20.08.2014

Fjölskyldu- og tómstundaráð - 150

 
 Fjölskyldu- og tómstundaráð - 150. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

20. ágúst 2014 og hófst hann kl. 16:00

 

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson, Sigurhanna Friðþórsdóttir, Geir Jón Þórisson, Birna Þórsdóttir, Auður Ósk Vilhjálmsdóttir, Jón Pétursson og Sólrún Erla Gunnarsdóttir.

 

Fundargerð ritaði:  Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs

 

Dagskrá:

 

1.

200704148 - Fundargerð trúnaðarmála fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð.

 

Undir þennan lið falla trúnaðarmál sem lögð eru fyrir ráðið og eru færð í sérstaka trúnaðarmálabók.

 

Fundargerð trúnaðarmála er færð í sérstaka trúnaðarmálabók.

 

   

2.

201408037 - Breytingar á skipulagi öldrunarþjónustu Vestmannaeyjabæjar

 

Framkvæmdastjóri kynnir breytingar á skipulagi öldrunarþjónustu.

 

Sólrún Gunnarsdóttir félagsráðgjafi hefur tekið við starfi deildarstjóra öldrunarmála frá og með 1. ágúst 2014. Deildarstjóri hefur umsjón með málefnum aldraðra í Vestmannaeyjum. Hér er um að ræða skipulagsbreytingar innan núverandi starfsmannahalds fjölskyldu- og fræðslusviðs. Næsti yfirmaður er framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs. Samhliða þessum breytingum verður auglýst eftir starfsmanni sem halda á utan um dagdvöl á Hraunbúðum og verkefni félagslegrar heimaþjónustu. Fjölskyldu- og tómstundaráð er samþykkt þessum breytingum enda þjónusta við eldri borgara mikilvægt og vaxandi verkefni innan sveitarfélagsins.

 

   

3.

200809053 - Málefni eldri borgara

 

Framkvæmdastjóri gerir grein fyrir stöðu málaflokks eldri borgara.

 

Vestmannaeyingum hefur borið gæfa til að standa vel að málefnum eldri borgara enda á sú kynslóð sem byggði upp okkar góða samfélag að njóta verðskuldaðrar virðingar. Í hinum vestræna heimi mun þróun næstu ára verða sú að öldruðum mun fjölga verulega sem hlutfalli af heildar íbúafjölda. Samkvæmt Hagstofu Íslands mun Íslendingum 67 ára og eldri fjölga úr 36 þúsund í 54 þúsund frá árinu 2013 til ársins 2025 eða um 50%. Ekki er ástæða til að áætla annað en að svipuð þróun muni verða hér í Vestmannaeyjum. Þessi breyting mun kalla á nýjar og framsæknar hugmyndir í öldrunarþjónustu og slíku mun fylgja verulegur kostnaður umfram það sem nú er. Kostnaður kemur fram í aukinni eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum, aukinni heilsugæslu, sjúkrahúsþjónustu osfrv.

Til að kortleggja stöðuna og undirbúa frekari stefnumótun samþykkir fjölskyldu- og tómstundaráð að skipa 5 manna stýrihóp. Hópurinn skal sérstaklega kortleggja aldurssamsetningu í Eyjum og leggja mat á líklega þróun. Þá skal mat lagt á núverandi þjónustustig og núverandi þörf. Að lokum skal leggja grunn að frekari stefnumótun og þróun þjónustu við eldri borgara um leið og mat verður lagt á kostnað við slíkt.

Ráðið samþykkir að í hópnum sitji Páll Marvin Jónsson, Sigurhanna Friðþórsdóttir, Geir Jón Þórisson, Birna Þórsdóttir og Auður Ósk Vilhjálmsdóttir sem öll eiga einnig sæti í Fjölskyldu- og tómstundaráði. Með hópnum starfi Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri öldrunarþjónustu bæjarins og Jón Pétursson framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs. Starfshópurinn mun eiga samstarf við aðra fagmenn á sviði öldrunarmála, þar með talið þjónustuhópi aldraðra. Hópurinn fundi reglulega í tengslum við fundi F&T og skili af sér niðurstöðum fyrir árslok.

 

   

4.

201408033 - Utanlandsferð starfsmanna og heimilismanna Sambýlisins haustið 2014

 

Kynning á fyrirhugaðri ferð starfsmanna og heimilisfólks á Sambýlinu, Vestmannabraut 58B til Tenerife.

 

Fjölskyldu- og tómstundarráð þakkar kynninguna og heimilar starfsmönnum Sambýlisins að fara í umrædda ferð enda fellur ekki aukakostnaður á sveitarfélagið. Ráðið óskar jafnramt starfsmönnum og heimilisfólkinu á Sambýlinu góðrar ferðar.

 

   

5.

201407075 - Styrkur til ÍBV-íþróttafélags vegna nýtingar á sundlaug Íþróttamiðstöðvar.

 

Knattspyrnudeildar meistaraflokka karla- og kvenna óska eftir aðgengi að sundlaug Íþróttamiðstöðvarinnar eftir heimaleiki.

 

Fjölskyldu- og tómstundaráð samþykkir að heimila meistaraflokkum karla og kvenna í knattspyrnu aðgang að sundlaug Íþróttamiðstöðvarinnar á opnunartíma og styrkir þá um 100.100 kr í formi sundmiða.

 

   

6.

201407066 - Umsókn um styrk til að halda félagsfund í heimabyggð

 

Parkinsonsamtökin á Íslandi sækja um styrk frá bæjarsjóði.

 

Parkinsonsamtökin á Íslandi óska eftir styrk frá bæjarsjóði að upphæð 150.000 kr til að halda félagsfund í heimabyggð. Er þetta liður í að styrkja tengslin við félagsmenn um land allt og auka samvinnu. Fjölskyldu- og tómstundaráð samþykkir að veita umræddan styrk enda mun hann styrkja íbúa Vestmannaeyja sem tengjast umræddum sjúkdómi á einn eða annan hátt.

 

   

7.

201408039 - Beiðni um styrk vegna Dags heyrnarlausra þann 20. september nk.

 

Fjölskyldu- og tómstundaráð samþykkir að styrkja Félag heyrnarlausra um 40.000 kr sem greiðist beint til félagsins sem stuðningur við Dag heyrnarlausra,  þann 20. september nk.

 

   

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:10

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159