22.02.2007

22. febrúar 2007 kl.

 

22. febrúar 2007 kl. 15.30

Fyrsti fundur stýrihóps vegna undirbúnings aldursskiptingar GV.

Mættir: Jón Pétursson, Fanney Ásgeirsdóttir, Elísa Kristmannsdóttir, Adda Sigurðardóttir, Hulda Birgisdóttir, Hafdís Snorradóttir, Páll Einarsson og Erna Jóhannesdóttir.

Ritari: Erna Jóhannesdóttir

Hlutverk stýrihópsins. Hutverk hópsins að gefa álit, leggja fram tillögur og ræða hugmyndir, en það er á ábyrgð skólastjórnenda að skipuleggja innra starf skólans. Rætt um að kalla til hópa eða einstaklinga ef þörf krefur til að fá álit og upplýsingar.

Forsendur stýrihópsins. Farið yfir forsendurnar sem stýrihópnum er ætlað að vinna eftir skv. samþykkt skólamálaráðs. Þær eru: enginn á að missa vinnu, þjónusta við nemendur verður aukin, reyna að framkvæma breytingar þannig að sem minnst röskun verði fyrir nemendur, ferlimál bætt, lífsleiknibraut, nemenda-, foreldra- og kennararáð og aðrir starfsmenn fái að fylgjast með og vera með í ráðum. Kynna jafnóðum ákvarðanir. Ekki hægt að bíða með ákvarðanatöku fram á vor. Það verður að taka ákvarðanir t.d. um skiptinguna og bekkjarstærðir nú þegar þannig að starfsfólk geti farið að máta sig við það sem er framundan.

 

Staðreyndir. Íbúaþróun. Íbúum fer fækkandi og þar af leiðandi nemendum, en það verður að vera möguleiki varðandi húsnæði ef og þegar aftur fer að fjölga.

 

Framkvæmdir: Jón greindi frá að framkvæmdir v/ lyfta hefjast strax í vor. Spurning hvort byrjað verður á einni lyftu eða hvort ráðist verði í byggingu beggja lyftanna strax. Annað ekki ákveðið að svo stöddu en rætt um mikilvægi þess að gera anddyrið í BV huggulegt, henda út skóhillum og gera salinn að félagsaðstöðu ásamt anddyrinu. Rætt um hvar hægt væri að koma fyrir eldunaraðstöðu í BV og H og hvernig fyrirkomulag getur orðið varðandi vinnuaðstöðu kennara, röðun bekkja í stofur og hvar mögulegt er að koma Skóladagheimilinu fyrir.

 

Skipingin og staðsetning: Skólastjórnendur hafa í samráði við fræðsluyfirvöld ákveðið að skipting aldurshópa verði þannig að 1. - 5. bekkir verði í Hamarsskóla og 6. - 10. bekkir verði í Barnaskólahúsnæðinu. Fagleg rök.
Skipting milli skólahúsa.

 

Stjórnendur líta svo á að eðlilegast sé að skipta nemendum þannig að 1.-5. bekkur verði í öðru húsinu og 6. - 10. í hinu. Ástæður þessa eru að ekki er hægt að skipta við upphaf unglingastigs vegna þess að hvorugt húsið rúmar 1.-7. bekkinn svo vel sé. Væri skipt eftir 6. bekk lítum við svo á að 7. bekkurinn yrði eiginlega hluti af unglingastiginu og það sjáum við ekki sem heppilega þróun. 6. og 7. bekkurinn mynda hins vegar skemmtilega heild með 120 - 140 nemendum sem geta þá haft sitt eigið félagslíf og verða ekkert meira með unglingunum en við núverandi aðstæður.

Möguleiki er að endurskoða þessa skiptingu t.d. eftir 5 ár. Þá gæti hafa fækkað það mikið í skólanum að unnt væri að hafa bæði yngsta- og miðstigið í öðru húsinu þætti það æskilegri kostur.

Vegna staðsetningar skólanna sýnist okkur heppilegast að hafa yngri nemendur í Hamarsskólanum m.a. vegna auðveldara aðgengis að íþróttamiðstöðinni og þá eldri í Barnaskólanum t.d. vegna nálægðarinnar við Framhaldsskólann sem við væntum aukinnar samvinnu við í framtíðinni.

· Eitt af því sem þarf að huga að í tengslum við þetta er bætt aðgengi að Hamarsskóla þegar verið er að keyra nemendur í skóla.


Stýrihópur er sammála þessum hugmyndum.


Skólahúsnæðið: Farið yfir byggingarnar og hvar mögulegt er að koma nemendum fyrir. Stofurnar í elsta skólanum í BV mjög litlar en að mörgu leyti heppilegar. Hamarsskóli auðveldari varðandi yngri nemendur. Öruggara húsnæði og öruggara umhverfi fyrir yngri börnin. Löng gönguleið fyrir nemendur sem eru á leið í skólann. Ekki verið inni í umræðunni að setja inn akstur en mikilvægt að skoða þörfina.

 

Lífsleiknibrautin - hugsuð fyrir nemendur sem eiga erfitt með að starfa í hefðbundnu skólastarfi. Má ekki virka sem refsing heldur fyrst og fremst valúrræði fyrir nemendur sem vilja frekar vera í verklegu námi.

 

Helstu áhyggjuefni: Gönguleiðir yngstu barnanna og akstursaðgengi að Hamarsskóla. Ath. ekki gangstétt upp Illugagötuna og því erfitt að nota göngubrautarljósi fyrir börn sem koma austanað. Foreldrar í Austurbænum kvíðnir fyrir að láta yngstu börnin ganga. Hugsanlega hægt að opna skólann fyrr og láta kennslu byrja aðeins seinna til að dreifa umferðarálagi (gefa kost á að foreldrar geti verið að koma með börnin á ólíkum tímum).

 

Þörf á breytingum vegna aldursskiptingar. Fanney kynnti ýmsar hugmyndir um nýtingu skólahúsnæðis BV og hvað stjórnendur sæju fyrir sér varðandi þörf á breytingum.
Bæta þarf aðgengi fatlaðra í Barnaskólanum. Til eru teikningar af lyftum og brýnt er að framkvæmdir við þær hefjist strax í vor. Að auki þarf talsvert af skábrautum o.fl. innanhúss.
Mötuneytisaðstaða nemenda:
Félagsaðstaða nemenda:
Vinnuaðstaða kennara:

 

Mikilvægt að fara í helstu lagfæringar og fá betri umgengni í skólanum. Reyna að hafa þrif í lagi. Fyrirséð að það verða meiri breytingar hjá starfsmönnum í BV - kennt lengur fram eftir degi hjá unglingunum og því þarf að vera með fleiri starfsmenn eftir hádegi til að þrífa þannig að nemendur og kennarar komi að hreinum stofum á morgnana. Spurt var hvort aldursskiptingin væri ekki möguleg nema að allar breytingar á húsnæði fari í gang? Svar: Verðum að horfa á heildina og hvert við viljum fara þó að ekki sé hægt að gera allt í einu.

 

Forgangsatriði: Skýra bekkjarskipan þannig að hægt sé að kynna það fyrir foreldrum og starfsmönnum sem fyrst til að hægt sé að fara í vinnu varðandi óskir kennara um kennslu. Aðgengismál fatlaðra forgangsverk og sterkt að koma mötuneytismálunum í lag.

Næsti fundur stýrihóps. Stýrihópur fari í vettvangsferð til að skoða húsnæðið á næsta fundi. Hittast í BV. mánudag 26. 2. kl. 15.

 

Fundi slitið kl. 17.00

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159