20.07.2005

Fundur haldinn hjá fjölskylduráði

 

Fundur haldinn hjá fjölskylduráði Vestmannaeyja miðvikudaginn 20. júlí 2005 kl. 16.00.

Mætt voru: Guðrún Erlingsdóttir Kristín Valtýsdóttir, Ágústa Kjartansdóttir, G. Ásta Halldórsdóttir, Helga Bj. Ólafsdóttir, Andrés Sigmundsson, Hera Ósk Einarsdóttir og Thelma Gunnarsdóttir.

1. – 6. mál Trúnaðarmál

7. mál Hera Ósk Einarsdóttir framkvæmdastjóri gerði grein fyrir samantekt úr skýrslu um félagsþjónustu sveitarfélagsins árið 2004 til Hagstofu Íslands.

Dagmæður

Árið 2004 voru 3 dagmæður starfandi, fjöldi barna hjá þeim í desember 2004 voru 18 (14 árið 2003), þar af 5 (sami fjöldi 2003) sem sveitarfélagið greiddi niður fyrir. Flest börnin voru í gæslu fyrir hádegi 4 – 6 klst. eða samtals 11 börn en lengsti dvalartíminn var 9 klst. á dag. Börnum í gæslu hjá dagmæðrum fjölgar milli áranna 2003 og 2004 en hafði fækkað talsvert frá því á árunum 2001 - 2002.

Félagsleg heimaþjónusta

Árið 2004 voru 13 starfsmenn starfandi við heimilishjálp í 7,65 stöðugildum. 93 heimili fengu aðstoð á árinu (99 heimili árið 2003) þar af 64 heimili aldraðra, 27 heimili öryrkja og 2 önnur heimili. Þetta er í fyrsta sinn til margra ára sem heimilum sem fá heimilisaðstoð fækkar milli ára. 24 heimili fengu heimsendan mat á árinu 2004 sem er sami fjöldi og árið á undan.

Félagsleg liðveisla

1. desember 2004 voru 15 starfsmenn í samtals 1,74% stöðugildum við félagslega liðveislu til fatlaðra. Fækkað hafði um 2 starfsmenn og 0,3 stöðugildi frá því árinu á undan. 17 einstaklingar fengu liðveislu á árinu í alls 3.100 tíma eða að meðaltali 182 tíma hver einstaklingur. Er hér um að ræða sama fjölda fatlaðra sem nutu þjónustu en tímamagnið á hvern einstakling minnkaði milli ára. 3 einstaklingar voru á biðlista í árslok, einum færri en 2003.

Fjárhagsaðstoð

Á árinu 2004 fengu 60 einstaklingar/fjölskyldur fjárhagsaðstoð hjá Félags-og fjölskyldusviði Vestmannaeyjabæjar. Er hér um að ræða talsverða fækkun aðstoðarþega milli ára og hafa heimili sem njóta fjárhagsaðstoðar ekki verið færri frá því árið 2000. 45% (27) þeirra sem fengu aðstoð á árinu höfðu einnig fengið aðstoð árið áður og eru það hlutfallslega fleiri en árið 2003. Af þeim sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2004 fengu flestir eða 22 aðstoð í eitt skipti/mánuð, 23 fengu aðstoð í 2 -3 mánuði en 15 fengu aðstoð í 4 mánuði eða lengur. Skiptingin er nokkuð svipuð og árið á undan.

7 hjón/sambúðarfólk (12%) fengu aðstoð en 53 einhleypingar (88%). Skipting aðstoðar milli hjóna/sambúðarfólks og einhleypinga er sambærileg milli ára sem og hlutfall einhleypra með börn (52%) og barnlausra (48%)

Aðilar utan vinnumarkaðar (atvinnulausir, lífeyrisþegar og sjúklingar) voru 80% aðstoðarþega sem er fjölgun um 5% milli ára, en aðstoðarþegum á vinnumarkaði fækkaði hins vegar um 5% milli ára.

Heildarupphæð fjárhagsaðstoðar árið 2004 var kr: 7.431.023 og lækkaði heildarupphæð fjárhagsaðstoðar um kr: 1.7 milljón eða um rúm 20% milli ára. Meðalupphæð fjárhagsaðstoðar á árinu fyrir hvert heimili sem naut aðstoðar var kr: 123.850 sem er tæp 13% hækkun frá árinu á undan.

Meðalaldur þeirra sem fengu aðstoð var 33 ár á árinu 2004 og heldur meðalaldur aðstoðarþega áfram að lækka milli ára frá því að vera tæp 40 ár árið 2000, 38 ár árið 2001, 35 ár árið 2002 og 34 ár í fyrra.

8. – 14. mál Barnavernd

15. mál Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir sískráningu barnaverndarmála í júnímánuði.

Samtals bárust félags- og fjölskyldusviði 6 tilkynningar í júnímánuði vegna 10 barna.

Tvær tilkynningar bárust vegna vanrækslu gagnvart börnum, ein vegna tilfinningalegs/sálræns ofbeldis og þrjár vegna áhættuhegðunar barna þar sem börn stefna eigin heilsu og þroska í hættu með hegðun sinni eða afbrotum.

Á fyrstu 6 mánuðum ársins hafa félags-og fjölskyldusviði borist 61 tilkynning vegna 91 barns, 12 tilkynningar vegna vanrækslu á börnum, 7 tilkynningar vegna ofbeldis gegn börnum og 42 tilkynningar vegna áhættuhegðunar barna.

16. mál Lögð fram samantekt út skýrslu til Barnaverndarstofu fyrir árið 2004 sem Guðrún Jónsdóttir félagsráðgjafi hefur tekið saman.

Á árinu 2004 var unnið með málefni 39 fjölskyldna vegna 53 barna. Um var að ræða mál 33 drengja og 20 stúlkna, flest á aldrinum 11 – 14 ára eða 17 talsins, 14 á aldrinum 15 - 18 ára, 13 á aldrinum 6 - 10 ára og 9 á aldrinum 0 - 5 ára. Ný mál voru 12. Málum fækkaði um 14 eða tæp 21% frá 2003 en þó hefur barnaverndarmálum fjölgað um 83% frá árinu 2000 til ársins 2004. Árið 2004 bárust 87 tilkynningar og var alls tilkynnt um 70 börn.

Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu eða 35%, tæp 21% frá fræðsluyfirvöldum, frá foreldrum og aðstandendum barns um 25% tilkynninga, tæp 10% frá heilbrigðisyfirvöldum og aðrar tilkynningar frá nágrönnum eða öðrum aðilum. Flestar tilkynningar voru vegna áhættuhegðunar barns, samtals 49. Undir áhættuhegðun barns flokkast neysla barns á vímuefnum, afbrot barna, erfiðleikar barns í skóla, ofbeldishegðun barns, sjálfsvígstilraunir og önnur tilvik þar sem barn stefnir eigin heilsu og þroska í hættu. Af þessum þáttum voru afbrot barns og erfiðleikar í skóla algengasta ástæða tilkynningar. Tilkynningar vegna gruns um vanrækslu barns voru 30 en undir vanrækslu flokkast líkamleg vanræksla, vanræksla vegna umsjónar og eftirlits með barni, vanræksla varðandi nám og tilfinningaleg vanræksla. Af þessum þáttum var vanræksla varðandi umsjón og eftirlit með barni lang algengust. Undir þann þátt flokkast m.a. vanræksla sökum vímuefnaneyslu foreldra. Tilkynningar vegna gruns um ofbeldi gagnvart börnum voru samtals 8. Undir ofbeldi flokkast tilfinningalegt/sálrænt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi. Tilkynningar bárust vegna allra þessara þátta.

Í málum 29 barna var tekin ákvörðun um að hefja ekki könnun. Öll þessi mál voru vegna tilkynninga frá lögrelgu þar sem gjarnan er um að ræða minni háttar afbrot barns en í samvinnu við lögrelgu hefur sú vinnuregla tíðkast um nokkuð skeið að starfsmenn félags-og fjölskyldusviðs senda forráðamönnum barna bréf til upplýsingar um fyrstu afskipta lögreglu af barni og bjóða aðstoð óski forráðamenn eftir þvi. Í málum 45 barna var tekin ákvörðun um frekari könnun. Ekki var talin ástæða til að aðhafast frekar í 7 málum en 13 þessara mála voru enn á könnunarstigi í lok árs. 25 mál leiddu því til frekari aðgerða auk þess sem 8 eldri mál voru einnig í vinnslu árið 2004.

Þau stuðningsúrræði sem barnaverndarnefnd notaði voru leiðbeiningar til foreldra um uppeldi og aðbúnað (24 tilvik), barni eða fjölskyldu útvegaður tilsjónarmaður, persónulegur ráðgjafi eða stuðningsfjölskylda (7 tilvik), barni útvegaður viðeigandi stuðningur, meðferð eða sumardvö (7 tilvik), foreldrar aðstoðaðir við að leita sér meðferðar (7 tilvik) og önnur úrræði s.s. athvarfsdvöl, foreldrafræðslunámskeið o.fl. (7 tilvik) 5 börn voru í fóstri á árinu og 8 börn til viðbótar vistuð utan heimilis, á einkaheimilum eða stofnunum á vegum ríkisins. Er um að ræða aukningu á úrræðum utan heimilis milli ára sem bendir til þess að unnið sé með þyngri mál en áður. Allar þessar ráðstafanir voru gerðar með samþykki foreldra. Ekki var gripið til neinna þvingunarúrræða á árinu.

Í árslok var málum 10 barna lokið. Málum 6 barna hafði verið vísað til annarra nefnda en mál 37 barna voru enn í vinnslu.

Auk ofangreindra mála var veitt ráðgjöf í forsjár-og umgengismálum, yfirleitt að frumkvæði foreldra. Þá var einnig unnið í málefnum nokkurra barna í samvinnu við aðrar barnaverndanefndir í landinu.

17. mál Fyrir lá erindi frá félags-og fjölskyldusviði um verkefnið Vertu til, sem er forvarnarverkefni Sambands ísl. Sveitarfélaga og Lýðheilsustöðvar um að efla áfengis- og fíkniefnaforvarnir sveitarfélaga. Fjölskylduráð telur mikilvægt að Vestmannaeyjabær taki þátt í þessu verkefni sameiginlega á sviði fjölskylduráðs, - skólamálaráðs og menningar- og tómstundaráðs, sem þegar hafa fjallað um málið og samþykkt fyrir sitt leiti þáttöku. Um leið beinir ráðið því til framkvæmdastjóra sviðsins og forvarnarfulltrúa að gera ráð fyrir þeim kostnaði sem á ráðið fellur (100 þúsund krónur) við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

18. mál Fjölskylduráð samþykkir að bakvakt vegna barnaverndarmála verði starfrækt frá hádegi föstudaginn 29. júlí til hádegis mánudaginn 1. ágúst 2005. Gert er ráð fyrir kostnaði vegna bakvakta á þjóðhátíð í fjárhagsáætlun ársins 2005.

19. mál Framkvæmdastjóri lagði fram þakkarbréf frá dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum til Reb.stúku nr. 3 Vilborg I.O.O.F sem hefur fært heimilinu að gjöf 2 náttborð að verðmæti kr: 124.042,- Fjölskylduráð þakkar Reb.stúkunni hlýhug til heimilisins og heimilismanna.

20. mál Framkvæmdastjóri lagði fram samantekt um húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar ásamt tillögu að fjölgun búsetuúrræða fyrir fatlaða. Í samræmi við stefnuskrá Landssamtakanna Þroskaþjálpar, sem byggir í grundvallaratriðum á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Íslendingar hafa undirritað, er lögð áhersla á fjölgun búsetuúrræða í sjálfstæðri búsetu með einstaklingsmiðaðri þjónustu og stuðningi svo fólk með sérþarfir geti notið þeirra lífsgæða sem felst í því að eiga heimili. Rétturinn til að búa á eigin heimili felur í sér réttinn til að eiga eða leigja íbúð í almennu íbúðahverfi. Félagslegar leiguíbúðir og sambýli eru tveir búsetukostir sem taka mið af því hvort einstaklingurinn hafi þörf fyrir mjög litla þjónustu eða mikla þjónustu í búsetu, en á sambýli er sólarhringsþjónusta og hluti af heimilishaldi sameiginlegur. Eitt af markmiðum sambýlisins er að efla íbúa og þjálfa upp færni til sjálfstæðra búsetu. Þegar því markmiði er náð þarf að vera til staðar öruggt húsnæði og þjónusta í sjálfstæðri búsetu. Einnig er mikilvægt að ungu fötluðu fólki sem býr í foreldrahúsum standi til boða öruggt og öflugt búsetuúrræði við flutning að heiman.

Með hliðsjón af ofangreindu leggur fjölskylduráð til að kannaður verði möguleikinn á því að nýta hluta félagslegra eignaríbúða sem verndaðar íbúðir með skipulagðri þjónustu fyrir fatlaða í sjálfstæðri búsetu. Þjónustu við íbúa mætti stýra út frá einni íbúð sem starfsstöð verndaðra íbúða, þar sem lögð er áhersla á að samþætta og samnýta rými fyrir þjálfun, skipulagða stoðþjónustu og tómstundir til að fyrirbyggja hættu á félagslegri einangrun fatlaðra við flutning í sjálfstæða búsetu.

Í dag eru um 10 íbúðir hjá Vestmannaeyjabæ nýttar sem leiguíbúðir fyrir fatlaða og öryrkja. Gera má ráð fyrir að þörf verði á allt að 10 íbúðum til viðbótar á næstu árum en þegar liggja fyrir tvær umsóknir um sérhæft búsetuúrræði.

21. mál Lagt fram svarbréf frá Félagsmálaráðuneytinu við beiðni um styrki úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til ýmissa verkefna á vegum Vestmannaeyjabæjar. Framkvæmdasjóður fatlaðra úthlutaði til Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2005 samtals kr: 6.2 m.kr þ.a. til lagfæringar og endurbóta á húseigninni Búhamri 17 samtals kr: 3,5 milljónir.

22. mál Lögð fram útskrift úr fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja frá 1. júlí 2005. Um er að ræða bréf frá Félagsmálaráðuneytinu og Jafnréttisstofu varðandi ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Bréfritarar vilja vekja athygli íslensks vinnumarkaðar á því mikilvæga hlutverki sem vinnumarkaðurinn hefur, í að koma á raunverulegu jafnrétti, m.a. með því að koma í veg fyrir að vinnuframlag kvenna og karla séu metin á grundvelli ólíkra sjónarmiða, sjónarmiða sem viðhalda kynbundnum launamun. Guðrúnu Jónsdóttur félagsráðgjafa er falinn framgangur málsins. Jafnframt er bent á að jafnréttislögin og ýmsar upplýsingar um jafnréttismál er hægt að nálgast á vefsíðu Jafnréttisstofu www.jafnretti.is

23. mál Framkvæmdastjóri lagði fram og fór yfir 5 mánaða stöðukeyrslu fyrir félags-og fjölskyldusvið.

FLEIRA EKKI BÓKAÐ. FUNDI SLITIÐ KL. 19.15

Guðrún Erlingsdóttir

Kristín Valtýsdóttir

Ágústa Kjartansdóttir

G. Ásta Halldórsdóttir

Helga Bj. Ólafsdóttir

Andrés Sigmundsson

Hera Ósk Einarsdóttir

Thelma Gunnarsdóttir

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159