14.09.2005

Fjölskylduráð -

 

 

Fundur haldinn hjá fjölskylduráði Vestmannaeyja miðvikudaginn 14. september 2005, kl. 16.00.

Mætt voru: Guðrún Erlingsdóttir, Kristín Valtýsdóttir, Helga B. Ólafsdóttir, Ásta Halldórsdóttir, Ágústa Kjartansdóttir, Auður Einarsdóttir, Andrés Sigmundsson, Guðrún Jónsdóttir og Hera Einarsdóttir. Hanna R. Björnsdóttir mætti vegna 21. máls og Sólrún Erla Gunnarsdóttir vegna 1. máls.

1. mál. Fjölskylduráð býður velkomna til starfa á félags-og fjölskyldusviði Sólrúnu Erlu Gunnarsdóttur félagsráðgjafa.

2. – 13. mál . Trúnaðarmál

14. mál. Fyrir lá mánaðarlegt yfirlit til Barnaverndarstofu vegna barnaverndartilkynninga í ágústmánuði. Félags-og fjölskyldusviði bárust alls 7 tilkynningar vegna 8 barna. Ein tilkynning barst vegna vanrækslu barns, ein vegna ofbeldis og 5 vegna áhættuhegðunar barna.

15. mál. Lagt fram bréf frá Barnaverndarstofu dags. 25. ágúst 2005 um sískráningu barnaverndarmála. Barnaverndarstofa hefur tekið saman skýrslu um stöðu mála fyrstu sex mánuði ársins 2005. Á framangreindu tímabili hafa borist 2.515 tilkynningar um 2.458 börn. 73,8% bárust frá höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess og 26,2% frá landsbyggðinni. 94 tilkynningar, eða um 4% allra tilkynninga, bárust í gegnum neyðarlínuna 1-1-2 og voru flestar þeirra til barnaverndar Reykjavíkur eða um 70%. Ástæður tilkynninga skiptast þannig að tæp 33% eru vegna vanrækslu barna, um 18% vegna ofbeldis, 49% vegna áhættuhegðunar barna og 0,2% vegna þess að heilsa eða líf ófædds barns er í hættu.

16. mál. Guðrún Jónsdóttir félagsráðgjafi gerði grein fyrir tilkynningum sem borist hafa félags-og fjölskyldusviði fyrstu 8 mánuði ársins 2005. 75 tilkynningar hafa borist á þessu tímabili vegna 107 barna. Í tilvikum 22 barna liggja fyrir fleiri en ein tilkynning, þ.e. allt frá 2–8 tilkynningar pr. barn. Langflestar tilkynningar koma frá lögreglu eða um 60%. Í um 13% tilvika leitar barnið sjálft, foreldrar þess eða nánustu aðstandendur aðstoðar. Um 38% tilkynninga varða mál sem þegar eru í vinnslu, um 27% tilkynninga er ákveðið að kanna nánar og í um 35% tilkynninga er ekki talin ástæða til könnunar, að öðru leyti en því að foreldrum er tilkynnt um að tilkynning hafi borist félags-og fjölskyldusviði og þeim boðið að hafa samband óski þeir eftir nánari upplýsingum eða aðstoð.

17. mál . Í framhaldi af 17. máli fundar fjölskylduráðs þann 20. júlí sl. tilnefnir fjölskylduráð Kristínu Valtýsdóttur í starfshóp um stefnumótun í forvarnarmálum í Vestmannaeyjum sem er að fara af stað í samstarfi við Vertu til! sem er samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lýðheilsustöðvar um að efla forvarnir í sveitarfélögum landsins.

18. mál. Fjölskylduráð Vestmannaeyja samþykkir að taka þátt í kynningarátaki Lýðheilsustöðvar um verkefnið Geðrækt, sem er fræðslu-rannsókna-og forvarnaverkefni um geðheilsu og áhrifaþætti hennar. Lýðheilsustöð leggur til verksins segul með Geðorðunum 10 og mun fjölskylduráð sjá um dreifingu segulsins á öll heimili í sveitarfélaginu.

19. mál. Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneytinu varðandi gjaldtöku sveitarfélaga vegna ferðaþjónustu fatlaðra.

20. mál . Í framhaldi af umræðum í fjölskylduráði um möguleika þess að taka í notkun TimeCare vaktaáætlanakerfi lagði framkvæmdastjóri fram frekari upplýsingar um TimeCare forritið.

21. mál. Lagt fram bréf frá Félagi eldri borgara í Vestmannaeyjum, dags. 24. ágúst 2005, þar sem Félag eldri borgara óskar eftir því að fjölskylduráð endurskoði ákvörðun sína um að taka gjald fyrir akstur aldraðra. Félag eldri borgara þakkar Vestmannaeyjabæ þá góðu þjónustu sem innt er af hendi til að eldri borgarar geti búið sem lengst heima. Aksturinn er hluti þeirrar þjónustu og hefur rofið einangrun þeirra sem búa einir og veitt þeim tækifæri til að komast í gefandi félagsstarf. Félag eldri borgara bendir á að því miður sé afkoma margra eldri borgara bágborin og við slíkar aðstæður sé allur viðbótarkostnaður íþyngjandi.

Fjölskylduráð þakkar bréf og hlý orð frá Félagi eldri borgara, en telur eðlilegt að nýju reglurnar fái ákveðinn reynslutíma áður en þeim verði breytt eða þær endurskoðaðar. Fjölskylduráð bendir á að eitt af hlutverkum félagsþjónustu sveitarfélaga er að stuðla að velferð íbúa sinna og því er mikilvægt að þeir aðilar, sem telja að núgildandi reglur um ferðaþjónustu aldraðra, íþyngjandi eða hamlandi, hafi samband við starfsmenn félags-og fjölskyldusviðs og kanni rétt sinn til stuðnings vegna þessa.

Andrés Sigmundsson leggur fram eftirfarandi tillögu;

“Legg til að fulltrúi Félags eldri borgara verði boðinn á fund fjölskylduráðs til að ræða framtíðarskipulag aksturs fyrir aldraða.”

Fjölskylduráð samþykkir:

Óski Félag eldri borgara eftir fundi með fjölskylduráði vegna málefna aldraðra er sjálfsagt að verða við því.

22. mál . Lögð fram vetrardagskrá Félags eldri borgara í Vestmannaeyjum 2005- 2006.

Bæjarfulltrúar og fjölskylduráð munu standa að félagsstarfi á Hraunbúðum 23. mars 2006.

23. mál. 22. og 23. september 2005 verður haldin ráðstefna svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra undir yfirskriftinni “Rannsóknir og reynsla” í Gullinhömrum við Þjóðhildarstíg.

23. september 2005 stendur jafnréttisnefnd Hafnarfjarðar fyrir ráðstefnu um framkvæmd laga um fæðingar-og foreldraorlof í Hásölum við Strandgötu Hf.

29. september 2005 heldur Samband íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og Samtök félagsmálastjóra málþing um velferðarmál sveitarfélaga í Salnum Kópavogi.

6. október 2005 verður haldinn aðalfundur Félags stjórnenda í öldrunarþjónustu að Hrafnistu í Reykjavík.

Fleira ekki bókað, fundi slitið kl. 18.15.

Guðrún Erlingsdóttir

Kristín Valtýsdóttir

Helga B. Ólafsdóttir

Ásta Halldórsdóttir

Ágústa Kjartansdóttir

Auður Einarsdóttir

Andés Sigmundsson

Guðrún Jónsdóttir

Hera Einarsdóttir

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159