08.03.2007

3. fundur stýrihóps vegna

 

3. fundur stýrihóps vegna undirbúnings aldursskiptingar.
Fimmtudagur 8. mars 2007 kl. 15.

Mætt: Fanney Ásgeirsdóttir, Hulda Birgisdóttir, Elísa Kristmannsdóttir, Adda Sigurðardóttir, Páll Einarsson, Erna Jóhannesdóttir, Jón Pétursson, Hjörtur Kristjánsson, varaformaður skólamálaráðs og Páll Marvin Jónsson, formaður skólamálaráðs.

Fundarritari: Erna Jóhannesdóttir

 

Stýrihópnum hafa borist fjölmargar tillögur, skriflegar og munnlegar og þakkar þann áhuga sem starfsmenn og foreldrar hafa sýnt starfi hópsins. Meðal annars eru tvær vel unnar og rökstuddar tillögur, annars vegar frá Höllu Júlíu Andersen og hins vegar frá Bryndísi Bogadóttur og Unni Baldursdóttur. Jafnframt lá fyrir afrit af bréfi Kennarafélags Vestmannaeyja til fulltrúa meirihluta bæjarstjórnar er varðar störf stýrihópsins.

 

Í ljósi ofangreindra upplýsinga fór stýrihópurinn aftur yfir ákvörðun um að 1.-5. bekkir verði í Hamarsskóla og 6.-10. bekkir í Barnaskóla. Niðurstaðan varð að halda sig við fyrri ákvörðun en með tveimur fyrirvörum:

 

a) Þessi ákvörðun verði endurskoðuð svo fljótt sem þörf er á, jafnvel árlega. Teljist það hagkvæmt á síðari stigum, faglega og gagnvart húsnæði, að stefna að því að 1.-7. bekkir verði í sérstöku húsnæði, og 8.-10. bekkir í öðru, þá skal stefnt að því.

 

b) Við aldursskiptinguna nú í haust skal leitast við að 6. og 7. bekkir geti haft félagsskap hvor af öðrum sem hægt er, gagnvart kennslurými og athafnarými. Áhersla verði lögð á að hlúa vel að þessum hópi og hafa sérstaka deildarstjórn eða fagstjórn, sem verði gert að vinna með stjórnendum yngri og eldri stiga.

 

Stýrihópur ásamt formanni og varaformanni skólamálaráðs voru einróma samþykkir þessum ákvörðunum og staðfesta endanlega aldursskiptinguna; 1. - 5. bekkir staðsettir í Hamarsskólanum og 6. - 10. bekkir í Barnaskólanum með fyrrgreindum fyrirvörum.

 

Röksemdafærsla fyrir ákvörðun stýrihópsins.

Með skiptingu á milli 5. - 6. bekkjar er verið að skapa möguleika á þrískiptu skólastigi með yngra stigi 1.- 5. bekk, miðstigi 6. - 7. bekk og svo unglingastigi 8. - 10. bekk.


Hugmynd er að deildarstjórn eða fagstjórn verði yfir hverju þessara skólastiga og áhersla lögð á að hlúa að hverju þessara stiga.


Áhersla verður lögð á gott samstarf og samvinnu á milli skólastiganna í gegnum samstarf stjórnenda og kennara.


Staðsetning 1. - 5. bekkjar í Hamarsskóla og 6. - 10. bekkjar í Barnaskólanum jafnar strax mun nemanda um aðstöðu og skapar gott rými í báðum skólum.


Möguleiki skapast til að byggja upp heilsdagsvistun annars vegar innan Hamarsskólans fyrir yngra stigið auk mötuneytis og hins vegar félagsaðstöðu og mötuneytis í Barnaskólanum fyrir mið- og unglingastigið.


Vegna staðsetningar Hamarsskóla er aðgengi mun betra fyrir yngri börnin að skóla-, heilsdagsvistun og Íþróttamiðstöð. Minni þörf verður á fylgd og akstursþjónustu.


Einnig gefur það möguleika á að þróa starfið skv. skóla- og æskulýðsstefnu Vestmannaeyjabæjar í þá átt að nemendur geti lokið skóla-, lista- og íþróttastarfi á sama tíma dagsins og foreldrarnir ljúka störfum.


Fyrir eldri nemendur er nálægðin við Framhaldsskólann kostur enda hefur samvinna við hann aukist og verður vonandi enn meiri í framtíðinni.


Aðrar útfærslur eins og þær sem hafa komið fram í tillögum sem borist hafa stýrihópnum skapa erfiðleika varðandi aðstöðu og rými fyrir nemendur.


Ákvörðun stýrihópsins er auðvelt að endurskoða þegar reynsla kemst á starfsemina.

Samþykkt var að fundargerðir stýrihópsins yrðu birtar á heimasíðu bæjarins.

 

Adda Sigurðardóttir
Elísa Kristmannsdóttir
Erna Jóhannesdóttir
Fanney Ásgeirsdóttir
Hjörtur Kristjánsson, varaformaður skólamálaráðs
Hulda Birgisdóttir
Jón Pétursson
Páll Einarsson
Páll Marvin Jónsson, formaður skólamálaráðs.

 

 

 

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159