28.08.2003

Menningarmálanefnd 28. Ágúst

 
Menningarmálanefnd 28. Ágúst 2003 Menningarmálanefnd 28. Ágúst 2003
190. fundur menningarmálanefndar Vestmannaeyjabæjar var haldinn í Ráðhúsinu fimmtudaginn 28. ágúst 2003 kl. 17.00. Mætt voru Sigríður Bjarnadóttir, Sigurður E. Vilhelmsson og Selma Ragnarsdóttir. Auk þeirra sátu Nanna Þóra Áskelsdóttir og Sigurður Símonarson, skóla- og menningarfulltrúi fundinn.

Formaður, Sigríður Bjarnadóttir setti fund og stjórnaði honum.

1. mál.
Tekin fyrir starfsmannamál á bókasafni.
a) Elísabet Ruth Guðmundsdóttir hefur sagt starfi sínu lausu frá 1. ágúst sl. með bréfi dags. 28. júlí. Forstöðumanni bókasafns falið að auglýsa eftir bókasafnsfræðingi í 50% starf.

2. mál.
Nauðsynlegt er að endurskipuleggja ræstingamálin í Safnahúsinu vegna aukinnar notkunar og umgengni um byggðasafnið. Menningarmálanefnd samþykkir að fela forstöðumanni Safnahúss að undirbúa nýja útboðslýsingu að teknu tilliti til breyttra þarfa. Jafnframt samþykkir menningarmálanefnd að segja upp núverandi samningi um ræstingu á bókasafninu.

3. mál.
Lögð fram útskrift úr fundargerð bæjarráðs frá 23. júní 2003, þar sem menningarmálanefnd og Andrési Sigurvinssyni, sem annaðist dagskrárgerð, er þakkað fyrir vel heppnuð hátíðarhöld á 17. júní sl. á Stakkagerðistúni. Framkvæmdin tókst í alla staði vel og vonast bæjarráð til að framhald verði á á komandi árum.

4. mál.
Lögð fram útskrift úr fundargerð bæjarráðs frá 21. júlí 2003, þar sem vísað var til menningarmálanefndar bréfi frá Fornleifavernd ríkisins dags. 14. júlí sl. um kynningu á starfsemi stofnunarinnar.

5. mál.
Lagt fram bréf Þjóðhátíðarsjóðs til Byggðarsafns Vestmannaeyja, dags. 5. júní 2003, þar sem tilkynnt er um þá ákvörðun sjóðsins að veita safninu styrk að upphæð kr. 150 000.
Menningarmálanefnd færir stjórn sjóðsins þakkir fyrir og felur forstöðumanni Safnahúss framgang málsins í samræmi við efni bréfsins.

6. mál.
Lagt fram bréf Leikfélags Vestmannaeyja, dags. 25. ágúst 2003, þar sem óskað er eftir fjárstuðningi til þess að standa undir ferðakostnaði leikstjóra á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja vegna fyrirhugaðra æfinga og sýninga.
Menningarmálanefnd samþykkir að veita Leikfélaginu styrk að fjárhæð kr. 60 000, enda rúmast sú upphæð innan ramma fjárhagsáætlunar.

7. mál.
Vegna listsýninga sem voru hér í Eyjum um goslokahelgina, samþykkir menningarmálanefnd kaup á listaverki í samvinnu við goslokanefnd. Hluti andvirðis verksins kemur til greiðslu á næsta ári og þarf því að gera ráð fyrir 100.000.- kr. í fjárhagsáætlun fyrir árið 2004 vegna þessa.

8. mál.
Lagðar fram hugmyndir um skipulag og fyrirkomulag á útisvæði við byggðasafnið. Forstöðumanni Safnahúss og safnverði byggðasafns er falið að kynna hugmyndirnar fyrir framkvæmdastjóra tækni- og umhverfissviðs og skipulags- og byggingarfulltrúa með tilliti til þess að vinna að frekari framgangi málsins. Greinargerð, sem m.a. taki til verk- og kostnaðaráætlunar verði síðan tekin til nánari umræðu í menningarmálanefnd.

9. mál.
Menningarmálanefnd leggur á það áherslu að leitað verði leiða til þess að unnt verði að fjármagna merkingar á Safnahúsinu og aðkomuleiðum að því til glöggvunar fyrir ferðamenn sem ekki þekkja til í Vestmannaeyjum. Nefndin beinir þeim tilmælum til tækni- og umhverfissviðs að hraða götumerkingum vegna safna og minja eins og frekast er unnt.

10. mál.
Nanna gerði grein fyrir möguleikum á styrkumsóknum til menningaráætlunar ESB, Menning 2000. Menningarmálanefnd felur henni að vinna málið frekar.

11. mál.
Sýning á verkum Júlíönu Sveinsdóttur verður opnuð á Listasafni Íslands 13. september næstkomandi. Listasafn Vestmannaeyja hefur lánað verk á sýninguna og fyrirhugað er að halda sýningu á verkum listamannsins í Vestmannaeyjum þegar þau koma aftur til Eyja.

12. mál.
a) Ræddir kostir þess að Listasafn Vestmannaeyja og Ljósmyndasafn Vestmannaeyja fái sérstakar stofnskrár og verði formlega aðskilin frá Byggðasafni Vestmannaeyja. Nanna mun kanna málið nánar.
b) Menningarmálanefnd þakkar Sigurði R. Símonarsyni gott samstarf og vel unnin störf. Sigurður kvaddi og þakkaði nefndinni samstarfið.

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 18.30.
Sigríður Bjarnadóttir, Sigurður E. Vilhelmsson, Sigurður R. Símonarson, Selma Ragnarsdóttir, Nanna Þóra Áskelsdóttir.


 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159