17.10.2002

Menningarmálanefnd 17. Október

 
Menningarmálanefnd 17. Október 2002 Menningarmálanefnd 17. Október 2002
178. fundur menningarmálanefndar Vestmannaeyjabæjar var haldinn í Bókasafninu fimmtudaginn 17. október 2002 kl. 17.00. Mætt voru Selma Ragnarsdóttir og Sigríður Bjarnadóttir en Oddný Garðarsdóttir boðaði forföll á síðustu stundu. Auk þeirra sátu fundinn Nanna Þóra Áskelsdóttir, Hlíf Gylfadóttir, Kristján Egilsson og Sigurður Símonarson.

1. Stofnskrár safnanna í Vestmannaeyjum.
Lögð voru fram drög að stofnskrám fyrir Fiska- og Náttúrugripasafnið í Vestmannaeyjum og Byggðasafn Vestmannaeyja. Fram kom að sótt hefur verið um frest til Safnaráðs til þess að skila inn stofnskránum til 10. nóvember n.k. en skilafrestur er til 31. október 2002 fyrir þau söfn er koma vilja til greina við úthlutun rekstrar- og/eða verkefnastyrkja úr sjóðnum á þessu ári.
Menningarmálanefnd samþykkir að afgreiða stofnskrárnar á næsta fundi sínum, sem verður haldinn 22. október n.k. kl. 17.00 á Bókasafninu.

2. Starfsmannamál.
Forstöðumaður Safnahúss greindi frá nauðsyn þess að um áframhaldandi ráðningu á starfsmanni við skráningu og frágang ljósmyndasafnsins yrði að ræða. Forstöðumanni falið að undirbúa gerð ráðningarsamning í samræmi við umræður á fundinum.

3. Svarbréf hefur borist frá Styrktarsjóði EBÍ, dags. 14. október 2002, þar sem styrkumsóknum sem sendar voru er hafnað.

4. Lagt fram bréf dags. 28. september 2002 frá búlgarskri textíllistakonu, Silvia Haralambova, þar sem hún óskar eftir upplýsingum um möguleika til sýningarhalds ásamt þeim styrkjum og aðstöðu sem í boði er fyrir erlenda listamenn.
Skóla- og menningarfulltrúa er falið að svara bréfritara.

5. Bréf Jóhanns Jónssonar dags. 9.október 2002, þar sem spurst er fyrir um listaverk þau er urðu til í verkefninu “Hraun og menn”.
Formaður menningarmálanefndar hefur sent spurningar bréfritara til Þróunarfélagsins sem hafði umsjón með verkefninu og mun svara bréfritara þegar svör við þeim liggur fyrir.

 

 

 

6. Bréf Félags íslenskra tónlistarmanna, dagsett 28. ágúst 2002, þar sem kynntir eru þeir tónleikar er standa til boða á haustönn 2002 og tölvubréf, dagsett 26. september s.l., þar sem greint er frá því tónlistarfólki sem ekki er fullbókað á önninni.
Í ljósi þess hversu mikið hefur verið um tónleikahald frá því í haust og annarra viðburða sem er í vændum telur menningarmálanefnd rétt að fresta því að fá hingað tónleika í samstarfi við FÍT þar til á vormisseri.

7. Lögð fram skýrsla Andrésar Sigurvinssonar, dags. 12. október 2002, vegna ferðar hans og ungmenna úr Leikfélagi Vestmannaeyja til Noregs til þátttöku í Vesterålenverkefninu.
Menningarmálanefnd færir Andrési þakkir fyrir árangursíkt starf með leikfélagsfólkinu og hvetur til þess að fundnar verði leiðir til þess að um áframhaldandi samstarf þessara aðila verði að ræða.

8. 30 ára goslokarafmæli árið 2003 var rætt og þá fyrst og fremst aðkoma menningarmálanefndar að því verkefni í samvinnu við goslokanefnd þá sem skipuð hefur verið til þess að undirbúa hátíðarhöldin af hálfu bæjarins.

9. Önnur mál.
a) Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður heimsótti Vestmannaeyjar í síðustu viku og lýsti hún ánægju sinni með þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum á innra starfi Byggðasafnsins og sýningaraðstöðu.
b) Forstöðumaður Safnahúss minnti á “Alþjóðlega bangsadaginn” 27. október n.k.
c) Árleg norræn bókasarfnsvika verður 4. – 10. nóvember n.k. Þema vikunnar að þessu sinni er “Norðrið hefur orðið “.
d) Minnt er á “Dag íslenskrar tungu” 16. nóvember, sem að þessu sinni ber upp á laugardag.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 18.45.

Sigurður R. Símonarson
Selma Ragnarsdóttir
Nanna Þóra Áskelsdóttir
Sigríður Bjarnadóttir
 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159