04.04.2006

Fundur fjölskylduráðs Vestmannaeyja

 

Fundur fjölskylduráðs Vestmannaeyja miðvikudaginn 4. apríl 2006 kl. 16.00.

Mætt voru: Guðrún Erlingsdóttir, G. Ásta Halldórsdóttir, Helga Bj. Ólafsdóttir, Ágústa Kjartansdóttir, Sigurhanna Friðþórsdóttir, Guðrún Jónsdóttir félagsráðgjafi, Sólrún Erla Gunnarsdóttir félagsráðgjafi, Hanna R. Björnsdóttir deildarstjóri málefna fatlaðra og Jón Pétursson sálfræðingur.

1. –8. mál Trúnaðarmál

9. mál Sískráning barnaverndarmála

Fyrir lá mánaðarlegt yfirlit til Barnaverndarstofu vegna barnaverndartilkynninga í marsmánuði. Félags- og fjölskyldusviði bárust alls 12 tilkynningar vegna 13 barna. 3 tilkynningar bárust vegna vanrækslu barns, og 9 vegna áhættuhegðunar barns.

Þá lá fyrir samanburður á milli ára fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins og eru tilkynningar ívið færri en á sama tíma í fyrra (29 nú, 32 í fyrra). Hins vegar hefur vanrækslumálum fjölgað (14 tilkynningar á móti 5 í fyrra) en málum sem tengjast áhættuhegðun barna fækkað (13 tilkynningar á móti 23 í fyrra).

10. - 14. mál Barnavernd

15. mál Málefni fatlaðra

Fjallað var um aukna þjónustuþörf í þjónustuíbúðum fatlaðra að Vestmannabraut 58b og endurnýjun þjónustusamnings við ríkið.

Fjölskylduráð lýsir yfir áhyggjum á því álagi sem verið hefur á starfsfólki þjónustuíbúða vegna aukinna þjónustuþarfa íbúa og veikinda.

Mat á þjónustuþörf sýnir að bæta þurfi við einu stöðugildi til að hægt sé að veita tilhlíðandi þjónustu. Vinnuálag starfsmanna er mikið og óvíst hversu lengi starfsmenn geta unnið undir þessum kringumstæðum.

Beiðni til ráðuneytis um fjármagn til þessa verkefnis var send 10. mars s.l. Skriflegt svar hefur ekki borist, en tölvupóstur dags. 4. apríl segir “ fjárþörf til frekari þjónustu verður tekin til umræðu í tengslum við fjárlagagerð vegna ársins 2007”.

Félagsmálaráðuneytið hefur óskað eftir að hefja viðræður við Vestmannaeyjabæ um endurnýjun þjónustusamnings sem rennur út í lok ársins.

Fjölskylduráð leggur áherslu á að beiðni Vestmannaeyjabæjar um aukningu stöðugildis á sambýlinu verði svarað sem fyrst.

Fjölskylduráð telur að viðræður geti ekki hafist um endurnýjun samnings fyrr en ráðuneytið hefur svarað rökstuddri beiðni Vestmannaeyjabæjar um endurskoðun samnings frá apríl og nóvember 2005 vegna launabóta og veikinda.

17. mál Málefni aldraðra

Fyrir lá bréf frá starfsfólki í ræstingu á Hraunbúðum. Fjölskylduráð hefur mótttekið erindið en frestar afgreiðslu þar til umbeðnar upplýsingar liggja fyrir.

Fyrir lá útskrift úr fundargerð bæjarráðs frá 20. mars sl. vegna útboðs á framkvæmdum við Eyjahraun 1.

18. mál Starfsmenn Stígamóta voru sl. fimmtudag með námskeið og fræðslu fyrir samstarfshóp Félags- og fjölskyldusviðs, Landakirkju og Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja. Ennfremur fyrir fagfólk og starfsfólk ýmissa stofnana bæjarins og ríkisins og opinn fund með almenningi. Fræðsla þessi var vel sótt og almenn ánægja með þessa heimsókn Stígamóta. Í kjölfarið hefur verið ákveðið að bjóða uppá sjálfshjálparhóp/hópa fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis.

Fyrsti sjálfshjálparhópurinn mun hittast 18. apríl 2006 kl. 19.30 í safnaðarheimili Landakirkju. Leiðbeinendur eru Guðrún Jónsdóttir félagsráðgjafi og Guðný Bogadóttir hjúkrunarfræðingur. Hóparnir munu síðan hittast vikulega í 7 vikur og skuldbinda þátttakendur sig til skyldumætingar á fundina.

Hægt er að skrá þáttttöku með því að;

· hafa samband við Guðrúnu Jónsdóttur félagsráðgjafa hjá félags -og fjölskyldusviði í gegnum þjónustuver Ráðhússins í síma 488-2000

· Senda tölvupóst til leiðbeinandanna á netföngin gudrun@vestmannaeyjar.is eða gbhiv@eyjar.is

· Eða hringja í síma 844-0625

Skráningu í fyrsta hóp lýkur mánudaginn 10. apríl n.k.

19. mál Jón Pétursson sálfræðingur gerði grein fyrir vinnu að forvarnaráætlun og stefnu í forvarnarmálum.

20. mál Jón Pétursson sálfræðingur gerði grein fyrir umsókn um forvarnarstyrk frá Saman-hópnum. Lagt er til að Fjölskylduráð styðji Saman-hópinn um kr. 45.000 framlag sem tekið verði af forvarnarlið 02-162.

21. mál Fyrir lágu kynningar og boð á eftirfarandi fundi og ráðstefnur

Árangursstjórnun í heilbrigðis- og félagsþjónustu – Glax viðskiptaráðgjöf , Húnaþingi vestra 7. apríl.

Málþingið Frá vöggu til grafar – Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa, Akureyri 5. maí

Vinnumálstofa Nopus – Hur möta mangfalden – god praxis I integrationsarbetet – Finnlandi, 9. – 10. maí.

Landsfundur Vertu til! – Garðabæ 12. maí.

Ennfremur lá fyrir bæklingur frá landsskrifstofu Staðardagskrár 21 á Íslandi um jafnrétti og sjálfbæra þróun.

FLEIRA EKKI GERT. FUNDI SLITIÐ KL. 18.30

Guðrún Erlingsdóttir

G. Ásta Halldórsdóttir

Helga Bj. Ólafsdóttir

Ágústa Kjartansdóttir

Sigurhanna Friðþórsdóttir

Guðrún Jónsdóttir

Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Hanna R. Björnsdóttir

Jón Pétursson

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159