16.08.2006

Fundur fjölskylduráðs miðvikudaginn 16.

 

Fundur fjölskylduráðs miðvikudaginn 16. ágúst 2006 kl. 17.00

 

 

 

Mætt voru: G.Ásta Halldórsdóttir, Guðrún Erlingsdóttir, Jarl Sigurgeirsson, Sigurhanna Friðþórsdóttir, Hafdís Sigurðardóttir og Hera Ósk Einarsdóttir.

 

 

 

1 – 3. mál Trúnaðarmál

 

 

 

4. mál Í framhaldi af 13 máli fundargerðar fjölskylduráðs frá 3. maí sl. og 16. máli fundargerðar frá 19. júlí sl. varðandi ræstingar á Hraunbúðum leggur framkvæmdastjóri til í ljósi fyrirliggjandi gagna að stöðugildi í ræstingum á Hraunbúðum verði hækkað úr 1,8 stg. í 2 stöðugildi. Jafnframt leggur framkvæmdastjóri til að hjúkrunarforstjóra verði falið að endurskipuleggja vinnutíma og verkefni í ræstingum til samræmis við ofangreinda tillögu.

 

Fjölskylduráð samþykkir tillöguna og vísar erindinu til bæjarráðs.

 

5. mál Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir starfsmannahaldi á vernduðum vinnustað Vestmannaeyjum.

 

6. mál Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir samantekt í skýrslu til Hagstofu Íslands vegna félagsþjónustu sveitarfélaga 2005.

 

Dagmæður.

 

Árið 2005 voru 2 dagmæður starfandi, fjöldi barna hjá þeim í desember 2005 voru 12(18 árið 2004), þar af 8(5 árið 2004) sem sveitarfélagið greiddi niður fyrir. Börnin voru flest á 2 aldursári í 4-7 klst. vistun. Börnum í gæslu hjá dagmæðrum fækkaði milli ára.

 

Félagsleg heimaþjónusta.

 

Árið 2005 voru 12 starfsmenn starfandi í heimilishjálp í 7 stöðugildum. 97 heimili fengu aðstoð á árinu, þar af 67 heimili aldraðra, 28 heimili öryrkja og tvö önnur heimili. Árið 2004 fengu 93 heimili aðstoð og voru stöðugildin í heimilishjálp það ár 7,65.

 

53 heimili fengu heimsendan mat á árinu og er þar um að ræða yfir 100% aukningu milli ára.

 

Félagsleg liðveisla

 

1. desember 2005 voru 22 starfsmenn í samtals 2,33 stöðugildum í félagslegri liðveislu til fatlaðra. Fjölgaði um 7 starfsmenn og 0,6 stöðugildi frá því árinu á undan, en fækkun var á milli áranna 2003-2004. 22 einstaklingar fengu liðveislu(17 árið á undan) í alls um 3.326 klst eða að meðaltali um 151 tíma hver einstaklingur. Á biðlista eftir þjónustu í árslok voru 5 einstaklingar, 2 fleiri en árið 2004.

 

 

 

Fjárhagsaðstoð

 

Á árinu 2005 fengu 59 einstaklingar/fjölskyldur fjárhagsaðstoð. Er hér um að ræða áframhaldandi fækkun aðstoðarþega milli ára(60 árið 2004) og hafa heimili sem njóta fjárhagsaðstoðar ekki verið færri frá því árið 2000. Heildarupphæð fjárhagsaðstoðar var kr: 7.088.318,- og lækkaði lítillega milli ára. Heildarupphæð fjárhagsaðstoðar hefur því lækkað um tæp 29% sl. 2 ár. Meðalupphæð fjárhagsaðstoðar á hvert heimili sem naut aðstoðar var árið 2005 kr: 120.141,- og lækkaði lítillega milli ára(123.850,- árið 2004) Meðalaldur þeirra sem nutu aðstoðar á árinu hækkar frá því árið 2004.

 

7. mál Bréf frá Barnaverndarstofu dags. 27. júlí 2006 varðandi skemmtanir um verslunarmannahelgina. Í bréfinu kemur fram að félagsmálaráðherra hefur verið falið af hálfu ríkisstjórnarinnar að leiða samstarf þeirra aðila sem starfa að forvörnum á Íslandi og móta heildstæða forvarnarstefnu. Barnaverndarstofa mun stýra verkefninu og leita eftir samstarfi við opinbera aðila og einkaaðila sem vinna forvarnarstarf. Liður í þessu verkefni og fyrsta skref er að beina sjónum að þeim fjömörgu skemmtunum sem haldnar eru um land allt um verslunarmannahelgina og vill Barnaverndarstofa af því tilefni hvertja barnaverndarnefndir landsins til að huga vel að því hvernig nefndirnar geti best gegnt hlutverki sínu í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga um verslunarmannahelgina. Telur Barnaverndarstofa æskilegt að barnaverndarnefndir komi að undirbúningi skipulagðra skemmtana fyrst og fremst til að minna á tilkynningarskylduna og til að taka þátt í með öðrum að skipuleggja verkferla sem nýtast ef upp koma mál um t.d. ofbeldi gegn börnum eða önnur áföll. Þá er mikilvægt að barnaverndarnefnd tryggi að starfsmenn séu til staðar til að taka við tilkynningum og annast þau mál sem upp kunna að koma segir í bréfi Barnaverndarstofu.

 

Barnaverndarnefnd Vestmannaeyja hefur til margra ára komið að undirbúningi og vinnu við skipulag verkferla vegna barnaverndar og sálrænnar skyndihjálpar á þjóðhátíðir Vestamannaeyja með mótshöldurum og hefur góða reynslu af slíku fyrirkomulagi. Þá hefur barnaverndarnefnd einnig tryggt aðgang að starfsmönnum til að taka á móti tilkynningum og annast þau barnaverndarmál sem upp kunna að koma á þjóðhátíð.

 

8. mál Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir fyrirkomulagi barnavernda á þjóðhátíð 2006. Bakvaktir í barnaverndinni voru frá hádegi á föstudegi 4. ágúst til hádegis á mánudegi 7 ágúst. Þrír starfsmenn sinntu vöktunum og sátu jafnframt samráðsfundi gæsluaðila á lögreglustöð að hádegi alla þjóðhátíðardagana. 2 mál bárust bakvaktinni í barnaverndinni og verður fylgt eftir af starfsmönnum félags-og fjölskyldusviðs.

 

9. mál Lögð fram útskrift úr fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja frá 24. júlí sl. 12. mál Erindið er umsókn um styrk frá karlahópi Femínistafélags Íslands vegna átaksins “Karlmenn segja NEI við nauðgunum” en þetta er í fimmta sinn sem hópurinn stendur fyrir slíku átaki. Markmiðið er að vekja karlmenn til umhugsunar um eðli nauðgana og fá þá til að velta fyrir sér hverig þeir geti komið í veg fyrir nauðganir. Verður þetta gert með því að fulltrúar hópsins verða til staðar á einni af stærri útihátíðum verslunarmannahelgarinnar og ræða þar við karlmenn um eðli og alvarleika nauðgana, sem og með því að dreifa bolum, barmmerkjum, bæklingum og svifdiskum á Umferðarmiðstöðinni, flugstöð Reykjavíkur og í Þorlákshöfn þar sem Herjólfur leggur úr landi.

 

Fjölskylduráð telur að hér sé um að ræða áhugavert og þarft framtak en getur því miður ekki orðið við erindinu, þar sem styrkveiting til þess rúmast ekki innan fjárhagsáætlunar árið 2006.

 

10.mál Lögð fram útskrift úr fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja frá 24.júlí sl. 6. mál Erindið er beiðni um upplýsingar um málefni innflytjenda hjá einstökum sveitarfélögum í framhaldi af vinnu félagsmálaráðuneytisins að stefnu ráðuneytisins í málefnum innflytjenda. Félagsmálaráðherra hefur skipað innflytjendaráð sem m.a. er ætlað að vera stjórnvöldum til ráðgjafar við mótun þeirra stefnu. Verið er að leita upplýsinga um stefnu sveitarstjórna í málefnum innflytjenda, kynningu á þjónustu sveitarfélagsins, hvort fólki standi til boða að sækja námskeið á íslensku, hvort um sé að ræða samstarf við innflytjendur eða samtök þeirra um málefni fólks af erlendum uppruna og hvort sérstakt samstarf sé við aðila vinnumarkaðarins um málefni innflytjenda.

 

Fjölskylduráð felur framkvæmdastjóra að afla umbeðinna upplýsinga og svara bréfritara

 

11. mál Lögð fram stefna Vestmannaeyja í forvörnum en bæklingnum verður dreift til íbúa sveitarfélagsins og lykilaðila í forvörnum á næstu dögum.

 

Fleira ekki bókað, fundi slitið kl. 19.30

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159