20.03.2013

Fræðslu- og menningarráð - 255

 
 
 
Fræðslu- og menningarráð - 255. fundur
 
haldinn í fundarsal Ráðhúss,
19. mars 2013 og hófst hann kl. 16:30
 
 
Fundinn sátu:
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Jórunn Einarsdóttir, Elsa Valgeirsdóttir, Díanna Þyri Einarsdóttir, Trausti Hjaltason, Jón Pétursson, Erna Jóhannesdóttir, Kristín Jóhannsdóttir, Fanney Ásgeirsdóttir, Alda Gunnarsdóttir, Helga Björk Ólafsdóttir, Helga Tryggvadóttir.
 
Fundargerð ritaði: Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi
 
Einnig sátu Herdís Njálsdóttir, S. Diljá Magnúsdóttir, Salóme Ýr Rúnarsdóttir fundinn sem áheyrnarfulltrúar.
 
Dagskrá:
 
1. 201203094 - Goslokahátíð 2013
Breyting nefndarfulltrúa í stýrihópi og kynning á undirbúningi vegna 40 ára goslokahátíðar Vestmannaeyja.
Páll Scheving hefur óskað eftir að ljúka störfum í nefndinni. Ráðið þakkar Páli vel unnin störf í gegnum tíðina. Ráðið óskar eftir því við Helgu Hallbergsdóttur að hún taki sæti Páls í nefndinni.
Formaður goslokanefndar kynnti hvernig undirbúningi fyrir goslokahátíðina 4.- 7. júli nk. væri háttað, en þá verða 40 ár liðin frá lokum Heimaeyjargossins. Línur eru farnar að skýrast í dagskrá og hvetur nefndin eindregið þá aðila sem hafa huga á að koma að hátíðinni á einn eða annan hátt, vilja koma viðburði að í dagskrá hátíðarinnar eða koma öðrum ábendingum til nefndarinnar til að hafa samband við fulltrúa goslokanefndar í Ráðhúsinu.
 
 
2. 201303040 - Beiðni um styrk fyrir hljómsveitina Blind Bargain sem er á leið á tónlistarhátíðina "Aldrei fór ég suður"
Ráðið óskar hljómsveitinni til hamingju með heiðurinn af því að fá að koma fram á þessari stóru hátíð.
Ráðið getur ekki orðið við erindinu, en felur menningarfulltrúa að ræða við bréfritara um samstarf á öðrum vettvangi.
 
 
3. 201105032 - Daggæsla, dagvistun í heimahúsum
Fræðslufulltrúi greinir frá stöðu mála.
Fræðslufulltrúi gerði grein fyrir stöðu daggæslumála. Fyrir liggur að í vor mun verða fækkun á starfandi dagforeldrum í Vestmannaeyjum. Skólaskrifstofa hefur frá því í desember 2012 margsinnis auglýst eftir áhugasömum aðilum sem vilja reka dagforeldraþjónustu en ekki fengið nein viðbrögð. Framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs leggur til að áfram verði auglýst og aðilum boðnar ívilnanir s.s. í formi niðurgreiðslu á námskeiðskostnaði handa nýjum dagforeldrum. Ráðið þakkar greinargerðina og samþykkir fyrirlagða tillögu skólaskrifstofu.
 
 
4. 201303042 - Frístundaver. Skýrsla starfsársins.
Skýrsla starfsársins 2012-2013 lögð fram.
Fræðslufulltrúi gerði grein fyrir starfsemi frístundaversins í Þórsheimilinu. Ráðið þakkar fyrir greinargóða kynningu og fagnar því góða starfi sem unnið er á frístundaverinu.
 
 
5. 201303037 - Aukagjöld í leikskóla og í frístundaveri. Samræming gjalda umfram vistunartíma.
Gjaldskrá í leikskóla og frístundaveri.
Fræðslufulltrúi kynnti hugmyndir að samræmdum gjöldum í leikskólum Vestmannaeyjabæjar og í frístundaveri. Fræðslufulltrúi leggur til að Vestmannaeyjabær taki upp 1600 kr aukagjald ef barn er sótt eftir lokun leikskóla eða frístundavers. Ráðið samþykkir tillögu fræðslufulltrúa enda um eðlilegt gjald að ræða til að mæta aukakostnaði. Ráðið beinir því til foreldra að virða vistunartíma barna sinna, vinnutíma starfsmanna og starfstíma stofnunar.
Jórunn Einarsdóttir sat hjá við afgreiðslu málsins og óskaði eftir að bóka eftirfarandi:
Undirrituð hefur efasemdir um að sérstakt aukagjald, sem lagt verði á í leikskóla og frístundaveri, skili tilætluðum árangri til lengri tíma. Undirrituð setti sig í samband við nokkur sveitarfélög en ekkert þeirra heldur úti slíku aukagjaldi. Eðlilegt hefði verið að fresta umfjöllun og kanna stöðuna í öðrum sveitarfélögum með formlegum hætti áður en endanleg ákvörðun var tekin.
Hildur S. Sigurðardóttir bókar eftirfarandi: Vestmannaeyjabær ákveður sínar eigin gjaldskrár óháð öðrum sveitarfélögum. Vel hefur tekist til á leikskólanum Sóla með sama aukagjald og í samræmi við skýrslu frístundavers og skv áliti beggja leikskólastjóra bæjarins telur meirihluti fræðsluráðs að aukagjaldið geti stuðlað að meiri skilvirkni við lokun þessara stofnana.
 
 
6. 200703025 - Mat á skólastarfi
Skólastjóri GRV greinir frá innra mati skólans og niðurstöðum nýlegrar Olweusarkönnunar.
Námsráðgjafi GRV greindi frá niðurstöðum Olweusarkönnunar sem lögð var fyrir í skólanum nýverið. Ráðið lýsir yfir ánægju með að dregið hefur úr einelti meðal nemenda GRV og sýnir könnunin að nemendur upplifi í auknum mæli að fullorðið fólk í skólanum vinni gegn einelti. Skólastjóri GRV gerði grein fyrir því innra mati sem verið er að vinna með skólapúlsinum ásamt því að skýra frá almennu skólastarfi. Ráðið þakkar skólastjóra og námsráðgjafa fyrir greinargerðina og vill nota tækifærið til að óska nemendum, foreldrum og starfsfólki GRV til hamingju með frábæran árangur í Lífshlaupinu. Grunnskóli Vestmannaeyja bar sigur úr býtum og augljóst að öflugt starf er unnið við heilsueflingu innan skólans. Í ljósi þeirra upplýsinga sem koma fram í mati á skólastarfi GRV telur fræðsluráð að bæta þurfi samskipti allra þeirra aðila sem koma að stjórnun og daglegu starfi grunnskólans. Jafnframt að bæta þurfi upplýsingastreymi og skýra betur hlutverk og öll þau úrræði sem skólaumhverfinu stendur til boða. Ráðið hvetur aðila til að nýta áheyrnafulltrúa sína í fræðsluráði til að koma sjónarmiðum og áherslum á framfæri við ráðið og einnig til áheyrnarfulltrúa að koma áherslum ráðins á framfæri til umbjóðenda sinna. Ráðið mun í samvinnu við fræðsluskrifstofu halda áfram öflun og úrvinnslu upplýsinga um skólastarf GRV til að fá sem bestu mögulegu yfirsýn yfir stöðu skólans hverju sinni.
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18.35
 
 
 
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159