21.11.2011

Fræðslu- og menningarráð - 239

 
Fræðslu- og menningarráð - 239. fundur 
 
haldinn í fundarsal Ráðhúss,
mánudaginn 21. nóvember 2011 og hófst hann kl. 16:30
 
 
Fundinn sátu:
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Páll Scheving Ingvarsson, Díanna Þyri Einarsdóttir, Trausti Hjaltason, Gígja Óskarsdóttir, Jón Pétursson, Rut Haraldsdóttir, Erna Jóhannesdóttir, Kristín Jóhannsdóttir, Fanney Ásgeirsdóttir, Helga Tryggvadóttir.
 
Fundargerð ritaði: Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi
 
Fanney Ásgeirsdóttir, Helga Tryggvadóttir, Erna Jóhannesdóttir og Jón Pétursson viku af fundi eftir 4. mál
 
Dagskrá:
 
1. 201111014 - Ályktun aðalfundar foreldrafélags Grunnskóla Vestmannaeyja.
Skólastjóri GRV gerir grein fyrir svari sínu við bréfi frá foreldrafélagi Grunnskóla Vestmannaeyja.
Ráðið fagnar því að foreldrafélag GRV er áberandi í hagsmunagæslu barna sinna. Hlutverk foreldrafélags skv. lögum um grunnskóla er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Fræðslu- og menningarráð vill benda á að við grunnskóla starfar skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélagsins um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Foreldrafélag GRV kýs tvo fulltrúa í skólaráð og hafa þeir kost á að koma þar með ábendingar um bætt skólahald. Fræðslu- og menningarráð þakkar skólastjóra fyrir svar hans við ályktun foreldrafélagsins. Skólastjóri fer með stjórn GRV, veitir honum faglega forystu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Ef foreldrafélag GRV er ekki sátt við svör skólastjóra getur það beint erindi sínu til skólaráðs og í framhaldi sent ábendingar til fræðsluráðs um úrbætur.
 
 
 
2. 200703025 - Mat á skólastarfi
Formaður fræðslu- og menningarráðs og skólastjóri GRV gera grein fyrir vinnu við ytra mat á skólastarfi GRV og fundum í tengslum við það.
Ráðið þakkar kynninguna og fagnar því að ytra mat sé gert á Grunnskóla Vestmannaeyja en það mun veita skólasamfélaginu í Vestmannaeyjum haldgóðar upplýsingar um stöðu skólastarfsins og skapa tækifæri til uppbyggingar.
 
 
3. 201111056 - Stofnun íþróttaakademíu við GRV.
Formaður fræðslu- og menningarráðs gerir grein fyrir hugmyndum að stofnun íþróttaakademíu við GRV.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður fræðslu- og menningarráðs kynnti hugmynd að stofnun íþróttaakademíu við tvo elstu bekki Grunnskóla Vestmannaeyja.
Markmiðið með stofnun íþróttaakademíunnar er að efla áhuga og metnað ungra íþróttamanna jafnt í námi sem og íþróttum, draga úr líkum á brottfalli úr íþróttum og neyslu vímuefna. Með þessu er verið að vinna að formlegri samstarfs- og samráðsvettvangi grunnskóla og íþróttafélaga í anda Skóla- og æskulýðsstefnu og Íþróttastefnu Vestmannaeyjabæjar og um leið stuðla að gagnkvæmum skilningi og virðingu á starfi beggja aðila. Mikill fjöldi nemenda grunnskólans stundar íþróttir af miklum kappi og stundum fleiri en eina íþrótt í senn. Þessu fylgir að mikill tími fer í æfingar, keppnisferðalög og annað sem tilheyrir félagsstarfinu. Því er mikilvægt að gagnkvæmur skilningur, stuðningur og samstaða ríki hjá grunnskóla og íþróttahreyfingunni varðandi t.d. áherslur á heimanám og æfingasókn. Lagt er til að stofnaður verði starfshópur sem skoðar grundvöll að stofnun íþróttaakademíu og koma á formlegra samstarfi GRV og íþróttahreyfingarinnar. Þar sem mikill fjöldi þeirra nemenda sem hafa íþróttir sem valgreinar í 9. og 10 bekk koma úr íþróttagreinum innan ÍBV-íþróttafélags (handbolta og/eða fótbolta) er óskað eftir því að ÍBV-íþróttafélag skipi tvo fulltrúa í umræddan starfshóp. Fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar sitja í starfshópnum Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður fræðslu- og menningarráðs, fulltrúi V-lista, og Jón Pétursson framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs. Einnig sitji í hópnum Ólöf Aðalheiður Elíasdóttir fulltrúi GRV, Jón Ólafur Daníelsson og Árni Stefánsson. Óskað er eftir að ÍBV héraðssamband tilnefni fulltrúa í starfshópinn. Starfshópnum er gert að skila bráðabirgðaniðurstöðum fyrir árslok. Ráðið þakkar kynninguna og samþykkir tillögur þær sem lagðar eru hér fram.
 
 
4. 201111055 - Samræmd próf 2011
Skólastjóri GRV greinir frá niðurstöðum samræmdra prófa 2011.
Ráðið þakkar kynninguna. Það er áhyggjuefni að þrátt fyrir miklar faglegar endurbætur á skólastarfi á borð við aukið hlutfall menntaðra kennara, ferðakerfi eldri bekkja og sérverkefnum þá virðist árangurinn ekki skila sér í samræmdum könnunarprófum. Það er enginn vafi á því að mjög faglegt og vandað starf fer fram í Grunnskóla Vestmannaeyja, en betur má ef duga skal. Sú staðreynd að 10. bekkur grunnskólanema í Vestmannaeyjum er ítrekað undir landsmeðaltali og í ár töluvert undir landsmeðaltali í öllum greinum kallar á nánari naflaskoðun.
Því felur ráðið skólastjóra að vinna greinargerð sem tekur saman hvaða þættir geti hugsanlega skýrt þessar niðurstöður og aðgerðaráætlun til að bregðast við niðurstöðunum. Greinagerðina og aðgerðaráætlun skal vinna í nánu samstarfi við kennara, fulltrúa foreldra, skólaskrifstofu og eftir atvikum aðra sem málinu tengjast. Greinargerðinni skal skila eigi síðar en í lok janúar 2012.
 
 
5. 201111026 - Ósk um að taka þátt í undirbúningi 40 ára afmæli eldgossins í Vestmannaeyjum.
Fyrir liggur bréf frá Ásgeiri Þorvaldssyni varðandi aðkomu bæjarins að heimildarsöfnun í tengslum við Vestmannaeyjagosið.
Ráðið fagnar umræddu verkefni og tekur undir mikilvægi þess að safna saman slíkum munnlegum heimildum. Fræðslu- og menningarráð bendir umsækjanda á að nokkur slík verkefni eru nú þegar í gangi. Fræðslu- og menningarráð getur ekki orðið við erindinu að öðru leyti en svo að ef af útgáfu bókar verður samþykkir ráðið kaup á 10 eintökum að útgáfu lokinni. Fræðslu- og menningarráð hvetur umsækjanda eindregið til að sækja um styrk til Menningarráðs Suðurlands fyrir verkefninu.
Ráðið fagnar aðkomu áhugasamra einstaklinga að menningartengdum viðburðum bæjarfélagsins og hafi umsækjandi áhuga á að koma að undirbúningi afmælis eldgossins hvetur ráðið hann eindregið
að hafa samband við menningarfulltrúa Vestmannaeyjabæjar.
 
 
6. 201110123 - Landsbyggðartónleikar á vegum FÍH og F.Í.T.- Flytjendur ársins 2012
Menningarfulltrúi kynnir tillögur að tónleikum á vegum FÍH.
Lagt fram til kynningar. Ráðið samþykkir að menningarfulltrúi ásamt skólastjóra Tónlistarskóla Vestmannaeyjabæjar sjái um framgang málsins.
 
 
7. 201111057 - Safnahelgin 2011
Kynning og umræður um Safnahelgina sem fram fór 3. - 7. nóvember sl.
Langa safnahelgin stóð yfir frá 3. ? 7. nóvember 2011. Ráðið lýsir yfir mikilli ánægju með myndarlega dagskrá safnahelgar sem stóð yfir frá fimmtudegi til mánudags. Frír aðgangur var að öllum söfnum bæjarins og í dagskrá helgarinnar gat hver sem er fundið eitthvað við sitt hæfi, ungir sem aldnir, og var vel mætt í alla viðburði helgarinnar, hvort sem um var að ræða myndlistasýningar, tónleika, bókaupplestra eða leik- og kvikmyndasýningar. Þessi helgi gæti vel orðið ein af stærri ferðamannahelgum okkar og hefur nú þegar markað sér sérstakan sess
 
 
8. 201110132 - Starfslaun bæjarlistamanns
Framhald af lið 7. í 237. fundi fræðslu- og menningarráðs og 8. máli 1453. fundar bæjarstjórnar Vestmannaeyja.
Ráðið hefur endurskoðað nýjar reglur um starfslaun bæjarlistamanns og ákveðið að halda áfram árlegri veitingu starfslaunanna. Ráðið samþykkir endurskoðaðar reglur en helsta breytingin frá fyrri reglum er 1. Regla er hljóðar svo: ,,Auglýst er í marsmánuði eftir umsóknum og/eða tilnefningum að ,,Bæjarlistamanni Vestmannaeyja, með umsóknarfresti skv. auglýsingu í bæjarblöðum. FMV er frjálst að úthluta starfslaununum hvort sem er til einstaklings, hóps, hljómsveitar eða félagasamtaka. FMV velur úr framkomnum tilnefningum/umsóknum og úthlutar á sumardaginn fyrsta, að fenginni staðfestingu bæjarstjórnar. Viðkomandi hlýtur titilinn ,,Bæjarlistamaður Vestmannaeyja fyrir úthlutunarárið.
Þessi breyting felur það í sér að á næsta ári verður hægt að tilnefna einstaka listamenn eða hóp listamanna og munu slíkar tilnefningar ásamt umsóknum um starfslaunin verða lögð fram til ákvörðunar ráðsins á bæjarlistamanni Vestmannaeyja.
 
 
9. 201111070 - Greinagerð um umfang og rekstur Ljósmyndasafns eftir sameiningu við Héraðsskjalasafnið 1. janúar 2011
Greinargerð frá Jónu B. Guðmundsdóttur héraðsskjalaverði um starfsemi ljósmyndasafnsins það sem af er ári.
Ráðið þakkar kynninguna og felur menningarfulltrúa og fjármálastjóra að greina fjárþörf héraðsskjalasafnsins vegna umsýslu Ljósmyndasafns Vestmannaeyja og taka tillit til þess við fjárhagsáætlunargerð ársins 2012.
 
 
10. 201111072 - Útgáfa á jólasálmum eftir séra Jón Þorsteinsson frá Kirkjubæ Vestmannaeyjum.
Erindi dags. 16. nóvember frá tónlistarhópnum Mandal þar sem óskað er eftir styrk til útgáfu á jólasálmum Jóns Þorsteinssonar frá Kirkjubæ.
Fræðslu- og menningarráð samþykkir að veita Þjóðlagasveitinni Mandal kr. 50.000.- upp í kostnað við fyrirhugaða útgáfu á sálmun séra Jóns Þorsteinssonar píslarvotts frá Kirkjubæ í Vestmannaeyjum.
 
 
11. 201111059 - Afmælisár í Safnahúsi árið 2012
Árið 2012 eru 150 ár frá stofnun Bókasafns Vestmannaeyja og 80 ár frá stofnun Byggðasafns Vestmannaeyja. Tillögur starfshóps um tilhögun afmælisársins lagðar fram.
Mikil uppbygging hefur verið í safnamenningu Vestmannaeyja á undanförnum árum. Sæheimar, Sagnheimar og Surtseyjarstofa eru flaggskip safna okkar í dag. Safnahúsið hefur tekið miklum breytingum á undanförnu ári, ný og glæsileg Einarsstofa hefur verið opnuð og sannað gildi sitt fyrir farandssýningar. Safnahúsið hefur verið klætt að utan og er útlit þess í dag undir áhrifum jarðfræðilegrar sögu Vestmannaeyja. Byggðasafnið tók miklum stakkaskiptum við opnun Sagnheima og er óhætt að segja að gríðarlega vel hafi tekist við að færa sögu Vestmannaeyja til nútímans. Viðtökur við Sagnheimum hafa verið mjög góðar og aðsókn mikil og er það krefjandi hlutverk safnstjóra að halda áhuga bæjarbúa og ferðalanga á Sagnheimum og tryggja að þetta sé ekki einungis nýjabrumið heldur það sem koma skal. Nú þar sem styttist í afmælisár safnanna í Safnahúsinu hafa Kári Bjarnason, Helga Hallbergsdóttir og Arnar Sigurmundsson hafið undirbúningsvinnu við tilhögun og skipulagningu afmælisársins. Ráðið þakkar þeim fyrir þeirra vinnu.
Ráðið skipar starfshóp sem samanstendur af Hildi Sólveigu Sigurðardóttur formanni ráðsins, Kristínu Jóhannsdóttur menningarfulltrúa, Kára Bjarnasyni bókasafnstjóra, Helgu Hallbergsdóttur safnstjóra Sagnheima og Arnari Sigurmundssyni til frekari undirbúnings afmælisársins og þróunar dagskrár.
Ráðið samþykkir að bærinn úthluti kr. 2.000.000,- til skipulagningar og beinir því til fjármálasviðs að taka tillit til þess við fjárhagsáætlunargerð næsta árs. 
 
 
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:10
 
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159