13.12.2005

7. fundur verkefnisstjórnar um

 

7. fundur verkefnisstjórnar um skóla- og æskulýðsstefnu var haldinn í fundarsal Íþróttamiðstöðvar, þriðjudaginn 13. desember 2005 kl. 16.

Mætt voru: Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri, Trausti Þorsteinsson verkefnisstjóri, Björn Elíasson, Elsa Valgeirsdóttir, Helga Björk Ólafsdóttir, Jóhann Guðmundsson , Magnús Matthíasson, Ólafur Lárusson, Páll Scheving, Ragnar Óskarsson og Sigríður Diljá Magnúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn: Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs og Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi og kennsluráðgjafi.

Fram kom að Elliði Vignisson hefur beðist undan störfum í verkefnisstjórn vegna anna. Í hans stað kemur Helga Björk Ólafsdóttir.

Stjórnandi fundar: Bergur Elías Ágústsson.

1. mál.
Drög að stefnumótun (skjal sem sent var til verkefnisstjórnar fyrir fund). Farið yfir breytingar sem komu fram í umræðum um stefnuna á síðasta fundi, lið fyrir lið. Rætt um orðalag, innihald og samræmi í textanum. Umræður um hvernig hægt verði að raungera stefnuna þegar hún er fullmótuð. Niðurstaðan að í áherslukafla verði áætlun um framkvæmd. Bæjarfélagið geri sér áætlun um hvernig stefnan raungerist sem og um eftirlit. Hver stofnun geri sér síðan áætlun eða námsskrá sem taki mið af stefnunni. Fjallað var um mikilvægi þess að nefndarmenn verkefnisstjórnar fari vel yfir plaggið og velti fyrir sér innihaldi stefnunnar til að geta rökstutt það sem þar er. Ákveðið að plaggið verði prófarkalesið af starfsmönnum HA auk þess sem rýnihópur á þeirra vegum skoði það og setji fram spurningar og ábendingar um innihaldið. Athugasemdir rýnihópsins verða sendar til Verkefnisstjórnar til umsagnar áður en endanlega verður gengið frá stefnunni til kynningar. Fundarmenn sammála um að halda opinn fund eftir miðjan janúar þar sem drögin verða kynnt fyrir bæjarbúum.

2. mál.
Greinargerð til bæjarstjórnar um stöðu verkefnisins. Farið yfir greinargerðina og henni breytt í samræmi við athugasemdir nefndarmanna. Ákveðið að hafa kynningarfund á drögum að stefnunni um miðjan janúar. Rætt um hvernig eigi að standa að kynningarfundi og hvernig megi koma drögunum á framfæri þannig að fólk geti farið yfir þau áður en að fundinum kemur. Samþykkt að drög að stefnunni verði sett á vef Vestmannaeyjabæjar, sent inn í stofnanir auk þess sem kynning fari fram í bæjarblöðunum þannig að almenningur sem ekki hefur aðgang að gögnunum á annan hátt geti nálgast þau hjá fræðslu- og menningarsviði.

3. mál.
Samþykkt bæjarstjórnar frá 17. nóv. s.l.

Bergur Ágústsson kynnti samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 17. nóvember s.l. þar sem verkefnisstjórn var falið að koma með tillögur eða mótaða afstöðu um fyrirhugað skólaskipulag grunn- og leikskólanna þannig að markmiðum stefnunnar verði sem best náð. Bergur fór yfir samantekt matsskýrslunnar frá maí 2005, hvað hefði náðst og hvað ætti eftir að fjalla um. Umræður um hið nýja verkefni verkefnisstjórnar, hvort nefndarmenn vilja taka þátt í verkefninu og hverjar áherslurnar í þeirri vinnu verða. Rætt um hvernig verkefnisstjórn getur nálgast verkefnið með því að taka saman möguleikana sem eru í stöðunni og lista út. Síðan verði tekið mið af faglegum, félagslegum og fjárhagslegum þáttum og kostir og gallar skoðaðir. Áhersla lögð á að verkefnisstjórn sé fyrst og fremst faghópur sem mun skoða málin frá öllum hliðum og koma síðan með tillögur í framhaldi af því. Endanleg ákvörðunartaka verði bæjarstjórnar.

Fram kom fyrirspurn um hvort þessi vinna verði unnin undir stjórn HA (og Trausta). Ekki búið að taka ákvörðun en verið að ræða málin.

Fram kom að meðlimir verkefnisstjórnar hafa hugsað sér að leita eftir umboði hjá hópum sínum til áframhaldandi vinnu í verkefnisstjórn.

Fræðslu- og menningarsviði falið að draga saman gögn fyrir næsta fund sem áætlað er að verði fimmtudaginn 29. desember 2005 kl. 12 í Íþróttamiðstöð.


Fundi slitið klukkan 18:30

Fundargerð ritaði: Erna Jóhannesdóttir

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159