01.11.2006

Fundargerð173. fundur skólamálaráðs

 

Fundargerð

173. fundur skólamálaráðs Vestmannaeyja haldinn í fundarsal Íþróttahússins miðvikudaginn 1. nóvember 2006 kl. 16.15.

Mætt voru: Páll Marvin Jónsson formaður, Steinunn Jónatansdóttir, Díanna Þyri Einarsdóttir, Elsa Valgeirsdóttir og Jóhanna Kristín Reynisdóttir.

Auk þeirra sátu fundinn: Erna Jóhannesdóttir fræðslufulltrúi og kennsluráðgjafi og

Jón Pétursson framkvæmdastjóri.

Áheyrnarfulltrúar vegna leikskólanna: Alda Gunnarsdóttir, Helena Jónsdóttir, Júlía Ólafsdóttir, Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir og Margrét Brandsdóttir.

Áheyrnarfulltrúar vegna grunnskólanna: Fanney Ásgeirsdóttir og

Ingibjörg Finnbogadóttir

Áheyrnarfulltrúar vegna tónlistarskólans: Guðmundur H. Guðjónsson og

Steingrímur Ágúst Jónsson.

Fundargerð ritaði: Jóhanna Kristín Reynisdóttir

Málefni leikskóla

1. mál

Tillaga um flutning á núverandi starfsemi í húsnæði leikskólans Sóla og leikskólans Rauðagerði yfir í hið nýja leikskólahúsnæði sem verður tekið í notkun innan skamms.

Tillaga:

Skólamálaráð samþykkir að nú þegar verði hafist handa við að undirbúa flutning þeirrar starfsemi sem í dag er í húsnæði Sóla og Rauðagerðis yfir í hið nýja skólahúsnæði sem innan skamms verður tekið í notkun. Tillaga þessi er til þess fallin að bregðast við því að fyrirsjáanlegt er að næstu tveir árgangar barna á leikskólaaldri eru það fámennir að þessi nýja bygging kemur til með að duga til að hýsa þá starfsemi sem í dag er og eyða biðlistum.

Greinargerð

Öllum er ljóst að hið nýja leikskólahúsnæði sem nú er að rísa opnar möguleika til að stórefla þjónustu við börn á leikskólaaldri og foreldra þeirra. Þessa möguleika verður að nýta. Það verður best gert með samstilltu átaki bæjaryfirvalda, starfsfólks og foreldra.

Auknar kröfur til þjónustu sveitarfélaganna hvað leikskóla varðar kallar á að sveitarfélög séu ætíð á varðbergi hvað hagræðingu varðar til að geta veitt hámarks þjónustu fyrir það fé sem þau hafa úr að spila. Á seinasta kjörtímabili ákvað Vestmannaeyjabær að ráðast í byggingu stærri leikskóla en þörf er fyrir á næstu árum miðað við óbreyttan rekstur Rauðagerðis og Kirkjugerðis. Á Sóla eru nú 41 barn og Rauðagerði eru 58 börn. Nýr leikskóli rúmar 100 börn og út frá þeim forsendum verður að vinna. Þá liggur og fyrir að næstu tvö ár eru mun smærri árgangar væntanlegir en verið hefur. Verði ekkert að gert er ljóst að ráðast þarf í erfiðar rekstrarbreytingar þegar að því kemur.

Þá liggur einnig fyrir að þörf er fyrri nýtt húsnæði undir ýmsa þjónustu á vegum Vestmannaeyjabæjar. Húsnæði það sem í dag hýsir Rauðagerði hentar vel undir þessa þjónustu þótt slík ákvörðun verði ekki tekin með ofangreindri tillögu.

Forsendur breytinga þeirra sem boðaðar eru með tillögu 1 eru sem hér segir:

  1. Skóli er ekki hús heldur það starf sem þar er unnið. Það er von bæjaryfirvalda að undir þeim formerkjum takist að veita enn betri þjónustu en nú er.

  1. Enginn starfsmaður missir störf hjá Vestmannaeyjabæ vegna þessara breytinga. Komi til þess að stöðugildum fækki verður viðkomandi starfsmönnum boðin störf hjá Vestmannaeyjabæ í sama starfshlutfalli.

  1. Stefnt er að því að frá og með vori 2007 standi öllum börnum 18 mánaða og eldri til boða leikskólapláss.

  1. Reynt verður að framkvæma allar breytingar þannig að þær hafi sem minnsta röskun í för með sér fyrir börnin. Þegar börn flytja á milli húsa fylgir starfsfólk með og þannig unnið gegn öryggisleysi barnanna við flutninginn.

  1. Bæjaryfirvöld leggja ekki upp með ákveðna leikskólastefnu í nýjum leikskóla heldur verður fagfólk í samráði við foreldra ábyrgt fyrir mótun nýrrar leikskólastefnu.

  1. Helenu Jónsdóttur leikskólastjóra á Rauðagerði verður boðin staða leikskólastjóra og Júlíu Ólafsdóttir leikskólastjóra Sóla verður boðin staða aðstoðarleikskólastjóra í nýjum leikskóla. Hér ræður starfsaldur og menntun.

  1. Stöður annarra millistjórnenda verða auglýstar meðal starfsmanna, sbr. þó lið 2 hér að ofan.

Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum, tveir sitja hjá.

Fulltrúar V-lista óskað bókað:

Fulltrúar V-lista í skólamálaráði fagna hugarfarsbreytingu fulltrúa Sjálfstæðisflokks er varðar hagræðingu innan leikskólamála svo bæta megi þjónustu til handa börnum og foreldrum. Fulltrúar V-lista sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar þar sem þeim hefur ekki gefist tækifæri til að skoða forsendur tillögunnar.

sign Steinunn, Díanna

2. mál

Tillaga um skipan stýrihóps sem vinna skal að undirbúningi flutnings á starfsemi leikskólans Sóla og leikskólans Rauðagerði í nýtt húsnæði.

Tillaga:

Skólamálaráð samþykkir að skipa stýrihóp sem vinna skal að undirbúningi flutnings starfsemi Sóla og Rauðagerðis í nýtt húsnæði. Hann skal vinna út frá þeim forsendum sem fram koma í máli 1 í þessari fundargerð.

Starfshópinn skipa:

Guðrún Bjarnadóttir, leikskólafulltrúi Vestmannaeyjabæjar

Helena Jónsdóttir, leikskólastjóri Rauðagerðis

Júlía Ólafsdóttir, leikskólastjóri Sóla

Einn fulltrúi leikskólakennara

Einn fulltrúi foreldra

Rétt til fundarsetu með sama rétt og aðrir fulltrúar hefur einnig Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs, Elliði Vignisson bæjarstjóri og Páll Marvin Jónsson, formaður skólamálaráðs.

Stýrihópurinn skal skila áfangaskýrslu fyrir 30. nóvember 2006 og hafa lokið störfum eigi síðar en 29. desember 2006.

Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum, tveir fulltrúar sitja hjá.

3. mál

Skýrsla starfshóps sem skipaður var á 172. fundi og átti að fara yfir rekstur leikskólanna.

Tillaga:

Skólamálaráð samþykkir tillögur starfshóps sem falið var að fara yfir rekstur leikskólanna um endurskoðun á gjaldskrá sem hér segir:

Tillaga varðandi gjaldskrána

1. Leikskólarnir

a. Einfalda og breyta afsláttarkerfið

b. 30% afsláttur fyrir einstæða foreldra

c. 30% afsláttur fyrir foreldra sem eru bæði í námi sem ekki er lánshæft.

d. 50% systkinaafsláttur fyrir 2. og 3. barn

e. 65% systkinaafsláttur fyrir einstæða foreldra

f. 100% systkinaafsláttur fyrir 4.barn

g. Allir borga sama fæðisgjald

h. Afsláttur reiknast af grunngjaldi

i. Grunngjald miðast við 8 klst. vistun

j. Grunngjald lækkar um 40 kr.

2. Dagmæðurnar

a. Að allir foreldrar fái niðurgreiðslu, burtséð frá stöðu í samræmi við

reglur á afsláttum í leikskólum (einstæðir foreldrar, systkinaasláttur og

nemar).

b. Foreldrar í sambúð fái niðurgreiðslu miðað við 18 mánaða aldur

c. Systkinaafsláttur verði tengdur við leikskólana

d. Daggæslugjald verður aldrei lægra en leikskólagjald.

Breytingar á reglum gjaldskrár leikskóla taka gildi frá og með 1. janúar 2007 en breytingar vegna dagmæðra 1. nóvember 2006.

Tillaga starfshóps er tekin inn með afbrigðum varðandi breytingar nýrrar gjaldskrár.

Samþykkt með 4 atkvæðum, einn situr hjá.

Tillagan er samþykkt með 4 atkvæðum, einn situr hjá.

Skólamálaráð þakkar gott starf starfshópsins.

Málefni tónlistarskóla

4. mál

Fyrir lá bréf frá Eggerti Björgvinssyni dags. 22. 10. 2006. Efni: Afgreiðsla skólamálaráðs þann 11. október 2005 á máli er varðar sendanda bréfsins.

Skólamálaráð þakkar erindið og ítrekar að umrætt minnisblað endurspeglar ekki skoðanir skólamálaráðs og harmar ef upp hefur komið misskilningur vegna máls sem virðist innanhússmál Tónlistarskólans.

Málefni grunnskólans

5. mál

Fyrir liggur bréf frá Fanneyju Ásgeirsdóttur, skólastjóra Grunnskóla Vestmannaeyja dags. 10. okt. 2006 þar sem hún óskar eftir heimild fyrir Sigurlás Þorleifsson aðstoðarskólastjóra í Hamarsskóla til að kenna tvær kennslustundir á viku skólaárið 2006-2007.

Skólamálaráð samþykkir beiðnina fyrir sitt leyti og felur fræðslufulltrúa að senda beiðnina áfram til Samstarfsnefndar sveitarfélaga til að fá umrædda heimild.

Önnur mál

6. mál

Fyrir liggja umsóknir námsmanna, sem búsettir eru í Vestmannaeyjum um ferðastyrk til fjarnámsnema.

Skólamálaráð samþykkir þær umsóknir sem uppfylla skilyrði varðandi úthlutun ferðastyrkja.

Þar sem átaksverkefni um námsstyrki til starfsmanna Vestmannaeyjabæjar er lokið setur skólamálaráð fram eftirfarandi tillögu: “Skólamálaráð lítur svo á að ferðastyrkir til fjarnámsnema í Vestmannaeyjum hafi verið hluti af átaksverkefni sem sett var af stað fyrir fjórum árum. Þar sem verkefninu er lokið þá sé rétt að hætta að veita ferðastyrki til fjarnámsnema. Jafnframt ítrekar skólamálaráð tillögu sína frá 172. fundi (11. mál) um endurskoðun á fag-, sí- og endurmenntun starfsmanna bæjarfélagsins. “

7. mál

Trúnaðarmál

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 18:00

Páll Marvin Jónsson (sign)

Jóhanna Kristín Reynisdóttir ( sign)

Elsa Valgeirsdóttir (sign)

Díanna Þyri Einarsdóttir (sign)

Steinunn Jónatansdóttir (sign)

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159