26.04.2005

153. fundur Skólamálaráðs Vestmannaeyja

 

153. fundur Skólamálaráðs Vestmannaeyja var haldinn í fundarherbergi Íþróttamiðstöðvarinnar 26. apríl 2005 klukkan 16.30.

 

Mætt voru : Elsa Valgeirsdóttir, Jóhann Guðmundsson, Gunnlaugur Grettisson, Páll Marvin Jónsson, Andrés Sigmundsson, Steinunn Jónatansdóttir og Margo Renner.

Auk þeirra sátu fundinn: Guðrún Helga Bjarnadóttir, Erna Jóhannesdóttir og Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri og Bergur E. Ágústsson bæjarstjóri.

Áheyrnarfulltrúar vegna leikskólanna: Auður Karlsdóttir, Júlía Ólafsdóttir, Una Þóra Ingimarsdóttir, Helena Jónsdóttir, Alda Gunnarsdóttir.

Áheyrnarfulltrúar vegna grunnskólanna: Hjálmfríður Sveinsdóttir, Guðrún Snæbjörnsdóttir, Karen Fors, María Pálmadóttir og Ingibjörg Finnbogadóttir.

Áheyrnafulltrúi vegna tónlistarskólans: Guðmundur Guðjónsson

 

Fundargerð ritaði: Gunnlaugur Grettisson

 

1. mál

 

Bergur E. Ágústsson fór yfir stöðu fjármála málaflokksins fyrir fyrstu 3. mánuði ársins.

 

2. mál

 

Fyrir liggur tillaga fræðslu- og menningarsviðs um gjaldskrá daggjalda vegna gæsluvallarins Strandar við Miðstræti fyrir árið 2005.

Daggjald fyrir 20 mánaða – 2 ½ verði 100 kr. (1-2 klst.) verð óbreytt

Daggjald fyrir 2 ½ og eldri verði 200 kr., var kr. 150.

Í boði er að kaupa afsláttarkort fyrir eldri börnin, 10 skipti á 1500 kr.

Skólamálaráð samþykkir þessa tillögu samhljóða.

 

3. mál.

 

Fyrir lágu erindi frá Stjórn foreldrafélags leikskólans á Sóla, spurt:

1. a) um fjölda deilda hins nýja leikskóla?

b) hvaða stefna verði á nýjum leikskóla?

c) hvort til standi að sameina Rauðagerði og Sóla?

2. Hvort hægt verði að kaupa strax þau leiktæki sem fyrir liggur að eigi að kaupa fyrir

nýja leikskólann að Sóla?

3. Fyrir liggur bréf frá foreldrafélagi leikskólans Sóla þar sem farið er fram á að

leikskólagjöldin verði lækkuð um 50% frá og með 1. maí nk. vegna óviðunandi

húsnæðis.

 

Sbr. 7. mál skólamálaráðsfundar sem haldinn var 12.04. 2005 sl. vill ráðið taka fram að á næstunni mun liggja fyrir niðurstaða bæjarstjórnar varðandi byggingu leikskóla á Sólalóðinni og öðrum framkvæmdum sem að þeim snúa. Varðandi lækkun á leikskólagjöldum getur skólamálaráð ekki orðið við erindinu. Skólamálaráð vísar fyrirspurn um lóðarmálin til umhverfis- og tæknisviðs og óskar eftir tillögum varðandi málið.

Bæjarstjóri upplýsir að ákvörðun um framtíðarskipulag Sóla muni liggja fyrir innan mánaðar.

 

4. mál

 

Fyrir liggur bréf um samþykkt stjórnar Heimilis og skóla um auglýsingar og kostun í skólum frá 19. mars 2005.

Skólamálaráð felur framkvæmdastjóra að vinna drög að verklagsreglum í samstarfi við skólastjórnendur og leggja fyrir ráðið.

Skólamálaráð samþykkir þessa tillögu samhljóða.

 

5. mál

 

Fyrir lá erindi frá skólastjórum leik- og grunnskóla í Vestmannaeyjum til kynningar um ætlun þeirra að sækja um að gerast „skóli á grænni grein”.

Skólamálaráð þakkar upplýsingarnar og lýsir yfir ánægju sinni með framtakið.

 

6. mál

 

Fyrir lá bréf frá foreldrum 4 nemenda sem stunda nám í 9. bekk við Hamarsskólann og hyggjast ljúka samræmdu prófum í ensku í vor, hvernig samstarfi grunn- og framhaldsskólans verði háttað með tilliti til áframhaldandi enskunáms þessara nemenda og hver sé stefna skólyfirvalda varðandi samstarf þessara tveggja skólastofnanna?

Skólameistari og skólastjórar hafa markað sér stefnu varðandi þessa samvinnu og gert eftirfarandi samkomulag sín á milli.

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (FÍV)

 

og

 

Grunnskólarnir í Vestmannaeyjum

 

gera með sér eftirfarandi samkomulag:

 

 

Aðilar að þessu samkomulagi eru sammála um að þegar nemendur grunnskólanna óska eftir að stunda einingabært nám við FÍV á meðan þeir eru enn í grunnskóla, skuli eftirfarandi reglur / viðmiðanir gilda:

 

1. Meginreglan skal vera sú að nemendur hafi lokið samræmdu prófi í viðkomandi námsgrein áður en námið hefst.

 

 

2. Þurfi að gera undanþágur frá meginreglunni skal um það samið við FÍV í hvert skipti, á eftirfarandi forsendum:

 

a) Grunnskólinn setji stífar inntökureglur í slíkan námshóp (t.d. eink. 9).

b) Náin samvinna þarf að vera milli skóla og FÍV um námsefni, skipulag námsins og námskröfur. Tímafjöldi skal vera sami og í FÍV.

c) FÍV annast prófagerð og fyrirlagningu prófa ásamt yfirferð þeirra.

d) Nemendur sem koma inn í áfanga án samræmda prófsins þurfa að ná lokaeinkunn 7 til að ljúka áfanganum.

e) Endanleg staðfesting á að áfanganum sé lokið fæst þó ekki fyrr en nemandinn hefur lokið samræmdu prófi í greininni (þar sem slíkt á við).

 

 

Vestmannaeyjum í apríl 2005.

 

Ólafur H. Sigurjónsson FÍV

Hjálmfríður Sveinsdóttir Barnask.

Sigurlás Þorleifsson Hamarsskóla

 

Fræðsluskrifstofa leitaði sér upplýsinga um þessi mál hjá mrn. og þar kemur fram að verið er að móta framatíðarverklagsreglur í tengslum við fyrirhugaða styttingu framhaldskólastigsins varðandi fljótandi skil grunn- og framhaldsskóla. Þær vinnureglur sem viðhafðar eru varðandi nám grunnskólanemenda sem lokið hafa samræmdu prófi í ákveðnum fögum og vilja hefja nám í framhaldsskóla samhliða grunnskólanáminu eru: Að nemandinn skuli bera allan kostnað s.s. af innritunargjöldum og bókakaupum. Að öðru leyti greiðir ríkið þann kosnað sem til fellur sbr. aðra nemendur framhaldsskóla.

Skólamálaráð lýsir sig samþykkt þessu samkomulagi og fagnar að skýrar línur skuli komnar á varðandi samstarf þessara tveggja skólastiga.

 

7. mál

 

Fyrir lá bréf frá skólastjóra Barnaskólans um beiðni um styrk handa 5 umsjónakennurum og 2 stjórnendum til að kynna sér kennsluhætti í nokkrum grunnskólum Reykjavíkur sem hafa tekið upp kennsluhætti einstaklingsmiðaðs náms.

Skólamálaráð samþykkir tillöguna fyrir sitt leyti enda rúmast hún innan fjárhagsáætlunar.

 

8.mál

 

Í framhaldi af viðræðum við formann Taflfélags Vestmannaeyja og fleiri innan félagsins og stjórnenda Barnaskóla Vestmannaeyja leggur fræðslu- og menningarsvið fram eftirfarandi tillögu: Skólamálaráð styrki Taflfélag Vestmannaeyja um kr. 60.000 og koma þannig til móts við kr. 20.000 framlag BV til að standa straum af hluta af kostnaði þeim sem greiddur hefur verið af TV, sem hlotist hefur af þátttöku keppnissveita Barnaskólans á Íslandsmót barnaskólasveita í febrúar sl., og á skólaskákmót Suðurlands í mars sl. Til upplýsinga þá hefur Taflfélagið lagt út kr. 124. 000. í þessar tvær ferðir.

Vöxtur og uppgangur Taflfélagsins hefur farið langt fram úr björtustu vonum og A sveit BV hafnaði í 3ja sæti á Íslandsmóti og sigraði á Suðurlandsmótinu, og B sveit skólans hafnaði í 2. sæti í flokki 1-7 bekkja. Sindri Freyr Guðjónsson vann núna um sl. helgi Suðurlandsmeistaratitil 5. bekkjar.

Skólamálaráð samþykkir tillöguna samhljóða enda rúmast hún innan fjárhagsáætlunar.

 

Skólamálaráð bendir jafnframt á að nauðsynlegt er að skilgreina nánar ákvæði samnings taflfélagsins og Vestmannaeyjabæjar um samráð og þátttöku fræðslu- og menningarsviðs og felur framkvæmdastjóra að vinna að málinu.

 

9. mál.

 

Fyrir liggur bréf til kynningar frá Menntamálaráðuneytinu þar sem fram kemur að það hyggst á næstunni afla upplýsinga um kennslu í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði í grunnskólum og menntun kennara sem kenna námsgreinina í grunnskólum skólaárið 2004-2005, sbr. reglugerð nr. 384/1996 um upplýsingaskyldu sveitarfélaga um skólahald. Spurningalisti verður sendur til allra skólastjóra grunnskóla á næstunni í rafrænu formi.

 

10. mál

 

Þroskaþjálfinn Hulda Líney Magnúsdóttir hefur sagt upp störfum frá og með næsta skólaári sem þroskaþjálfi og hyggst snúa sér að almennri kennslu.

Skólamálaráð þakkar henni velunnin störf og óskar henni velfarnaðar í nýju starfi.

 

11. mál

 

Fyrir lá bréf fram mrn. um breytingar á reglugerð 414/2000 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra lokafprófa í 10.bekk í grunnskólum.

Breytingarnar felast í 2.gr. reglugerðarinnar og orðast svona: „Nemendum í 10 bekk grunnskóla skal gefast kostur á að þreyta samræmd próf í allt að sex námsgreinum sem menntamálaráðherra ákveður. Þeir nemendur í 8. og 9. bekk, sem að mati skólastjóra og umsjónarkennara, hafa staðist þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt aðalnámskrá við lok grunnskóla í einstökum námsgreinum, geta, með samþykki forsjáraðila, valið að þreyta samræmd lokapróf í þeim námsgreinum.

 

Nemenda er heimilt að endurtaka samræmt lokapróf einu sinni. Velji nemandi að endurtaka próf skal síðari einkunnin gilda.”

 

12.mál

 

Fræðslufulltrúi kynnti kaup fræðsluskrifstofu á kynningarriti fyrir foreldra og forráðamenn barna sem eru að byrja í grunnskóla næsta haust og ætlunin er að færa foreldrum þetta rit sem gjöf frá skólamálaráði og fræðsluyfirvöldum á kynningarfundi fyrir foreldra á komandi vori.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið 18:00.

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159