06.12.2012

Stjórn Náttúrustofu Suðurlands -

 
 Fundur í stjórn NS fimmtudaginn 6. desember 2012 kl. 16:00.
 
 
Mætt voru: Rut Haraldsdóttir, Halla Svavarsdóttir, Kristján Egilsson og Ingvar A. Sigurðsson.
 
1. Mál. Fjárhagsstaða NS
Stjórn NS lýsir yfir áhyggjum vegna fjárhagsstöðu stofunnar. Ljóst er að tekjur/styrkir koma ekki
til með að dekka rekstur og útgjöld stofunnar, þannig að enn eykst skuld NS við
Vestmannaeyjabæ sem stóð í 3.264.441 kr. um síðustu áramót.
 
2. Mál. Fjárhagsáætlun NS
Farið yfir fyrirliggjandi rekstraráætlun NS vegna ársins 2013. Fram kemur að tekjur stofunnar á
næsta ári verða kr. 19.500.000, launakostnaður er áætlaður kr 18.755.000 svo ljóst er að lítið
fjármagn er eftir til reksturs stofunnar ef ekki koma til meiri tekjur. Stjórnin hvetur starfsmenn til
að skoða alla möguleika á styrkjum og aukin verkefni sem greitt er sérstaklega fyrir til að bæta
rekstrarstöðuna fyrir árið 2013, að öðrum kosti liggur fyrir að endurskipuleggja þarf rekstur
stofunnar í heild sinni.
 
3. Mál. Umsóknir í veiðikortasjóð
Forstöðumaður greindi frá því að gær skilaði Náttúrustofan inn framvinduskýrslu vegna styrks sem
fékkst frá Veiðikortasjóði á þessu ári og kemur lokagreiðsla styrksins vonandi til útborgunar fljótlega.
Einnig var í gær sótt um styrk til sjóðsins til að halda áfram rannsóknum á lunda á landsvísu.
 
4. Önnur mál.
Bréf til umhverfis- og auðlindaráðuneytis
Stjórnarformaður greindi nefndarmönnum frá bréfi sem sent var þann 9. nóvember s.l. til Umhverfis- og
auðlindaráðuneytisins þar sem óskað er eftir fundi með fulltrúum ráðuneytisins til að ræða möguleika til fjármögnunar á rannsóknarstöðu við Náttúrustofu Suðurlands til vöktunar sjófuglastofna. Ekki hafa borist nein viðbrögð frá ráðuneytinu vegna þessa erindis.
Stjórn stofunnar felur forstöðumanni að fylgja erindinu eftir, því brýnt er að fá svör frá ráðuneytinu sem
allra fyrst til að tryggja áframhaldandi rekstur stofunnar í núverandi mynd.
 
Stapatún.
Stjórn NS lýsir yfir áhyggjum vegna hrossabeitar á Stapatúni. Blautasti hluti svæðisins er nú mjög illa
farinn vegna beitar auk þess sem nýlega hefur verið ekið yfir það á torfærumótorhjóli og því raskað
enn frekar. Umhverfis og skipulagsráð ákvað á 58. fundi sínum, þann 4. apríl 2007, að hafna beiðni Gunnars Árnasonar um að fá að beita hrossum á þessu svæði og vitnaði þá í umsögn Náttúrustofu Suðurlands sem ráðlagði að beit á þessu svæði yrði ekki leyfð. Um þremur árum síðar var öðrum aðilum engu að síður leyft að nýta svæðið til hrossabeitar án þess að forsendum hefðu nokkuð breyst.
Stjórn NS leggur til að svæðið verði friðað á ný fyrir beit og tekið verði á utanvegaakstri á þessu svæði
sem öðrum.
 
Gróðurrannsóknir á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Kynntar fyrirhugaðar rannsóknir á vegum þessara stofnana í Elliðaey og á Heimaey. Náttúrustofan
mun aðstoða við þessara rannsóknir eins og hægt er.
 
Alþjóðleg ráðstefna um Surtsey í tilefni 50 ára afmælis eyjarinnar.
Forstöðumaður sagði frá undirbúningi ráðstefnunnar sem haldin verður í Reykjavík 12-15. ágúst á
næsta ári. Fyrirhugað er að ráðstefnugestir komi í dagsferð til Vestmannaeyja 14. ágúst og er verið að
undirbúa þá heimsókn.
 
Fundi slitið 17:00
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159