26.03.2007

26.03.2007 6. fundur stýrihóps

 

26.03.2007 6. fundur stýrihóps vegna undirbúnings aldursskiptingar.
Mætt: Páll Einarsson, Elísa Kristmannsdóttir, Hafdís Snorradóttir, Adda Sigurðardóttir, Erna Jóhannesdóttir og Jón Pétursson.
Hulda Birgisdóttir og Fanney Ásgeirsdóttir boðuðu forföll.

Gögn frá Fanneyju Ásgeirsdóttur varðandi viðbótarúthlutun og deildarstjórastöður lögð fram.

Skólaakstur. Engin lög eða reglugerðir sem segja að það eigi að aka börnum í skólann.

Rök með að taka upp akstur. Umferðarþungi - hætta fyrir yngstu börnin. Langt fyrir einstaka nemendur. Á móti. Þurfum að auka hreyfingu. Aldrei verið boðið upp á akstur frá leikskólum, af hverju þarf að aka börnum í fyrsta bekk? Nemendum er t.d. ekki boðið upp á akstur í íþróttir eða aðrar uppákomur á vegum tómstunda- og íþróttafélaga. Af hverju er nauðsynlegra að aka þeim í skólann?

Stýrihópur telur að ekki sé um forgangsmál að ræða því flest börn eiga tiltölulega stutt í skólann. Skólaskylda er í höndum foreldra og þeir hafa sinnt því að koma börnum sínum í skólann. Bent er á úttekt á vegalengdum á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar undir "Skólamál" - Hverjar eru vegalengdirnar?

Eldhúsmálin - forgangsmál. Sterk krafa er frá forráðamönnum barna um að boðið sé upp á mat í skólanum. Núna er verið að bjóða upp á þrískipt fyrirkomulag í grunnskólanum fyrir yngri börnin, unglinga og kennara. Stýrihópur telur mikilvægt að komið verði upp aðstöðu til að útbúa léttar máltíðir eða að taka á móti heitum mat þannig að nemendur og kennarar geti matast í skólanum.

Umfjöllun stýrihópsins fram að þessu:

· Aldursskipting. Afgreitt.

· Hvar skiptingin verður. Afgreitt.

· Niðurröðun í skólahúsnæðið. Afgreitt.

· Fjöldi bekkjardeilda. Stýrihópur mælir með viðbótarúthlutun þannig að fjöldi bekkjardeilda verði 16 í hvorri starfsstöð.

· Úthlutun vegna sérkennslu og stuðningstíma. Að úthlutun til GV verði heildstæð vegna sérkennslu og stuðnings. Allt sem snýr að stuðningi og sérkennslu verði í sama pottinum þannig að stjórnendur nýti sjóðinn sem best fyrir þá nemendur sem þurfa sérstök úrræði (sérdeild, námsver, stuðningur, sérkennsla). Skólastjórinn setji fram áætlun um skipulag sérkennslu á hverju ári m.a. um það hvernig hann ætlar að nýta úthlutaða sérkennslu- og stuðningstíma.

· Deildarstjórnun. Stýrihópur leggur til að deildarstjórar verði fyrir yngsta stig, miðstig og sérkennslu en möguleiki á deildarstjóra eða fagstjórum á unglingastigi.

· Aðgengismál. Forgangsmál nr. 1. Vinna við bætt aðgengi er þegar hafin.

· Matarmál. Stýrihópur telur að um forgangsmál sé að ræða og hvetur til að komið verði upp aðstöðu til að útbúa léttar máltíðir eða taka á móti heitum mat þannig að nemendur og starfsfólk geti matast í skólanum ef þess er óskað.

· Lífsleiknibrautin.

Stýrihópur telur að skipulag og markmið hennar þurfi að vera skýrt. Ákveða þarf námsmarkmið, inntökureglur, tengingu við skólanámskrána, tímamagn, val á kennara o.s.frv. Heppilegt að skoða hvað er verið að gera á öðrum stöðum.

 

Rætt um hvað gerist eftir 10. bekk hjá börnum sem eru á lífsleiknibraut. Nemandi á lífsleiknibraut tekur oftast a.m.k. eitt samræmt próf. Hann lýkur grunnskólaprófi og á því rétt á að sækja um í framhaldsskóla. Mikilvægt að efla samstarf milli FÍV og GV almennt og m.t.t. framhaldsleiða fyrir börn sem hafa verið á lífsleiknibraut.

 

Næsti fundur stýrihóps verður mánudaginn 16. apríl kl. 15 í Ráðhúsinu.

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159