10.11.2005

Verkefnisstjórn skóla- og æskulýðsstefnu

 

Verkefnisstjórn

skóla- og æskulýðsstefnu fyrir Vestmannaeyjar

4. fundur verkefnisstjórnar um skóla- og æskulýðsstefnu var haldinn í fundarsal Íþróttamiðstöðvarinnar fimmtudaginn 10. nóv. 2005 kl. 20.

Mætt voru: Trausti Þorsteinsson verkefnisstjóri, Elliði Vignisson, Elsa Valgeirsdóttir, Jóhann Guðmundsson, Ólafur Lárusson, Páll Scheving og Ragnar Óskarsson. Auk þeirra sátu fundinn: Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs og Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi og kennsluráðgjafi.

Stjórnandi fundar: Trausti Þorsteinsson

1. mál.

Trausti gerði grein fyrir stefnumótunarfundunum sem fram fóru 10. nóv. Átta fundir voru haldnir með starfsmönnum skólanna, Íþróttamiðstöðvar og félagsmiðstöðvar, nemendum, foreldrum, fulltrúum íþrótta- og æskulýðssamtaka og einstaklingum frá stjórnkerfi bæjarfélagsins. Hóparnir unnu vel og frá þeim kom mikið efni til að vinna úr. Starfsmenn skólaþróunarsviðs HA munu vinna úr gögnunum og senda til verkefnisstjórnar til frekari umfjöllunar, samræmingar og úrvinnslu.

2. mál.

Rætt um framhald vinnunnar, sem verður að fjalla um hlutverk, markmið og áherslur. Fundarmenn voru sammála um að stefnan skuli ekki fela í sér mjög nákvæm fyrirmæli né leiðir að markmiðum. Það væri fagfólks skólanna og íþrótta- og æskulýðsfélaga að velja leiðir að þeim markmiðum sem skólastefnan kveður á um. Áhersla var lögð á að draga ekki úr sjálfstæði eða faglegu frelsi fagfólksins í málaflokkunum.

3. mál.

Rætt um skilgreiningu á hlutverki skóla- og æskulýðsstofnana. Trausti kynnti hugmynd að orðun á hlutverkinu. Gerðu fundarmenn nokkrar lagfæringar á henni og ákveðið að ígrunda hana frekar til næsta fundar.

Hlutverk

Skólar og íþrótta- og æskulýðsfélög í Vestmannaeyjum gegna því hlutverki í samvinnu við heimilin að:

  • skapa öllum börnum og unglingum bestar aðstæður til náms og þroska
  • búa börn og unglinga undir virka þátttöku í samfélagi er tekur tillit til sérstöðu sinnar, mismunandi sjónarmiða og gilda hins daglega lífs
  • styrkja sjálfsvitund barna og unglinga og stuðla að heilbrigðu líferni þeirra

4. mál.

Tillögur um framhald á vinnu verkefnisstjórnar.

Samþykkt að hafa opinn fund í janúarlok eða byrjun febrúar þar sem drög að stefnumótunarplaggi verða kynnt. Þar verður fólki gefið tækifæri til að koma með athugasemdir og tillögur um breytingar. Því næst verði opinn fundur seinni hluta marsmánaðar um stefnumótunarplaggið áður en endanlega verður gengið frá því til afgreiðslu í nefndum og bæjarstjórn.

Ákveðið að hafa næstu fundi verkefnisstjórnar þriðjudagana 22. nóv., 29. nóv. og 13. des. 2005 kl. 16.00

Fundi slitið klukkan 21.30.

Fundargerð ritaði: Erna Jóhannesdóttir.

Ragnar Óskarsson

Andrés Sigurvinsson

Elsa Valgeirsdóttir

Jóhann Guðmundsson

Magnús Matthíasson

Bergur Elías Ágústsson

Erna Jóhannesdóttir

Trausti Þorsteinsson

Elliði Vignisson

Ólafur Lárusson

Páll Scheving

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159