfa líka að ná árangri. Bent var á að m.a. er verið að mennta nemendur fyrir störf sem ef til vill eru ekki eru til í dag. Þar af leiðandi er mikilvægt að nemendur geti lesið úr upplýsingum og því þurfa þeir að vera vel læsir bæði á texta og stærðfærði en því miður hefur komið í ljós að læsi íslenskra nemenda er á niðurleið. Réttlæti þarf að vera til staðar í skólakerfinu þannig að félagsleg og efnahagsleg staða, uppruni, kyn og heimilisaðstæður séu ekki hindrun í námi. Mismunun í skólakerfinu er með minnsta móti á Íslandi miðað við önnur lönd. Helst er hana að finna þegar árangur nemenda á landsbyggðinni m.v. höfuðborgarsvæðið er skoðaður sem og munur á námsárangri drengja og stúlkna. Lögð var áhersla á að það má ekki bíða með að grípa inn í ef nemendur eru ekki að ná árangri því það er hægt að sjá strax í leikskóla hvert stefnir. Fylgni er milli árangurs í skóla og velgengni síðar á ævinni. Mikil áhersla var lögð á mikilvægi góðs foreldrasamstarfs og stuðnings foreldra við börn sín og áhrif þeirra þátta á námsárangur barna.
Ráðið þakkar kynninguna.

 

   

3.

201409062 - Kynning fræðslustjóra Reykjanesbæjar á framtíðarsýn bæjarins í menntamálum og viðsnúningi í frammistöðu nemenda."

 

Sagt frá erindi Gylfa J.Gylfasonar fræðslustjóra Reykjanesbæjar.

 

Gylfi Jón hélt tvo fundi í Vestmannaeyjum þann 20. ágúst s.l. í grunnskólanum fyrir kennara og stjórnendur grunn- og leikskóla og í Ráðhúsinu fyrir starfsfólk og pólitíska fulltrúa.
Gylfi Jón sagði frá sameiginlegri framtíðarsýn þriggja bæjarfélaga í Reykjanesbæ í skólamálum þar sem markmiðið er að bæta námsárangur. Sérstök áhersla er lögð á jákvæða umfjöllun, stuðning og aðhald í daglegu skólastarfi. Verklag framtíðarsýnarinnar einkennist af; 1) áherslu á læsi og stærðfræði í leik- og grunnskólum, 2) notkun skimunarprófa í lestri og stærðfræði, 3) frammistöðumati, 4) góðri samvinnu heimilis og skóla og 5) rannsóknum og gagnvirku sambandi við háskólasamfélagið. Framtíðarsýnin skapar áherslu, hvatningu, stuðning og aðhald fyrir daglegt skólastarf, en á sama tíma fá skólarnir að halda sérkennum sínum og frelsi til að móta eigin aðferðir til að mæta markmiðum framtíðarsýnarinnar. Sýnt þykir að þessi vinna er farin að hafa áhrif og sjá má viðsnúning í frammistöðu nemenda í Reykjanesbæ.

Erindi Gylfa Jóns var vel tekið af öllum sem hlýddu á og í kjölfarið settust skólastjórnendur og pólitískir fulltrúar niður og tóku báðir aðilar jákvætt í að fara yfir hvað hægt væri að gera til að bregðast við með svipuðum hætti í Vestmannaeyjum. Skólaskrifstofu hefur nú verið falið að vinna áfram að framgangi málsins og athuga hvaða leiðir eru raunhæfar til að setja slíka vinnu formlega í gagnið. Fræðsluráð mun í kjölfarið í samráði við alla aðila sem eiga hlut að máli taka afstöðu til næstu skrefa.

 

   

4.

201409063 - Hvernig getum við bætt menntun barnanna okkar? Fundur með menntamálaráðherra.

 

Sagt frá fundi með menntamálaráðherra sem haldinn var í Vestmannaeyjum s.l. sunnudag.

 

Ráðherra kynnti Hvítbók um umbætur í menntamálum. Henni er ætlað að stuðla að jákvæðri og uppbyggilegri umræðu um menntun á Íslandi og hvetja til umbóta og aðgerða. Framtíðarsýnin er að ungt fólk á Íslandi hafi sömu tækifæri og jafnaldrar þess í löndunum sem við viljum bera okkur saman við, en niðurstöður PISA kannana hafa sýnt að hlutfall 15 ára nemenda sem ekki getur lesið sér til gagns hækkaði úr 15% í 21% árið 2012 og standa drengir verr að vígi en stúlkur. Sett eru fram tvö meginmarkmið um umbætur í menntun á Íslandi til ársins 2018. Annars vegar að auka lestrarfærni grunnskólanema úr 79% nú í 90% árið 2018 og hins vegar að auka hlutfall nemenda sem ljúka námi úr framhaldsskóla á tilskildum tíma úr 44% nú í 60% 2018. Ráðherra sagði frá því að nám til stúdentsprófs verði stytt í 3 ár og jafnframt að afrakstur þess að stytta nám til jafns við það sem gerist í öðrum löndum væri að fólk kæmist fyrr út á vinnumarkaðinn og ætti því lengri starfsævi sem skilaði miklu til einstaklinganna sem og efnahags landsins. Verkefna- og samráðshópar hafa verið settir á laggirnar af ráðherra og munu þeir gera tillögur um útfærslu aðgerða til að auka lestrarfærni, stytta námstímann og efla starfsmenntun.
Fundinn sóttu hátt í 60 manns og sköpuðust um tíma líflegar og skemmtilegar umræður.

 

   

5.

200703065 - Gæsluvöllurinn Strönd við Miðstræti

 

Samantekt um rekstur gæsluvallarins sumarið 2014.

 

Fram kom að gæsluvöllurinn var starfræktur frá 14. júlí til og með 6. ágúst. Heildarfjöldi barna sem sóttu gæsluvöllin sumarið 2014 var 531 og meðalfjöldi barna á dag var 33 börn.

 

   

6.

201408017 - Umsókn um leyfi til daggæslu barna í heimahúsi

 

Umsókn um leyfi til daggæslu í heimahúsi. Kolbrún S. Jónsdóttir

 

Fræðsluráð samþykkir erindið enda uppfyllir umsækjandi skilyrði reglugerðar fyrir leyfisveitingu.

 

   

7.

201408016 - Umsókn um leyfi til daggæslu barna í heimahúsi

 

Umsókn um leyfi til daggæslu barna. Esther Bergsdóttir.

 

Fræðsluráð samþykkir erindið enda uppfyllir umsækjandi skilyrði reglugerðar fyrir leyfisveitingu.

 

   

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.45

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159