07.12.2010

Fræðslu- og menningarráð -

 
Fræðslu- og menningarráð - 227. fundur
 
haldinn í fundarsal Ráðhúss,
þriðjudaginn 7. desember 2010 og hófst kl. 15.00
 
 
Fundinn sátu:
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Páll Scheving Ingvarsson, Elsa Valgeirsdóttir, Díanna Þyri Einarsdóttir, Trausti Hjaltason, Elliði Vignisson, Jón Pétursson, Rut Haraldsdóttir, Erna Jóhannesdóttir, Kristín Jóhannsdóttir, Fanney Ásgeirsdóttir, Alda Gunnarsdóttir, Valgerður Guðjónsdóttir og Helga Tryggvadóttir.
 
Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir fræðslufulltrúi
 
Kristín Jóhannsdóttir og Rut Haraldsdóttir yfirgáfu  fundinn eftir umræðu í 3. máli um fjárhagsáætlunargerð fyrir menningarmál. Áheyrnarfulltrúar leik- og grunnskóla komu inn á fund í 3. máli.
 
Dagskrá:
 
1.
200805078 - Samningur við Sögusetur 1627
Uppsögn Söguseturs á samningi.
Fyrir lá uppsögn söguseturs 1627 á samningi við Vestmannaeyjabæ um rekstur sögu- og byggðasafns.  Enn fremur lá fyrir beiðni Þekkingarseturs Vestmannaeyja um samstarf við Vestmannaeyjabæ um rekstur safnsins.
Þekkingarsetur hefur undanfarið ár annast rekstur fiskasafns Vestmannaeyja með samningi við Vestmannaeyjabæ.  Reynslan af því samstarfi er afar góð bæði hvað varðar rekstur og faglega stöðu safnsins.  Fræðsluráð felur framkvæmdastjóra að vinna að samningi við Þekkingarsetrið um rekstur byggðasafnsins í samstarfi við Þekkingarsetrið.  Niðurstaða þeirrar vinnu verði síðan lögð fyrir ráðið til umfjöllunar og eftir atvikum til samþykktar. Ennfremur samþykkir ráðið að fela skjalasafni Vestmannaeyja umsjón og varðveislu ljósmyndasafns bæjarins.
 
2.
201010079 - Sögu og minjasafnið Skansinn.
Umræða um samvinnu Vestmannaeyjabæjar og HS veitna hf. um að gera Skanssvæðið að sameiginlegu sögu- og minjasafni.
Ráðið samþykkir að stofna stýrihóp til að vinna að þróun Skanssvæðisins með fulltrúum HS veitna hf.  Fyrir Vestmannaeyjabæ skulu sitja Egill Egilsson og Helga Hallbergsdóttir.
 
3.
201010081 - Fjárhagsáætlun 2011
Fjárhagsáætlunarvinna 2011.
Formaður ráðsins og framkvæmdastjórar fræðslu- og menningarmála gerðu grein fyrir þeirri vinnu sem nú á sér stað og tengjast fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2011
 
 Farið var yfir lykilstærðir og horfur í málaflokknum.  Fyrir liggur að umtalsverður kostnaðarauki hefur orðið í rekstri fræðslumála á seinustu árum bæði í rekstri grunn- og leikskóla.
i.                   Leikskólar
Fyrir liggur að hlutfallslega hafa  leikskólamálin aukist mest innan reksturs fræðslu- og uppeldismála seinustu árin eða um 47% hækkun á síðustu 5 árum.  Hækkunin er enn meiri þegar árið 2010 er tekið með að fullu.  Skýringin á þessu er að sú mikla áhersla sem bæjaryfirvöld hafa lagt á faglega þróun, fjölgun leikskólaplássa og lægri leikskólagjöld.  Fyrir utan viðbótarframlög til fasts reksturs var aukafjármagn sett í leikskólamálin til kaupa á tækjum og tólum og fjölgun starfsmanna á 5 ára deildinni.  Þá hefur öll hagræðing seinustu ára farið í að lækka leikskólagjöld og hafa þau verið lækkuð úr því að vera hæst á landinu niður fyrir landsmeðaltal.  Á komandi ári eru líkur fyrir því að annað hvort þurfi að finna frekari hagræðingaraðgerðir, hækka leikskólagjöld eða draga saman í þjónustu.
Ráðið felur framkvæmdastjóra í samráði við formann og varaformann að leggja mögulegar leiðir fyrir ráðið til að ná niður kostnaði við rekstur leikskóla. 
 
ii.                   Grunnskóli
Fyrir liggur að kostnaður vegna reksturs GRV hefur aukist um 29% á síðustu 5 árum og ljóst að ef ekki hefði verið gripið til hagræðingaaðgerða svo sem aldursskiptingar hefði kostnaðaraukningin orðið umtalsvert meiri.  Skýringin á þessari miklu aukningu er aukinn launakostnaður bæði vegna kjarsamningsbundinna réttinda kennara og sú áhersla sem lögð hefur verið á aukin gæði í grunnskólastarfi í Vestmannaeyjum.  Þar vegur til að mynda þungt kostnaður við rekstur mötuneytis fyrir nemendur, átak til eflingar lestrarkennslu, aukinn stuðningur við nemendur með sértæka námserfiðleika og margt fleira.
Ráðið felur framkvæmdastjóra í samráði við formann og varaformann að leggja mögulegar leiðir fyrir ráðið til að ná niður kostnaði við rekstur GRV. 
 
4.
201012022 - Staðfesting leyfa til nýrra dagforeldra
Leyfi til nýrra dagforeldra lagt fram til staðfestingar.
 
5.
200706210 - Starfsmannamál Grunnskóla Vestmannaeyja
Skiptivinna í skólum. Málinu frestað.
 
 
6.
201012020 - Tengsl fræðslustarfs Vestmannaeyjabæjar og fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð og lífsviðhorf
Á undanförnum vikum hefur mikið verið rætt um samstarf kirkju og skóla.  Fræðsluyfirvöld í Vestmannaeyjum hafa átt því láni að fagna að eiga farsælt samstarf  við trúfélög og þá sérstaklega kristna söfnuði.   Samstarfið hefur bæði náð til formlegs samstarfs um trúarbragðarfræðslu, kirkjuferðir  skólabarna á aðventu og aðstoð presta þegar nemendur eða starfsmenn  verða fyrir áfalli. Kirkjur hafa staðið myndarlega að barna- og unglingastarfi og kynnt slíkt á vettvangi skólanna til jafns við önnur æskulýðsfélög.    Skólabörn í Vestmannaeyjum hafa ennfremur notið góðs af dreifingu Gídeonfélaga á Nýja testamentinu til skólabarna en hana hafa þeir stundað í næstum 60 ár.
Fræðslu- og menningarráð Vestmannaeyja telur mikilvægt að skólar á vegum Vestmannaeyjabæjar skilgreini sjálfa sig sem stofnanir í fjölmenningar- og fjölhyggjusamfélagi og gæti sem slíkir að réttindum allra. Skólastarf ber því að stuðla að umburðarlyndi og tillitssemi. Þannig ber að temja nemendum virðingu fyrir einstaklingum sem hafa aðra lífsskoðun eða aðra siði en þeir sjálfir. Umburðarlyndi lærist ekki í tómarúmi.
Í lögum um grunnskóla segir að starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi, kærleika og kristinni arfleið íslenskrar menningar. Fræðslu- og menningarráð Vestmannaeyja telur það því skyldu skólanna að leggja sérstaka rækt við kristinfræði um leið og tekið er tillit til nemenda sem tilheyra minnihlutahópum.
Fræðslu- og menningarráð hvetur því til og óskar eftir áframhaldandi samstarfi við trúfélög og kirkjur í Vestmannaeyjum.
 
7.
201010045 - Rekstur GRV á næstu skólaárum.
Framhald af 10. máli frá 225. fundi.
Fjöldi nemenda  í skólanum verður svipaður á næsta ári og er á þessu skólaári. Þó fækkar kennslustundum þar sem tímum vegna  gæðastjórnunarverkefna fækkar.  Því  er skólinn ofmannaður og  gæti kallað á  að stöðugildum fækki. Mikilvægt er að skoða faglega þætti og þarfir skólans varðandi fagkennara þegar valið er í störf og að hafa gæði skólastarfsins og þarfir  nemenda í forgangi. Ráðið leggur áherslu á að ferlið verði sem gagnsæjast, að  starfsmenn fái upplýsingar sem fyrst varðandi stöðu mála.
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.05
 
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159