11.12.2012

Fræðslu- og menningarráð - 253

 

Fræðslu- og menningarráð - 253. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

11. desember 2012 og hófst hann kl. 16.30

 

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Páll Scheving Ingvarsson, Elsa Valgeirsdóttir, Díanna Þyri Einarsdóttir, Trausti Hjaltason, Jón Pétursson, Erna Jóhannesdóttir, Kristín Jóhannsdóttir, Fanney Ásgeirsdóttir og Helga Tryggvadóttir.

 

Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi

 

S.Diljá Magnúsdóttir , Emma Sigurgeirsdóttir, Herdís Rós Njálsdóttir og Helga Björk Ólafsdóttir sátu fundinn sem áheyrnarfulltrúar leik- og grunnskólanna.

Áheyrnarfulltrúar grunnskólans yfirgáfu fundinn eftir að málefni grunnskólans voru afgreidd.

 

Dagskrá:

 

1.

201111056 - Íþróttaakademía við GRV.

 

Endurnýjun á samningi við ÍBV-íþróttafélag vegna reksturs íþróttaakademíu við GRV.

 

Vestmannaeyjabær og ÍBV-íþróttafélag gerðu með sér samstarfssamning vegna þróunarverkefnis á vorönn 2012 þar sem sett var á fót íþróttaakademía við GRV. Samstarf þetta hefur haldist á haustönn 2012 og vilji er til að halda því áfram af beggja hálfu. Markmið verkefnisins er að:
Efla áhuga, metnað og árangur ungra íþróttamanna í námi og íþróttum
Draga úr brottfalli úr íþróttum á viðkvæmum aldri
Sporna við vímuefnaneyslu unglinga
Fylgja eftir skóla-, æskulýðs-, og íþróttastefnu sveitarfélagsins
Koma á formlegra samstarfi milli GRV og ÍBV-íþróttafélags
Auka þjónustu við afreksfólk og hvetja nemendur til að tileinka sér hugmyndafræði íþrótta í námi og hugmyndafræði náms í íþróttum
Milli 30 - 40 nemendur í 9. og 10. bekk hafa stundað nám við íþróttaakademíuna og hefur markmiðum verkefnisins verið náð með sóma. Umsjón með verkefninu hefur verið í höndum ÍBV-íþróttafélags og hafa einstaklingar frá félaginu stýrt því af miklum metnaði og myndarskap. Sérstök ánægja er með að verkefnið hefur stuðlað að mun formlegra og betra samstarfi milli GRV og ÍBV-íþróttafélags undir heitinu "Stefnum hærra saman". Afleiðingin er jákvæðari og bættur skilningur á áherslum og starfi hvors annars sem kemur nemendum sem stunda íþróttir til góða bæði hvað varðar íþróttastarfið og námið.
Fræðslu- og menningarráð samþykkir áframhaldandi stuðning Vestmannaeyjabæjar við verkefnið og felur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að ganga frá endurnýjuðum samstarfssamningi við ÍBV-íþróttafélag. Gert hefur verið ráð fyrir kostnaði í fjárhagsáætlun 2013. Verkefni þetta er frumkvöðlaverkefni sem hefur á árinu hlotið úthlutun úr Sprotasjóði Menntamálaráðuneytis og úr Lýðheilsusjóði Landlæknisembættisins. Því vill ráðið við þetta tilefni veita aukalega 400.000 krónum til verkefnisins vegna þess góða árangurs sem náðst hefur á þeim stutta tíma sem verkefnið hefur verið í gangi og með góðri trú um áframhaldandi árangur á sviðum forvarna, ástundunar náms- og íþrótta og samstarfs milli grunnskóla og íþróttahreyfingarinnar.

 

   

2.

201211088 - Styrkumsókn tónlistarkennara v útgáfu námsefnis.

 

Ráðið fagnar því frumkvæði og metnaði sem birtist í styrkumsókninni. Ráðið felur fræðslufulltrúa að styðja við umsækjanda við áframhaldani framgang málsins.

 

   

3.

201212007 - Samræmd próf 2012

 

Skólastjóri GRV kynnir niðurstöður samræmdra prófa 2012

 

Ráðið lýsir áhyggjum yfir þeim þáttum sem eru undir landsmeðaltali en lýsir jafnframt ánægju með árangur sem náðst hefur í íslensku í 4. bekk og stærðfræði í 7. bekk. Kostnaður vegna fræðslumála hefur aukist verulega, hlutfall menntaðra kennara við GRV aukist til muna sem eflt hefur faglegt starf. Ár eftir ár mælast eldri bekkir GRV undir landsmeðaltali. Verkefnum á borð við orð af orði og íþróttaakademíuna hefur verið ýtt úr vör til að reyna að spyrna við þessari þróun. Ráðið hvetur skólastjórnendur GRV til að halda áfram að fylgja eftir aðgerðaráætlun skólastjóra frá árinu 2011 og leita allra mögulegra leiða til að halda áfram að efla metnað í skólasamfélaginu og auka námsárangur með sérstökum áherslum á að viðhalda árangri í efri bekkjum. Þessa vinnu þarf að vinna í nánu samstarfi við m.a. kennara, fulltrúa foreldra og skólaskrifstofu. Ráðið felur jafnframt fræðslufulltrúa að undirbúa viðhorfskönnun meðal kennara og foreldra um almennt skólastarf ásamt viðhorfum til samræmdra prófa. 

   

4.

201212028 - Starfsáætlanir skólaársins 2012-2013 í leikskólum og grunnskóla Vestmannaeyjabæjar

 

Starfsáætlanir skólanna 2012-2013 lagðar fram til kynningar.

 

Ráðið þakkar kynninguna.

 

   

5.

201212006 - Beiðni um fjölgun barna í leikskólanum Sóla.

 

Erindi frá Hjallastefnunni, rekstraraðila leikskólans Sóla lagt fram.

 

Á seinustu árum hefur Vestmannaeyjabær lagt mikla áherslu á að auka framboð af leikskólaplássum. Árið 2009 var fjöldi leikskólaplássa 170 en árið 2012 hafði þeim fjölgað um 51 og voru því 221. Slíkt kallar eðlilega á aukið fjárframlag til slíks reksturs enda hækkaði rekstrarkostnaður vegna leikskólamála á verðlagi ársins í ár úr 239 milljónum árið 2009 í 269 milljónir árið 2011. Aukningin á þessum tveimur árum nemur því um 30 milljónum. Í umfjöllun um leikskólamál þarf ætíð að hafa hugfast að sú mikilvæga þjónusta er afar kostnaðarsöm. Í því samhengi vill ráðið benda á að meðalframlög Vestmannaeyjabæjar vegna hvers einasta leikskólabarns eru rétt tæpar 1.3 milljónir króna á ári.

Í erindi Hjalla er óskað eftir heimild til að nýta húsnæði á Sóla sem dagforeldradeild og þess að við tveggja ára aldur verði þau börn flokkuð sem almenn leikskólabörn. Við þessu getur ráðið ekki orðið þar sem slíkt myndi leiða til verulegrar kostnaðaraukningar umfram nýsamþykkta fjárhagsáætlun og þyrfti slíkt samþykki að fela í sér niðurskurð á annarri þjónustu. Einnig gæti hugsanlegt misræmi skapast í inntöku barna frá þeim reglum sem gilda hjá sveitarfélaginu. Ráðið er aftur á móti tilbúið að skoða þá leið að Hjalli fái heimild Vestmannaeyjabæjar til að reka dagforeldradeild í húsnæði sínu að því gefnu að sá rekstur verði á sömu forsendum og hjá öðrum dagforeldrum í Vestmannaeyjum. Þar með talið að inntaka barnanna á leikskóla verði á ábyrgð og undir stjórn Vestmannaeyjabæjar rétt eins og er með börn hjá öðrum dagforeldrum í Vestmannaeyjum.

Ráðið felur framkvæmdarstjóra áframhaldandi úrvinnslu málsins."

 

   

6.

201211019 - Starfshópur um endurskoðun daggæslumála.

 

Framhald af máli 201211019 frá 252. fundi fræðslu- og menningarráðs.

 

Nýjar reglur um gjaldskrá leikskóla og niðurgeiðslur vegna þjónustu dagmæðra lagðar fram
Ráðið þakkar kynninguna og samþykkir reglurnar sem lagðar voru fram.

 

   

7.

201212026 - Undir hrauni - ósk um styrk

 

Ráðið lofar áhugavert framtak, það samþykkir kaup a 10 eintökum að útgáfu lokinni.

 

   

8.

201210066 - BTHevent - ósk um styrk

 

Ráðið lofar metnaðarfullt frumkvæði BTHevent. Ráðið getur því miður ekki orðið við erindinu.

 

   

9.

201212029 - Sagnheimar, Byggðasafn - geymsluvandræði

 

Ráðið ræddi húsnæðisvanda Sagnheima en eftir áramót mun þurfa að rýma geymslurými sem safnið hefur haft í Miðstöðinni. Brýnt er að lausn verði fundin á geymsluhúsnæði byggðasafnsins sem allra fyrst, enda samfélagsleg ábyrgð sveitafélagsins að hlúa að sögulegum menningarverðmætum. Ráðið felur menningarfulltrúa í samstarfi við framkvæmdarstjóra umhverfis- og framkvæmdarsviðs að koma málinu í ásættanlegan farveg.

 

   

10.

201212032 - Undirbúningur goslokahátíðar 2013.

 

Greint frá stöðu mála varðandi undirbúning goslokahátíðar 2013

 

Goslokanefnd hefur verið formlega að störfum frá októbermánuði. Línurnar eru farnar að skýrast varðandi dagskrá þakkargjörðar þann 23. janúar n.k.. dagskrá verður gefin út fljótlega í byrjun árs 2013.

 

   

11.

200706213 - Fundargerð trúnaðarmála lögð fyrir fræðslu- og menningarráð

 

Fundargerð trúnaðarmála færð í sérstaka trúnaðarmálabók.

 

   

 

 

 

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18.57

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159