08.05.2012

Fræðsluráð - 246

 
Fræðsluráð - 246. fundur
 
haldinn í fundarsal Ráðhúss,
þriðjudaginn 8. maí 2012 og hófst hann kl. 16.30
 
 
Fundinn sátu:
Hildur Sigurðardóttir, Páll Scheving Ingvarsson, Díanna Þyri Einarsdóttir, Trausti Hjaltason, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Jón Pétursson, Erna Jóhannesdóttir, Fanney Ásgeirsdóttir og Helga Tryggvadóttir.
 
Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi
 
S.Diljá Magnúsdóttir sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi foreldra.
 
Dagskrá:
 
1.
201204067 - Erindi frá kennurum GRV lagt fram.
Erindi frá kennurum GRV frá 12. apríl 2012.
Fræðslu- og menningaráð fjallaði um innsent erindi kennara við GRV og erindi foreldrafélags GRV sem tekur undir áhyggjur kennara.  Í bréfi kennara koma fram  áhyggjur  af stærðum bekkja og vöntun á baklandi innanhúss í GRV.  Kennarar leggja til að breyting verði gerð á skipuriti skólans og að viðmið um bekkjastærðir verði endurskoðuð.

Fræðslu- og menningaráð bendir á að rekstur fræðslukerfisins tekur í dag til sín næstum 50% af rekstri málaflokka sveitarfélagsins.  Þar af kostar rekstur GRV um 630 milljón króna og eru þá úrræði vegna lengdrar dvalar ekki talin með eins og gert er t.d. á Seltjarnarnesi og víðar.  Ráðið úthlutar þessu fjármagni til rekstur skólans en frekari útfærsla á rekstri er á höndum skólastjóra og annarra stjórnenda GRV.  Slíkt er að öllu jöfnu ekki hluti af ákvörðunarvaldi ráðsins. Ráðið tekur þar af leiðandi ekki ákvörðun um bekkjastærðir svo fremi sem þær séu innan þeirra marka sem ráðið hefur tilgreint.

Á yfirstandandi skólaári var úthlutað 1242,5 tímum fyrir 581 nemanda. Skólaárið 2012 til 2013 verða að öllu óbreyttu 575 nemendur og gert ráð fyrir 1224 tímum.  Í bréfi kennara koma fram upplýsingar sem benda til þess að þeir telji þörf fyrir að þetta tímamagn verði aukið.  Ráðið frestar ákvörðunartöku þar að lútandi og  óskar eftir mati skólaskrifstofu á því hvort einhverjar breytingar hafa orðið sem kalla á aukið tímamagn fyrir komandi kennsluár.

Hvað varðar óskir um breytingar á skipuriti skólans þá lýsir ráðið sig viljugt til að skoða það af dýpt og fullri alvöru.  Ráðið samþykkir því að skipa stýrihóp til að meta þörfina fyrir breytt skipulag og eftir atvikum að koma með tillögur að breytingum sem meðal annars myndi verða til þess að veita kennurum í BV það bakland sem þeir þurfa innanhúss.  Stýrihópinn skipa Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður ráðsins, Páll Scheving Ingvarsson varaformaður og Trausti Hjaltason ráðsmaður.  Með hópnum vinna Jón Pétursson framkvæmdastjóri og Erna Jóhannesdóttir fræðslufulltrúi.  Stýrihópnum er gert að skila af sér svo fljótt sem verða má
 
2.
200805104 - Grunnskóli. Úthlutun kennslustunda v skólastarfs í GRV
Fræðslu- og menningarráð vinnur eftir fjárhagsáætlun sem samþykkt er í byrjun rekstrarárs. Frávik frá áætlun raskar öllum rekstri Vestmannaeyjabæjar og við það verður ekki búið. Á því skólaári sem nú er senn að ljúka var úthlutað 1242 kennslustundum. Þegar því kennslumagni var úthlutað var gert ráð fyrir 581 nemanda skv. 6. lið 233. fundar. Í dag eru um 590 nemendur við GRV og stefnir í að næsta skólaár verði 575 nemendur skráðir við GRV. Núverandi úthlutun eru 1224  kennslustundir. Ráðið lýsir þó vissum skilningi með þá stöðu sem lýst er í erindi skólastjóra en felur fræðslufulltrúa að koma með frekari upplýsingar og rökstuðning hvað erindið varðar. Óskað er eftir því að umsögnin liggi fyrir á næsta fundi ráðsins og mun ráðið í framhaldi af því taka afstöðu til beiðni um aukningu á kennslumagni.
 
3.
200705093 - Skóladagatal Grunnskóla Vestmannaeyja.
Skóladagatal Grunnskóla Vestmannaeyja lagt fram til kynningar.
Skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja lagði fram tillögur að skóladagatali fyrir skólaárið 2012-2013. Ráðið samþykkir tillögu skólastjóra.
 
4.
200706213 - Fundargerð trúnaðarmála lögð fyrir fræðslu- og menningarráð
Undir þennan lið falla trúnaðarmál fræðsluráðs.
Fundargerð trúnaðarmála færð í sérstaka trúnaðarmálabók.
 
 
 
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18.20
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159