24.07.2012

Fræðslu- og menningarráð - 249

 
 Fræðslu- og menningarráð - 249. fundur
 
haldinn í fundarsal Ráðhúss,
24. júlí 2012 og hófst hann kl. 16:30
 
 
Fundinn sátu:
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Elsa Valgeirsdóttir, Díanna Þyri Einarsdóttir, Trausti Hjaltason, Sigurlaug Björk Böðvarsdóttir, Jón Pétursson, Kristín Jóhannsdóttir.
 
Fundargerð ritaði: Jón Pétursson, framkvæmdastjóri
 
Emma Sigurgeirsdóttir leikskólastjóri sat fundinn í 4. máli.
Kristín Jóhannsdóttir vék af fundi eftir 3. mál.
 
 
Dagskrá:
 
1. 201203094 - Goslokahátíð 2012
Umræða um liðna goslokahátíð og stórhátíð á næsta ári.
Fræðslu og menningarráð ræddi nýliðna goslokahátíð. Ráðið þakkar bæjarbúum og gestum afar ánægjulega og vel heppnaða goslokahelgi. Ánægjulegt var hversu margir bæjarbúar skreyttu húsnæði og götur í tilefni hátíðarinnar. Sérstakar þakkir fá bæjarbúar, listamenn og fyrirtæki sem tóku virkan þátt í hátíðarhöldunum ásamt goslokastarfshópi Vestmannaeyjabæjar. Ráðið felur menningarfulltrúa að vinna úttekt um hátíðina og skila formanni ráðsins. Ráðið ræddi einnig að á næsta ári verða 40 ár liðin frá Heimaeyjargosinu og 50 ár frá Surtseyjargosinu. Ráðið undirstrikar mikilvægi þess að vanda verði sérstaklega vel til skipulagningar þessara tímamóta. Ráðið mun skipa starfshóp vegna stórafmælishátíðarinnar á haustdögum.
 
 
2. 201111059 - Afmælisár í Safnahúsi árið 2012
Umræða um nýliðna afmælishátíð í Safnahúsinu
Myndarleg afmælisdagskrá hefur verið í gangi frá byrjun árs í safnahúsi Vestmannaeyja og mun hún halda áfram út árið en náði afmælisdagskráin þó hápunkti sínum dagana 30. júní til 8. Júlí. Þar voru ótalmargir spennandi fyrirlestrar og viðburðir á borð við afhjúpun nýs merkis Bókasafns Vestmannaeyja og færir fræðslu- og menningarráð öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum við að gera þessa dagskrá mögulega bestu þakkir fyrir. Þá vill ráðið þakka sérstaklega starfshópi afmælisársins þeirra góða starf um leið og það slítur formlega starfshópnum.
 
 
3. 201201121 - Æfingahúsnæði - drög að samningi um aðkomu Vestmannaeyjabæjar
Umsókn um framlegningu á samnings um æfingarhúsnæði
Sigursteinn Marinósson kom á fundinn og gerði grein fyrir gangi mála í æfingahúsnæðinu til þessa. Ráðið ræddi umsókn um framlengingu á samningi ungs tónlistarfólks um æfingarhúsnæði við Skildingaveg. Ráðið samþykkir að framlengja samningnum um 6 mánuði til viðbótar en felur formanni húsráðsins og menningarfulltrúa að finna skilvirkari leiðir fyrir nýjar ungar hljómsveitir til að fá aðgang að húsnæðinu til að gæta jafnræðis. Bendir ráðið áhugasömum ungum hljómsveitum á að hafa samband við formann húsráðs æfingahúsnæðisins, Sigurstein Marinósson, óski það eftir aðgangi að húsnæðinu.
 
 
4. 201207068 - Dagatal Kirkjugerðis
Umfjöllun um dagatal Kirkjugerðis skólaárið 2012-2013.
Fræðslu- og menningarráð ræddi skóladagatal leikskólans Kirkjugerði fyrir skólaárið 2012-2013. Leikskólastjóri Kirkjugerðis leggur fram tillögu um samtals 9 daga, ýmist heila eða hálfa, fyrir skipulags- og námskeiðsdaga og starfsmannafundi. Fyrirkomulag skipulags- og námskeiðsdaga auk starfsmannafunda hefur verið borið undir stjórn foreldrafélags Kirkjugerðis. Er það skoðun foreldra að fækka þurfi dögun á leikskólanum sem lokað er. Leikskólinn Sóli mun vera með 4 skipulags- og námskeiðsdaga á næsta skólaári. Til að mæta óskum foreldra og til að gæta jafræðis milli skóla getur ráði ekki samþykkt tillögu leikskólastjóra og beinir því til hans að miða fjölda skipulags- og námskeiðsdaga við 4 daga.
 
Ráðið felur skólaskrifstofu og leikskólastjóra Kirkjugerðis að komast að sameiginlegri niðurstöðu um niðurröðun skipulags- og námskeiðsdaga með það að markmiði að sem minnst röskun verði fyrir atvinnuþátttöku foreldra og að til hliðsjónar verði niðurstöður foreldrakönnunar sem teknar voru í júlí 2012. Einnig verði reynt að samræma lokanir skólastofnana eftir fremsta megni. Ráðið felur skólaskrifstofu í samvinnu við leikskólastjóra Kirkjugerðis að útfæra tímasetningu starfsmannafunda þannig að sem minnst röskun verði á leikskólastarfi. Ráðið leggur til að skóladagatal Kirkjugerðis verði lagt fyrir á næsta fundi ráðsins.
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:25
 
 
 
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159