03.05.2006

Fundur fjölskylduráðs miðvikudaginn

 

Fundur fjölskylduráðs miðvikudaginn 3. maí 2006 kl. 17.00

Mætt voru: Guðrún Erlingsdóttir, G. Ásta Halldórsdóttir, Ágústa Kjartansdóttir, Helga B. Ólafsdóttir, Kristín Valtýsdóttir, Sólrún E. Gunnarsdóttir félagsráðgjafi, Jón Pétursson sálfræðingur og Hera Ósk Einarsdóttir framkvæmdastjóri.

1. – 6. mál
Trúnaðarmál

7. mál
Sískráning barnaverndarmála í apríl.

Lagt fram mánaðarlegt yfirlit til Barnaverndarstofu vegna barnaverndartilkynninga í aprílmánuði. Félags-og fjölskyldusviði bárust alls 6 tilkynningar vegna 10 barna. 3 tilkynningar bárust vegna vanrækslu gagnvart börnum og 3 vegna áhættuhegðunar barna

8. – 9. mál .
Barnavernd

10. mál
Fyrir liggur erindi frá ÓB ráðgjöf vegna hugmyndafræði dr. Jean I. Clarke í uppeldismálum en ÓB ráðgjöf hefur haft veg og vanda að leiðbeinandanámskeiðunum “að alast upp aftur “ og “Hvað mikið er nóg?” sem byggt er á hennar hugmyndafræði. Leitað er eftir því að sveitarfélög styrki verkefni með einhverjum hætti, t.d. með styrki til útgáfu leiðbeinandahandbókarinnnar Hvað mikið er nóg? Eða með því að kaupa ákveðinn fjölda miða á námskeið Jean I. Clarke í September nk.

Lagt er til við fjölskylduráð að útgáfa á handbókninni verði styrkt um kr: 30.000,- . Fjölskylduráð samþykkir

11. mál
Jón Pétursson kynnti drög að stefnu Vestmannaeyja í forvörnum.

Undanfarin ár hafa sífellt fleiri sveitarfélög sett fram stefnu í forvörnum sem öllum er sýnileg. Vestmannaeyjabær hefur unnið um nokkurn tíma með áherslur að draga úr neyslu barna og ungmenna á tóbaki, áfengi og öðrum vímuefnum. Að auki hafa bæst við áherslur í sambandi við hreyfingu, matarræði og almenna líðan barna. Mikil og góð samvinna hefur verið á milli þeirra aðila sem koma að forvörnum, jafnt innan sem utan bæjarkerfisins en sameiginleg og sýnileg stefna ekki verið til.

Við lestur á fjölmörgum forvarnastefnum hinna ýmsu sveitarfélaga kemur í ljós að þær byggja mjög á sömu hugmyndum og þegar eru í gangi hjá forvarnaaðilum í Eyjum. Þeir hinir sömu hafa aftur á móti látið hjá líða að festa þær á blað eða setja fram í heildrænni stefnu.

Félags- og fjölskyldusvið tók að sér að vinna stefnu Vestmannaeyja í forvörnum. Byggir hún að hluta til hugmyndum og hugmyndagrunni annarra forvarnastefna í landinu og þá aðallega stefnu Reykjavíkurborgar. Stefnan tekur einnig mið af þeirri vinnu sem unnin hefur verið í forvörnum síðastliðin tíu ár, þeirri vinnu sem Vertu til verkefnið lagði til í árslok 2005 og ekki síst af nýlegri stefnu Vestmannaeyjabæjar í skóla og æskulýðsmálum sem unnin var af fræðslu- og menningarsviði bæjarins.

Með þessu er mótuð forvarnastefna sem öllum er sýnileg, skýr, framkvæmdanleg og byggir á víðtæku samstarfi allra lykilaðila í uppeldi barna og ungmenna. Vonandi verður hún með því grundvöllur að velgengni í því forvarnastarfi sem unnið er í Vestmannaeyjum

Fjölskylduráð þakkar Jóni Péturssyni og samstarfsaðilum í forvörnum þá vinnu sem unnin hefur verið og fram kemur í ofangreindum drögum. Fjölskylduráð samþykkir drögin sem stefnu í forvörnum fyrir Vestmannaeyjar og tilnefnir jafnframt Jón Pétursson sálfræðing sem formann stýrihóps. Jafnframt óskar fjölskylduráð eftir samstarfi og tilnefningu í styrihóp um forvarnir frá skólamálaráði, menningar-og tómstundaráði, heilsugæslustöð Vestmannaeyja og Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum.

12. mál
Lagt fram bréf frá Heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytinu þar sem fram kemur að ráðherra hefur ákveðið að heimila breytingu á 3 dvalarrýmum í 3 hjúkrunarrými á Hraunbúðum frá 1. apríl sl. Frá þeim tíma hefur Hraunbúðir, hjúkrunar- og dvalarheimili aldraðra í Vestmannaeyjum heimild fyrir 30 hjúkrunarrýmum, 14 dvalarrýmum og 10 dagvistarrýmum.

13. mál
Í framhaldi af 17 máli í fundargerð fjölskylduráðs varðandi ræstingar á Hraunbúðum er lagt fram bréf frá Starfsmannafélagi Vestmannaeyja og Drífanda stéttarfélagi þar sem óskað er eftir því að fjölskylduráð falli frá fyrirhuguðum breytingum í ræstingum á Hraunbúðum.

Fjölskylduráð telur eðlilegt að nýtt fyrirkomulag ræstingar verði prófað en samhliða verði látið meta, þ.e. mæla upp ræstingu og þrif á Hraunbúðum til að fá mat á umfang ræstingar. Þegar niðurstaða uppmælingar liggur fyrir og reynsla af nýju fyrirkomulagi við ræstingar hefur fengist mun fjölskylduráð í ljósi þeirra gagna sem þá liggja fyrir endurskoða fyrirkomulag ræstingar.

14 . mál
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir stöðu þeirra skipulagsbreytinga á Hraunbúðum sem ákveðnar voru í bæjarstjórn 22 september sl. Breytingarnar hafa flestar tekið gildi að hluta eða öllu leiti, nema niðurlagning rekstrarstjórastöðu á Hraunbúðum sem taka á gildi um næstu áramót. Fjölskylduráð vill þakka starfsfólki Hraunbúða fyrir samstarf þeirra við innleiðingu breytinga á Hraunbúðum.

15. mál
Félagsmálaráðuneytið hefur boðað til fundar 10. maí nk. vegna málefna fatlaðra. Fundinn sækja framkvæmdastjóri og deildarstjóri málefna fatlaðra.

16. mál
Lagt fram bréf frá Náttúrustofu Suðurlands dags. 21. apríl 2006, þar sem óskað er eftir húsnæði fyrir sumarstarfsmenn. Um er að ræða 3 starfsmenn á tímabilinu 10. maí – 15. september.

Fjölskylduráð samþykkir að úthluta til leigu Áshamri 59 3c til Náttúrurstofu Suðurlands tímabilið 10. maí – 15. september með fyrirvara um uppsögn ef íbúðin selst.

17. mál
Lögð fram útskrift úr fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja frá 3. apríl 2006

7. mál, varðandi tillögur að forgangsröðun og eftirfylgni í þeim málum sem fram komu á íbúaþingi sem haldið var í febrúar sl. Í gögnunum kemur m.a. eftirfarandi fram:

Málaflokkur: Samfélagsvitund

Tillaga: 14. Beina samféalgsvitund í jákvæða farvegi, t.d. með því að örva bæjarbúa til verka sem hafa jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi. Gagnlegt væri að bú til skilgreindan farveg, einn eða fleiri, fyrir slík verkefni. Æskilegt era að finna leiðir til að mæla árangur á þessu sviði og sýna þannig fram á framfarir.

Markmið/stutt lýsing/tillaga til útfærslu . Tillaga að útfærslu: Fundir, námskeið og umræður í samfélagingu.

Rök : Bætt samfélagsvitund leiðir til betra samféalgs

Ábyrgð á framkvæmd : Félags – og fjölskyldusvið Vestmannaeyja

Aðrir þátttakendur : Sóknarprestar, menningar – og líknarfélög, íþróttafélög, fjölmiðlar í Eyjum, Viska, fræðslu – og menningarsvið

Tímaáætlun :

18. mál
1. sjálfshjálparhópur fyrir þolendur kynferðisofbeldis fór af stað eftir undirbúning og fræðslufund með starfsmönnum Stígamóta í mars sl. Í sjálfshjáparhópum er farið í umfjöllun um barnið, unglinginn, upprunafjölskylduna, vanlíðan s.s. setkarkennd, reiði, ótta og þunglyndi og hvernig áhrif ofbeldið hefur á sambönd við aðra, ekki síst maka og börn.

19. mál
Fundir, þing og ráðstefnur.

Ráðstefna á vegum Blátt áfram 4. maí um þolendur, gerendur og afleiðingar kynferðisofbeldis verður sótt af Guðrúnu Jónsdóttur félagsráðgjafa og leiðbeinanda í sjálfshjálparhóp fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Aðalfundur Hlutverks – samtök um vinnu og verkþjálfun fatlaðra 4. – 5. maí verður sótt af Heru Ósk Einarsdóttur framkvæmdastjóra.

Vorfundur félags stjórnenda í öldrunarþjónustu 9. – 11. maí verður sótt af Magnúsi Jónassyni rekstrarstjóra Hraunbúða.

Vornámskeið Greiningar – og ráðgjafastöðvar ríkisins 11. – 12. maí verður sótt af Hönnur R. Björnsdóttur deildarstjóra málefna fatlaðra og Jóni Péturssyni sálfræðingi.

Landsfundur Vertu til 12. maí verður sóttur af Jóni Péturssyni sálfræðingi.

Vorfundur samtaka félagsmálastjóra á Íslandi 18. – 19. maí verður sóttur af framkvæmdastjóra félags – og fjölskyldusviðs.

20. mál
Framkvæmdastjóri félags – og fjölskyldusviðs segir upp starfi sínu frá og með næstu mánaðarmótum með lögbundnum 3ja mánaða fyrirvara og lætur því af störfum 31. ágúst nk.

Fjölskylduráð Vestmannaeyja þakkar Heru Ósk Einarsdóttur framkvæmdarstjóra félags- og fjölskyldusvið frábær störf og óskar henni velfarnaðar í nýjum vettvangi.

21. mál
Formaður fjölskylduráðs þakkar starfsmönnum félags-og fjölskyldusviðs og fulltrúum í fjölskylduráði fyrir gott samstarf og störf á þessu kjörtímabili.

FLEIRA EKKI GERT KL. 19.30.

Guðrún Erlingsdóttir
G. Ásta Halldórsdóttir
Ágústa Kjartansdóttir
Helga B. Ólafsdóttir
Kristín Valtýsdóttir
Sólrún E. Gunnarsdóttir
Jón Pétursson
Hera Ósk Einarsdóttir

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159