22.03.2011

Fræðslu- og menningarráð -

 
Fræðslu- og menningarráð - 229. fundur
 
haldinn í fundarsal Ráðhúss,
þriðjudaginn 22. mars 2011 og hófst hann kl. 15.00
 
 
Fundinn sátu:
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Páll Scheving Ingvarsson, Díanna Þyri Einarsdóttir, Trausti Hjaltason, Elliði Vignisson, Jón Pétursson, Erna Jóhannesdóttir, Fanney Ásgeirsdóttir, Alda Gunnarsdóttirog Helga Tryggvadóttir.
 
Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi
 
Júlía Ólafsdóttir skólastjóri Sóla og Alda Gunnarsdóttir skólastjóri Kirkjugerðis yfirgáfu fundinn kl. 15.50
 
Dagskrá:
 
1.
200910055 - Þjónustukönnun Capacent
Kynning á niðurstöðum Capacent könnunar árið 2010.
Elliði Vignisson bæjarstjóri  kom á fundinn og gerði grein fyrir helstu niðurstöðum þjónustukönnunar Capacent fyrir árið 2010. Ráðið lýsir yfir ánægju með þessar niðurstöður sem gefa til kynna að þær hagræðingaraðgerðir sem farið var í m.a. með sameiningu grunnskólanna og stofnun 5 ára leikskóladeildarinnar Víkur hafi leitt af sér bætta þjónustu og aukna ánægju íbúa Vestmannaeyja. Fræðslu- og menningarráð vill þakka öllum starfsmönnum Vestmannaeyjabæjar fyrir þeirra þátt í að auka ánægju bæjarbúa á þjónustu sveitarfélagsins.
 
2.
200703065 - Gæsluvöllurinn Strönd við Miðstræti
Gæsluvöllurinn Strönd við Miðstræti. Ársskýrsla.
Fræðslufulltrúi gerði grein fyrir ársskýrslu gæsluvallarins Strandar 2010 ásamt helstu starfsemi hans á liðnu ári. Ráðið samþykkir tillögu fræðslufulltrúa um að starfstími gæsluvallarins Strandar verði á sama tíma og sumarlokanir leikskóla þ.e. dagana 11. júlí til og með 10. ágúst 2011. Ráðið samþykkir einnig að komugjald á gæsluvöllinn sumarið 2011 verði 500 kr en hægt verði  að kaupa 10 miða kort á 4500 kr.
 
3.
201102091 - Ályktun mótmælafundar "samstaða um framhald tónlistarskólanna"
Ályktun mótmælafundar "samstaða um framhald tónlistarskólanna" lögð fram til kynningar.
Ályktunin lögð fram til kynningar.
 
4.
201102120 - Ályktun stjórnar Félags leikskólakennara vegna niðurskurðar til leikskóla hjá sveitarfélögum landsins
Lagt fram til kynningar.
Ályktunin lögð fram til kynningar. Ráðið tekur undir með F.L. að á þessum tímum niðurskurðar í þjóðfélaginu er nauðsynlegt að hlúa einstaklega vel að öryggi og velferð barna. Vestmannaeyjabær hefur á síðustu árum bætt verulega við rekstur leikskóla með það að markmiði að auka þjónustu við börn og barnafólk. Það er þó alltaf skylda í öllum rekstri að fara eins vel með fjármagn og kostur er og því nauðsynlegt að leita sífellt leiða til hagræðingar í málaflokknum til að geta tryggt áframhaldandi góða þjónustu.
 
5.
201101426 - Hagræðing í rekstri fræðslukerfis Vestmannaeyja.
Framhald af 8. máli frá 228. fundi
Starfshópur sem skipaður var vegna hagræðingar í rekstri fræðslukerfis Vestmannaeyja hefur undanfarnar vikur fundað stíft með hlutaðeigandi aðilum og átt með þeim marga málefnalega og árangursríka fundi. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun þar sem enn er verið að meta þær hugmyndir sem komu upp við þessa vinnu. Þó liggur strax fyrir að starfshópurinn mun ekki mæla með að hætt verði við niðurgreiðslur vegna þjónustu dagmæðra þar sem slík ákvörðun kippir grundvellinum undan rekstri dagmæðra og takmarkar getu foreldra til að snúa aftur á vinnumarkaðinn. Starfshópurinn mælir heldur ekki með því að inntöku barna á leikskóla verði seinkað enda hefur ráðið unnið hart að því að auka þjónustustig Vestmannaeyjabæjar með fjölgun leikskólaplássa. Endanleg niðurstaða starfshópsins mun liggja fyrir um mánaðarmótin mars/apríl. Ráðið samþykkir tillögur starfshópsins.
Bókun áheyrnarfulltrúa kennara: Fulltrúi kennara í fræðslu- og menningrráði leggur áherslu á að fram komi að rekstrarfjáraukning GRV síðustu fimm árin var 15% en ekki 29% eins og fram kemur í bókunum ráðsins 2. febrúar 2011. Vissulega er 29% rétt frá 2005 til 2009 en síðustu fimm árin, 2006 til 2010, var rekstrarfjáraukning 15%. Þess má geta að rekstrarfé GRV minnkaði um 5% frá 2009 til 2010. Fulltrúi kennara hvetur ráðið til að vanda vinnubrögð.
Elliði Vignisson bókar:
Margítrekað hefur verið reynt að útskýra fyrir fulltrúa kennara að þegar fjallað er um rekstur er unnið upp úr ársreikningum.  Þær tölur sem fulltrúi kennara vill miða við lágu ekki fyrir þegar ráðið fjallaði um rekstrartölur.   Þá er einnig ástæða til að benda fulltrúa kennara á að sú lækkun sem verður á rekstrarkostnaði milli áranna 2009 og 2010 á sér fyrst og fremst skýringar í ákvörðun stjórnar Fasteignar hf. um afslátt af leigu en tengist ekki innra starfi á nokkurn hátt. 
Brigslanir fulltrúa kennara um óvönduð vinnubrögð eru fráleitar.  Ráðið fjallaði um erindið og samþykkti einróma.  Í kjölfarið fjallaði bæjarstjórn Vestmannaeyja um erindið og samþykkti einnig einróma.  Þrátt fyrir skilning á því að kennarar vilji bæði gæta hagsmuna sinna og faglegarar stöðu skólanna þá vekur það furðu að fulltrúi kennara skuli velja að líta sem svo á að það fólk sem veitir skólunum stjórnunarlega forystu sé ekki að vanda vinnu sína.  
 
 
6.
201103050 - Námskeið fyrir skólanefndir
Lagt fram til kynningar
Námskeið fyrir skólanefndir kynnt. Ráðsmönnum og áheyrnarfulltrúum býðst að sitja námskeiðið þann 18. apríl næstkomandi í boði Vestmannaeyjabæjar. Námskeiðið verður kennt í fjarfundi frá 13-17.30 í húsnæði Visku v/Strandveg. Ráðið hvetur alla sem sjá sér fært að mæta til að skrá sig hjá Ernu Jóhannsdóttur fræðslufulltrúa.
 
7.
201103055 - Olweus - eineltisteymi og vinnuferli
Kynning á eineltisteymi og vinnuferli í GRV þegar kemur upp grunur um einelti eða neikvæð samskipti nemenda.
Helga Tryggvadóttir náms- og starfsráðgjafi kom og kynntieineltisteymi og vinnuferli í GRV þegar kemur upp grunur um einelti eða neikvæð samskipti nemenda. Ráðið þakkar kynninguna. Í ljósi umræðna í fjölmiðlum síðustu vikur er nauðsynlegt að fyrir liggi skýrir vinnuferlar um það hvernig tekið er á þessu alvarlega vandamáli og að hlutaðeigandi aðilar fái þá aðstoð og stuðning sem þörf er á til að leysa málin í friði.
 
8.
201103060 - Eftirlitsmyndavélar í GRV.
Kynning á hugmyndum um uppsetningu á eftirlitsmyndavélum í húsnæði Barnaskóla Vestmannaeyja.
Ráðið fjallaði um hugmyndir um að koma upp eftirlitsmyndavélum í húsnæði Barnaskóla Vestmannaeyja. Tilgangurinn er að auðvelda starfsfólki að hafa eftirlit með umgengni um húsnæði og eigur sem og samskipti nemenda. Ráðið gerir ekki athugasemdir við slíka uppsetningu svo fremi sem hún rúmast innan fjárhagsáætlunar og notkun hennar falli að reglum um persónuvernd.
 
9.
201103065 - Skólaráð GRV.
Kynning á skólaráði GRV.
Ráðið þakkar kynninguna.
 
10.
201103067 - Systkinaafsláttur
Tillaga um breytingar á innheimtu vegna barna umfram 2. barn í fjölskyldu.
Vestmannaeyjabær hefur lagt sig fram um að vera meðal fremstu sveitarfélaga er varðar þjónustu við barnafólk. Ráðið leggur til breytingar á innritunar- og innheimtureglum leikskóla Vestmannaeyjabæjar sem og  á reglum um heildagsvistun í frístundaveri þannig að gjald fyrir 3. barn og umfram verði frítt. Afslátturinn gildir á lægsta gjaldi, óháð dvalartíma. Breytingarnar taka gildi 1. maí 2011. Það er von ráðsins að þetta muni létta undir með stórum barnafjölskyldum ásamt því að ýta undir fjölgun Vestmannaeyinga.
 
11.
200706210 - Starfsmannamál GRV
Beiðni um launalaust leyfi.
Sigurhanna Friðþórsdóttir grunnskólakennari óskar eftir launalausu leyfi skólaárið 2011-2012. Skólastjóri GRV er samþykkur því.
Fræðslu- og menningarráð samþykkir erindið.
 
 
 
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16.25
 
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159