12.10.2010

Fræðslu- og menningarráð -

 
Fræðslu- og menningarráð - 225. fundur
 
haldinn í fundarsal Ráðhúss,
þriðjudaginn 12. október 2010 og hófst hann kl. 15:00
 
 
Fundinn sátu:
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Páll Scheving Ingvarsson, Elsa Valgeirsdóttir, Trausti Hjaltason, Elliði Vignisson, Jón Pétursson, Rut Haraldsdóttir, Erna Jóhannesdóttir, Kristín Jóhannsdóttir, Fanney Ásgeirsdóttir og Sigurlaug Björk Böðvarsdóttir.
 
Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi
 
Kristín Jóhannsdóttir og Rut Haraldsdóttir yfirgáfu fundinn eftir 6. mál. Þórdís Jóelsdóttir, Fanney Ásgeirsdóttir áheyrnarfulltrúar grunnskólans, Erna Jóhannesdóttir og Jón Pétursson komu inn á fund eftir 6. mál
 
Dagskrá:
 
1.
201009088 - Framkvæmd við klæðningu á Safnahúsi
Á fundinn kom Sigurður Smári Benónýsson og gerði grein fyrir væntanlegu útboði á klæðningu Safnahúss.
Sigurður Smári Benónýsson byggingarfulltrúi og Ólafur Snorrason forstöðumaður umhverfis- og framkvæmdasviðs kynntu fyrirliggjandi teikningar af klæðningu utan á Safnahúsið.
 
 
2.
201009089 - Framkvæmdir við anddyri safnahúss
Á fundinn kom Jóhanna Ýr Jónsdóttir og gerði grein fyrir hugmyndum að endurgerð á anddyri safnahúss.
 
Fyrir liggur boð fjölskyldu Einars Sigurðssonar útgerðarmanns frá Vestmannaeyjum um að styrkja endurgerð á anddyri safnahúss í minningu Einars. Fyrir liggja ennfremur hugmyndir starfsmanna um endurgerðina.
 
Fræðslu- og menningarráð þakkar höfðinglegt boð og samþykkir fyrir sitt leyti fyrirhugaða framkvæmd enda fellur hún vel að heildar hugmyndum ráðsins um endurgerð Safnahússins.
 
 
3.
201009137 - Ljósmyndasafn Vestmannaeyja.
Í desember næstkomandi lætur eini starfsmaður Ljósmyndasafns Vestmannaeyja, Gunnar Ólafsson, af störfum sökum aldurs. Gunnar hefur nær einungis verið að sinna safni Kjartans Guðmundssonar við að bera kennsl á fólk og er það verk langt komið. En Ljósmyndasafn Vestmannaeyja er auðvitað mikið stærra en einungis safn Kjartans. Til eru ógrynni ómetanlegra ljósmynda en aldrei hefur verið til fjármagn til að fara almennilega í gegnum það safn og því miður mun með Gunnari glatast sú litla vitneskja sem við höfum um hvað er til því engin skrásetning hefur verið hafin. Verkefnastaða safnstjóra Byggðasafns Vestmannaeyja er slík að ef ekki fæst fjármagn til að ráða starfsmann í Gunnars stað mun Ljósmyndasafn Vestmannaeyja þurfa að loka. Því fer safnstjóri fram á það við ráðið að það skoði allar mögulegar leiðir til að finna fjármagn til að ráða starfsmann svo ekki þurfi að koma til lokunar.
 
Eins og gefur að skilja hefur hvorki Fræðslu- og menningarráð né önnur fagráð Vestmannaeyjabæjar heimild til að gera breytingar á fjárhagsáætlun ársins. Fagráð samþykkja fjárhagsáætlanir í upphafi árs og þurfa að halda sig innan þeirra fram að næstu áætlun. Að finna fjármagn felur í sér að draga úr á einum stað og bæta í á öðrum.
 
Fræðslu- og menningarráð óskar eftir því að á næsta fundi ráðsins liggi fyrir tillögur frá safnastjóra um hvort og þá hvernig sé hægt að hagræða í rekstri safnsins til að mæta þörfum ljósmyndasafns.
 
 
 
4.
201009066 - Mormónasýning á byggðasafni
Jóhanna Ýr Jónsdóttir safnstjóri kynnir hugmyndir um Mormónasýningu fyrir nýja Byggðarsafnið.
Fræðslu- og menningarráð þakkar kynninguna og lýsir áhuga sínum til að gera ráð fyrir miðlun hinnar merkilegu sögu Mormónatrúar í Vestmannaeyjum í endurgerð sögusýningar  Byggðasafns Vestmannaeyja.
 
5.
201006053 - Freyja Gunnarsdóttir - styrkbeiðni
Fræðslu og menningarráð metur mikils frumkvæði og kraft þann sem birtist í umsókninni og telur hana til marks um sköpunargleði, áræðni og virðingu fyrir menningararfi Vestmannaeyja. Fræðslu- og menningarráð veitir þó ekki lengur styrki af því tagi sem hér um ræðir heldur er það nú gert í gegnum Menningarsamning Suðurlands sem Vestmannaeyjabær er þátttakandi í. 
 
Fræðslu- og menningarráð hvetur því listamanninn til að sækja um styrk til Menningarsamnings Suðurlands.
Ennfremur felur ráðið kynningar- og markaðsfulltrúa að vinna með styrkbeiðanda í samræmi við umræður á fundinum.
 
6.
201009068 - Styrkbeiðni frá Stellu Hauksdóttur
Fræðslu og menningarráð metur mikils frumkvæði og kraft þann sem birtist í umsókninni og telur hana til marks um sköpunargleði og áræðni listamannsins. Fræðslu- og menningarráð veitir þó ekki lengur styrki af því tagi sem hér um ræðir heldur er það nú gert í gegnum Menningarsamning Suðurlands sem Vestmannaeyjabær er þátttakandi í. 
 
Fræðslu- og menningarráð hvetur því listamanninn til að sækja um styrk til Menningarsamnings Suðurlands.
Ráðið felur menningar- og markaðsfulltrúa að vinna með styrkbeiðanda að fyrirhuguðum tónleikum.
 
7.
201009026 - Bréf mennta- og menningarmálaráðherra um velferð barna og ungmenna
Lagt fram til kynningar
 
8.
200706210 - Starfsmannamál Grunnskóla Vestmannaeyja
Umsókn um launalaust leyfi í framhaldi af fæðingarorlofi.
 
9.
200805104 - Úthlutun kennslustunda og stuðnings v skólastarfs í GRV
Umsókn um viðbótarúthlutun kennslustunda til skólastarfs skólaárið 2010-2011.
Fræðslu- og menningarráð vinnur eftir fjárhagsáætlun sem samþykkt er í byrjun rekstrarársins. Framúrkeyrslu á einum lið verður að mæta með hagræðingu á öðrum liðum eigi fjárhagsáætlun að ganga eftir. Ráðið getur ekki sótt aukafjármagn á miðju ári. Frávik frá áætlun raskar enda öllum rekstri Vestmannaeyjabæjar og við það verður ekki búið.
 
Fræðsluráð hefur þegar úthlutað kennslumagni til að sinna stuðningi í skólanum og jafnframt bætt við 30 kennslustundum vegna sveigjanlegs skólastarfs, nýbúafræðslu, fjölmennra bekkjardeilda og ferðakerfis í unglingadeild. Alls er veitt 145,8 kennslustundum til að sinna sérkennslu og þjálfun auk sérstaks fjármagns vegna stuðningsfulltrúa.
 
Ráðið lýsir þó vissum skilningi með þá stöðu sem lýst er í erindi skólastjóra en felur fræðslufulltrúa að kalla eftir frekari upplýsingum og rökstuðningi hvað erindið varðar. Sérstaklega er kallað eftir nánari skýringum á þörf fyrir aukningu vegna barna með sérþarfir. Óskað er eftir því að umsögnin liggi fyrir á næsta fundi ráðsins og mun í ráðið í framhaldi af því taka afstöðu til beiðni um viðbótarúthlutun og stuðning.
 
10.
201010045 - Rekstur GRV á næstu skólaárum.
Fyrir liggur að jafnvel þótt íbúaþróun haldi áfram að vera jákvæð mun nemendum fækka nokkuð á næstu skólaárum. Þannig telur árgangurinn sem lýkur skólagöngu á þessu skólaári 53 börn á meðan að árgangurinn sem er að hefja skólagöngu telur einungis 43 börn. Sé miðað við núverandi íbúafjölda munu 206 nemendur ljúka skólagöngu við GRVá næstu þremur árum en 146 nemendur hefja nám við skólann. 
 
Ráðið óskar eftir því að fyrir næsta fundi liggi áætlun skólastjóra um það hvaða áhrif þessi nemendafækkun hefur á kennslumagn og starfsmannahald.
 
 
 
 
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.25
 
 
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159